Stefán Helgason fæddist í Vestmannaeyjum 16. maí 1929. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 30. apríl síðastliðinn. Stefán var elstur átta barna hjónanna Guðrúnar Stefánsdóttur og Helga Benediktssonar, útvegsbónda og kaupmanns í Vestmannaeyjum. Systkini Stefáns eru Sigtryggur, f. 1930, Guðmundur, f. 1932 (látinn), Páll, f. 1933, Helgi, f. 1938 (látinn), Guðrún, f. 1943, Arnþór og Gísli, f. 1952.

Stefán kvæntist Sigríði Ingibjörgu, dóttur hjónanna Bjarna Bjarnasonar og Sigurbjargar Einarsdóttur sem kennd voru við Breiðholt í Vestmannaeyjum, hinn 12. apríl 1952. Dætur þeirra eru: 1) Guðrún, f. 17. ágúst 1952. Eiginmaður hennar er Arnar Sigurmundsson. Hún á þrjú börn með fyrri eiginmanni sínum, Jóni Braga Bjarnasyni. Þau eru: a) Sigurrós, f. 1972, gift Kára Árnasyni og eiga þau einn son, Darra; b) Sigríður Dröfn, f. 1976, gift Andrési Þór Gunnlaugssyni. Dóttir þeirra er Þórdís Dröfn; c) Bjarni Bragi, f. 1991. 2) Sigurbjörg, f. 7. nóvember 1953. Hún er gift Páli Ágústssyni. Börn þeirra eru a) Íris, f. 1973, sambýlismaður hennar er Rúnar Þór Birgisson og eiga þau eina dóttur, Sirrý; b) Stefán, f. 1979, og c) Hjalti, f. 1990.

Stefán hóf kornungur að starfa við fyrirtæki föður síns. Hann sinnti sjómennsku, verkstjórn, verslunarstörfum og útgerðarstjórn. Síðustu þrjá áratugina var hann bifreiðaeftirlitsmaður, ökukennari og um tíma verkstjóri í kertaverksmiðjunni Heimaey.

Útför Stefáns verður gerð frá Landakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Hún rís úr sumarsænum, í silkimjúkum blænum með fjöll í feldi grænum mín fagra Heimaey.

Byggðin í Vestmannaeyjum, atvinnulífið og nálægðin við sjóinn mótuðu mjög lífsviðhorf Stefáns Helgasonar. Við leik og störf á uppvaxtarárum jafnt hjá foreldrum sínum og móðurfólkinu sem hann var mikið hjá kynntist hann snemma atvinnulífinu til lands og sjávar. Helgi Benediktsson faðir hans var þá orðinn umsvifamikill í atvinnurekstri og afi hans Stefán Björnsson í Skuld stundaði einnig útgerð á þeim tíma.

Fyrir ungan mann sem kynnst hafði margbreytileika sjávarútvegsins var vandalítið að taka ákvörðun um hvað hann ætlaði sér að verða í framtíðinni.

Þegar skólagöngu lauk hóf Stefán margvísleg störf hjá fyrirtæki föður síns, fór sem kokkur á síld fyrir norðan og í siglingar með fisk til Bretlands.

Teningunum hafði verið kastað og um liðlega tuttugu ára skeið starfaði hann við fyrirtæki fjölskyldunnar. Lengst af sá hann um útgerðina, en um tíma gerði Helgi Benediktsson út átta fiskibáta frá Eyjum. Var því í mörgu að snúast, en auk útgerðar og fiskvinnslu var fyrirtækið mjög umsvifamikið um langt árabil í verslun, hótelrekstri og landbúnaði í Eyjum. Stefán kynntist því mjög í störfum sínum hve gengi sjávarútvegsins getur sveiflast mikið. Það koma góð tímabil og síðan harðnar á dalnum. Sem ungur drengur kynntist Stefán þeim miklu erfiðleikum sem heimskreppan hafði á atvinnulífið í sjávarplássum. Á sama hátt urðu umskiptin mikil þegar kreppunni lauk og í kjölfarið fylgdi mikill uppgangstími í íslensku atvinnulífi. Mín kynni af Stefáni hófust fyrir alvöru fyrir liðlega fjórum árum þegar ég hóf búskap með Guðrúnu dóttur hans. Ekki skorti umræðuefnin hjá okkur Stefáni því áhugamálin voru um margt lík. Sjávarútvegsmál voru þar efst á blaði og ekki vorum við alltaf sammála í þeim efnum. Þróun útgerðar í Eyjum úr smærri fiskibátum yfir í stærri fiskiskip bar oft á góma. Það sem Stefáni var hugleiknast í störfum sínum var umsjón með endurnýjun fiskiskipa útgerðar föður síns. Á árunum 1954 til 1960 hafði hann umsjón og eftirlit með smíði á fimm fiskiskipum í Svíþjóð. Þetta voru vertíðarbátarnir Frosti Ve., Fjalar Ve., Hildingur Ve., Gullþórir Ve. og loks Hringver Ve., sem var stálskip. Oft var rætt um smíði þessara fiskiskipa og hin góðu kynni hans af skipasmiðunum í Djupvik. Þá má ekki gleyma aðdáun hans á vinnubrögðum við smíði Helga Ve. árið 1939 og Helga Helgasonar Ve. árið 1947 í Vestmannaeyjum. En Helgi Helgason Ve. er stærsta fiskiskip úr tré sem smíðað hefur verið hér á landi. Eftir að fyrirtæki föður hans dró saman seglin um miðjan sjöunda áratuginn lét Stefán þar af störfum. Þegar hundrað ár voru liðin frá fæðingu Helga Benediktssonar 3. desember á síðasta ári var sett upp sýning í Vestmannaeyjum á um tuttugu bátalíkönum og fjölmörgum ljósmyndum sem tengdust atvinnurekstri og fjölskyldu Helga og eftirlifandi eiginkonu hans Guðrúnar Stefánsdóttur. Sýningin vakti verðskuldaða athygli og fékk mikla aðsókn. Mestan veg og vanda af þessu einstaka framtaki átti Sigtryggur Helgason, en hann hefur lagt mikinn metnað í að halda til haga þessum merka þætti í atvinnusögu Eyjabúa.

