Sigríður Ingibjörg Stefánsdóttir fæddist í Ásgarði á Svalbarðsströnd 5. júlí 1929. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 27. apríl síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Stefán Magnússon, f. 23. maí 1901, d. 11. maí 1976, og Ingibjörg Valdimarsdóttir, f. 8 september 1903, d. 19. janúar 1998. Bræður hennar eru Hermann, f. 30. október 1926, Bragi, f. 11. maí 1933, og Birgir, f. 2. október 1942.

Sigríður giftist 31. desember 1955 Gunnari Pálmarssyni, f. 25. mars 1925. Foreldrar hans voru Jón Pálmar Sigurðsson, f. 7. apríl 1895, d. 18. maí 1978, og Anna Guðbjörg Helgadóttir, f. 11. september 1898, d. 11. október 1969.

Synir Sigríðar og Gunnars eru:

1) Stefán Ingi, f. 3. desember 1955, kvæntur Guðfinnu Steingrímsdóttur og eiga þau Steingrím Inga, Sigríði Ingibjörgu og Núma. 2) Jóhann Þór, f. 11. júlí 1957, sambýliskona hans er Valgerður Rögnvaldsdóttir. 3) Jón Bragi, f. 18. maí 1960, og á hann Inga Þór, Gunnar Björn og Magnús Pálmar. 4) Magnús, f. 30. ágúst 1962, kvæntur Hjördísi Valtýsdóttur og eiga þau Katrínu og Pálmar.

Útför Sigríðar fer fram frá Svalbarðskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Hálf öld er langur tími. Sigríður Ingibjörg eða Sigga Bogga eins og hún var kölluð kynntist einni úr hópnum norður á æskustöðvunum við Eyjafjörð laust fyrir 1950. Hún fluttist síðan til Reykjavíkur eins og svo margir aðrir og stofnaði hér heimili. Fljótlega eftir að hún kom suður stofnuðum við saumaklúbb, sem kom saman einu sinni í viku framan af árum, en síðar hálfsmánaðarlega. Þar bar margt skemmtilegt á góma og Sigga Bogga var yfirleitt hrókur alls fagnaðar, enda létt í skapi og hláturmild. Ótalin eru þau skipti, sem hún létti skap okkar með kímilegum athugasemdum. Síðar tóku eiginmenn okkar upp á því að stofna spilaklúbb og varð þá sambandið nánara um langt skeið, til dæmis var farið í ferðalög utan lands eða innan á sumrin. Fá sumur liðu um skeið án slíkra sumarferða. Eftirminnilegar eru ferðir vestur í Þorskafjörð, til Flateyjar á Breiðafirði, umhverfis Snæfellsnes, austur í Lón og til Hveravalla og Kerlingafjalla. Einnig gleymist Rínarlandaferðin ekki. Klúbbarnir voru haldnir heima hjá okkur til skiptis og voru eiginmennirnir mjög hrifnir af veitingunum hjá Siggu Boggu, en þar var alíslensk kæfa á boðstólum að rúllupylsunum ógleymdum. Sigga Bogga var myndarleg húsmóðir og kunni að taka á móti gestum.

Sigga Bogga fór að vinna utan heimilis þegar synirnir komust á legg og vann árum saman við gæslu á leikvöllum borgarinnar. Þau hjónin fluttu norður á æskuslóðir hennar þegar eftirlaunaaldri var náð. Hafa þau hugsað gott til glóðarinnar að eyða ævikvöldinu nyrðra. Ekki gafst þó langt tóm, Sigga Bogga tók fyrir alllöngu sjúkdóm, sem henni tókst ekki að vinna bug á. Eftir lifa minningar um glaðværa konu og margar sameiginlegar ánægjustundir. Saumaklúbburinn og eiginmenn færa Gunnari og sonunum fjórum innilegar samúðarkveðjur.

Bergdís, Helga, Jóhanna, Guðbjörg og eiginmenn ásamt Guðjóni.