Eftir að Stefán lét af störfum hjá fyrirtæki föður síns vann hann um árabil hjá Hraðfrystistöðinni, síðar við Bifreiðaeftirlitið í Eyjum um margra ára skeið og loks sem leiðbeinandi í Kertaverksmiðjunni Heimaey. Þar hætti hann fyrir tæpu ári þegar hann varð sjötugur.

Stefán Helgason var í nánu og góðu sambandi við móður sína og systkin.

Samband þeirra hjóna við dæturnar og fjölskyldur hefur verið einstakt.

Sérstaklega vil ég minnast á samband Stefáns við Hjalta og Bjarna Braga sem eru yngstu barnabörnin. Þeir frændur fóru oft með afa sínum í ökuferðir um Eyjuna og í stuttar sjóferðir með trillubátnum Hannesi Lóðs Ve., sem hann hefur átt um árabil með félaga sínum og vini Jóhannesi Tómassyni.

Að leiðarlokum þakka ég kynnin þótt ekki væru þau löng. Genginn er sannur heiðursmaður, faðir, afi og langafi. Missir Sigríðar, tengdamóður minnar, er mikill, því farsælu lífshlaupi samhentra hjóna er lokið.

Guð blessi minningu Stefáns Helgasonar.

Arnar Sigurmundsson.

Elsku besti afi minn.Þetta gerðist allt of fljótt, ég var svo viss um að þú kæmir endurnærður úr öllum rannsóknunum sem þú varst sendur í til Reykjavíkur. Ég var svo viss um að þú kæmir hressari til baka. En svo var ekki, mér og allri fjölskyldunni til mikillar sorgar. Ég er hálfdofin yfir þessu öllu í dag, en er samt strax farin að sakna þín. Það verður skrítið að koma á Brimhólabrautina og engar hrotur úr sjónvarpsherberginu á kvöldin. Ég á eftir að sakna þess að hringja í þig og biðja þig um uppskrift af matnum sem ég ætla að hafa í kvöldmatinn eða hlusta á sögurnar þínar frá því að þú varst ungur á sjónum, varst í Svíþjóð eða þegar þú varst í slökkviliðinu í gosinu. Hvernig verða næstu jól án þín? Okkur systkinunum fannst nú ekki jól ef við vorum ekki hjá þér og Sirrý ömmu á þeirri hátíð og borðuðum heimsins bestu aspassúpu í forrétt sem þú lagðir allt þitt í.

Elsku Denni afi, við vorum góðir vinir þrátt fyrir yfir 40 ára aldursmun og gátum við oft talað mikið saman um heima og geima. Þegar að ég var ófrísk var spennan og tilhlökkunin auðvitað mikil eftir barninu og tókst þú virkan þátt í þeirri tilhlökkun og pældum við mikið í fullu tungli og sjávarföllum sem reyndist svo rétt hjá okkur.

Við höfum haft sérstaklega mikið og gott samband síðasta eina og hálfa árið þar sem að þú hefur verið heima og hættur að vinna og ég hef verið heima í fæðingarorlofi. Það hefur varla liðið sá dagur sem við ekki hittumst eða heyrðum í hvort öðru. Ef ég og Sirry litla dóttir mín komum ekki til þín, þá komst þú til okkar eða hringdir og spurðir hvort að þú ættir ekki að passa í smá stund, hvort að ég þyrfti ekki að skreppa í sund eða búð eða eitthvað annað. Þegar að ég nefndi það við eina kunningjakonu mína að Sirrý litla væri í pössun hjá langafa sínum sagði hún: "Hva er það allt í lagi, er hann ekkert of gamall?" Þetta sagði ég þér og hlógum við mikið og gerðum oft grín að því.