Mig langar í nokkrum orðum að minnast þín, Sigga mín.

Þar kom að að leiðir okkar skildi. Þú reyndir með ráðum og dáð að svo myndi ekki verða þegar leiðir okkar Jóns Braga lágu ekki lengur saman. En nú var það ekki í þínum höndum, þú fékkst engu um ráðið. Ég sagði stundum við þig að þú færir á undan strætó ef það væri hægt. Þetta var ekki vagninn þinn, þú ætlaðir ekki með þessari ferð. Það heyrði ég vel á þér síðasta kvöldið sem ég sat hjá þér. Þú varst ekkert að fara. Mér finnst eins og þú hafir núna farið á undan vagninum. Ég hugsa oft um hvernig samband okkar var eftir að ég var ekki lengur tengdadóttir þín. Ég held að ég hafi verið það alla tíð í þínum augum. Ég fann vel hvað þér var umhugað um velferð mína og þá ekki síður strákanna. Strákanna okkar allra. Ég fann hvað þú varst alltaf tilbúin að hjálpa mér ef þú mögulega gast eða að þú fékkst Gunna til að gera það, skreppa, senda, sækja eða redda einhverju sem ég hafði ekki tíma til. Að passa strákana fyrir mig hvort heldur það var dagur eða nótt eða heilu sólarhringarnir var alltaf svo sjálfsagt. Aðeins einu sinni man ég eftir að þú gast ekki tekið á móti þeim og ég man að mér brá. Þú sagðir nei. Þig grunaði að Gunni þyrfti á sjúkrahús um nóttina og sú varð raunin. Þetta er í eina skiptið sem ég man eftir að þú hafir ekki getað gert það sem ég hef beðið þig um að gera fyrir mig. Ég hef alltaf fundið velvild og vináttu frá fyrstu tíð. Haustið 1980 kom ég suður með Jóni Braga. Hann var búinn að finna mig í sveitinni þinni og var að fara í skólann. Við fengum að búa hjá ykkur Gunna og alltaf var það sjálfsagt. Við fórum norður á sumrin og suður á haustin og alltaf máttum við vera á Fálkagötunni. Þótt við værum orðin þrjú máttum við vel vera á meðan Jón Bragi var í skóla. Þig munaði nú ekki um einn strák enn, þú í þinni strákaveröld. Fyrst heima í Ásgarði með Hermanni, Braga og Birgi. Síðan giftistu Gunna og þá komu ykkar strákar, Stefán, Jóhann, Jón Bragi og Magnús. Síðan okkar strákar, Ingi Þór og Gunnar Björn. Það var sem sagt ekki mikið af stelpum í kringum þig að dúllast með þér eða við þig. Þú talaðir stundum um stelpurnar hennar Stínu, hvað þær væru nú að gera niðri. Þú hafðir mig inni á gafli hjá þér í sex ár. Ég minnist þeirra sem sex góðra ára. Mér fannst gott að þú vildir skipta þér af mér, leiðbeina og benda mér á. Ég veit að það er stutt á milli afskiptasemi og umhyggjusemi en það sem þú gerðir fyrir okkur var af umhyggjusemi, ég veit það. Oft hef ég reynt á þolinmæði þína. Við vorum ólíkar. Ég með allt mitt dót og drasl einhvers staðar og aldrei á réttum tíma, alltaf of sein. Þú með allt þitt á hreinu. Allir hlutir á sínum stað. Allt átti sinn stað bæði innan heimilis og utan þess og í hjarta þínu. Þar áttu þínir menn líka sinn stað. Allt á sinn tíma, morgunmaturinn, vinnan, kvöldmaturinn, fréttirnar, Jói Long, heimilisstörfin, spilvistin og saumaklúbburinn. Allt gert á sama tíma dag eftir dag eða vikudag. Þannig þurfti það að vera, þetta var þinn stíll. Þú varst húsmóðir á þínu heimili, það gerði enginn heimilisstörfin nema þú og ég heyrði þig ekki kvarta undan þeim. Það var þín skoðun að heimilisstörfin væru kvennastörf, störf eiginkvenna. Við tengdadætur þínar vorum nú ekki alltaf sammála þér og þér fannst nú við ekki alltaf hugsa nógu vel um strákana þína, enda erfitt því þú varst búin að þjóna þeim svo vel áður en við tókum við þeim. Drífandi kona, þú gerðir aldrei á morgun það sem þú gast gert í dag. Hér og nú skyldi það gert ef átti að gera það á annað borð og þetta tók mig dálítið langan tíma að skilja. Að fylgja þér eftir var ekki alltaf auðvelt, hvort heldur við vorum að ræða málin eða gera eitthvað saman, sláturgerð, laufabrauð eða fara eitthvað saman. Þú tókst daginn alltaf snemma, ég kom svo yfirleitt of seint og ég skil hvað það hefur pirrað þinn stíl. Eftir smástund gátum við svo hlegið, það var svo gott að hlæja með þér. Stundum gátum við hlegið þangað til við hlógum að hvaða vitleysu sem var. Það var gott. Ég man líka þegar saumaklúbbur var hjá ykkur stelpunum, þá var líka hlegið. Þá voru "þið stelpurnar" að hlæja. Mér fannst alltaf svo skrítið að þú kallaðir þær stelpurnar. Ég tuttugu ára en þið um fimmtugt og þó þið yrðuð eldri voruð þið alltaf stelpurnar í saumaklúbbnum. Þetta voru stelpurnar í þínu lífi. Þú sagðir mér oft frá samfundum ykkar með bros á vör. Ég veit að líf þitt og ykkar Gunna var frekar á fótinn, misbratt þó. Á þessum árum með þér kynntist ég nýtni, hagsýni og því að fara vel með og það er annað en níska. Ég lærði því miður ekki nóg en ég hugsa oft til þess hvernig þú reyndir að bjarga þér, prjónaðir á prjónavélina og seldir í Perlon, sast á kvöldin með lopapeysu í fanginu, ýmist boli eða ermar eða heklaðir boðungana. Þessu komstu svo alltaf í lóg með þínum ráðum. Eins og þegar þú tókst Gunna með þér niður á bryggju sl. sumar og beiðst eftir skemmtiferðaskipum, helgi eftir helgi og þegar hausta tók var lagerinn upp urinn. Þá fannst þér þú geta haldið áfram að prjóna. Það var gaman að sjá þig bjóða gestunum þínum frá öllum heimshornum lopapeysurnar heima í stofu. Ég held það hafi verið þín bestu ár þegar þú tókst útlendinga inn á heimilið þitt, gafst morgunmat, sýndir þeim peysur og talaðir við þá á íslensku. Þú varst stolt og máttir svo sannarlega vera það, bæði þú og Gunni. Þið voruð svo samstiga í þessu verkefni. Eftir tíu góð ár með sumargistinguna ákváðuð þið að hætta, selja Fálkagötuna, flytja norður og njóta lífsins. En ekki var þér ætlað það. Að vísu komst þú norður til okkar, ekki mjög burðug í fyrstu en við fengum að sjá þig hressast og kætast með okkur og alltaf var þér jafn umhugað um okkur. Það er gott að muna hvað þú varst stolt þegar þú stóðst við kökuborðið í fyrrasumar á sjötugsafmælinu þínu og úr augum þínum skein "sjáið þið bara, ég gefst ekki upp." Og það ætlaðir þú ekki að gera, þú stóðst meðan stætt var eins og svo oft við Úlfljótsvatn þar sem þú stóðst alla af þér.

Ég þakka fyrir að hafa fengið að kynnast þér. Leiðir okkar skilur um sinn en ég veit að við hittumst á ný. Þá tekur þú vonandi á móti mér með haframjölstertu. Megi góður Guð geyma þig.

Þín vinkona,

Hanna Dóra.

Hanna Dóra.