Elsku besti Denni afi, þakka þér fyrir alla þá hlýju, ást, umhyggju og tíma sem þú hefur gefið mér, ég mun alltaf sakna þín. Það er sárt að kveðja þig en ég veit að við hittumst einhvern tímann aftur. Ég bið góðan Guð að vera með Sirrý ömmu og styrkja hana í sorginni. Við höfum öll misst mikið.

Ástar- og saknaðarkveðja,

Íris.

Síðasta ár var um margt óvenjulegt í fjölskyldunni. Sú hugmynd hafði kviknað að minnast með veglegum hætti Helga Benediktssonar, kaupmanns og útvegsbónda í Vestmannaeyjum, en hann hefði orðið 100 ára 3. desember síðastliðinn. Af því tilefni var undirbúin mikil sögusýning með ýmiss konar myndefni og líkönum af öllum þeim skipum sem hann átti um ævina, ýmist einn eða með öðrum.

Vegna þessa afmælis var ýmsum heimildum safnað. Æviferill Helga var svo fjölþættur að engin leið var að gera honum skil nema að litlu leyti. Svo vildi til að skömmu eftir afmæli Helga voru liðin 50 ár frá því að vélskipið Helgi VE 333 fórst við Faxasker. Því var ákveðið að gera þátt fyrir Ríkisútvarpið um þennan atburð sem markaði djúp spor í sálarlíf hans og fjölskyldunnar. Var því miklum hluta þess tíma, er ég hafði yfir að ráða, varið í heimildaöflun um þennan hörmulega atburð.

Denni, eins og Stefán Helgason var gjarnan kallaður af okkur systkinum og sínum nánustu, hafði verið skipverji á Helga fram á Þorláksmessu veturinn 1949 og var manna kunnugastur skipinu. Það var því eðlilegt að ég leitaði til hans um heimildir. Denni var hins vegar dulur, hafði byrgt innra með sér mikinn harm eftir þessa voða atburði og vildi fátt um skipið tala. Ég hafði hins vegar komist á snoðir um að hugsanlega mætti finna leifar skipsins í námunda við Skelli, boðann sem Helgi brotnaði á. Það var því að ráði að Sigtryggur, sem er næstelstur okkar systkina, falaðist eftir því við Denna að hann færi með okkur út að Faxaskeri ásamt tveimur köfurum. Denni, sem þekkti þetta svæði manna best - hafði notið þess að takast á við Ægi áratugum saman - taldi ólíklegt að nokkuð fyndist og hló góðlátlega að okkur bræðrum fyrir tiltækið. En út að Skelli fórum við. Leitin bar hins vegar lítinn árangur og ekki fannst það sem leitað var að.

Það var liðinn hálfur fjórði áratugur frá því að ég sigldi með Denna síðast á trillu. Ég minnist þess að þá hafði ég áhyggjur af því hvernig ég kæmist um borð, því að lágsjávað var. Denni leysti hins vegar vanda minn með styrkum höndum sínum enda var hann vanur að liðsinna börnunum í kringum sig og munaði lítið um að taka einn strákpolla og koma honum ofan í bát. Í fyrrasumar kveið ég hins vegar engu. Trillan Hannes lóðs lá við flotbryggju og auðvelt var uppgöngu. En Denni hafði gætur á öllu, sagði mér að taka í stýrishúsið á bátnum og koma mér þannig um borð; hann vissi frá fyrri tíð að handfestan er það sem öllu skiptir þegar menn sjá fótum sínum ekki forráð. Ég minnist ennþá handtaksins, þegar hann tók í vinstri hönd mína um leið og ég fór um borð, þessa styrka handtaks sem ég þekkti frá því að ég var barn. Mér varð hugsað til þess að hann hefði engu gleymt og til allrar hamingju þyrfti nú ekki að klifra, enda þyngd mín öllu meiri en fyrir hálfum fjórða áratug. Við bræður áttum sérstæða stund út við Skelli og skeggræddi Denni um það hvað hugsanlega hefði gerst þennan dag, 7. janúar 1950, þegar náttúruöflin fóru hamförum svo að enginn gleymir því sem þá atburði lifði.

Nú var ísinn brotinn. Denni reyndist fús að miðla okkur af fróðleik sínum um skipið og ýmislegt sem það snerti. Á slysið minntumst við hins vegar lítið. En frásagnir hans og ýmsar heimildir sem kannaðar voru gáfu glögga mynd af ferli þessa farsæla og glæsta skips og því sem gerðist þennan sorgardag fyrir 50 árum.

Atburðir síðasta árs náðu hámarki hin 3. desember 1999 þegar opnuð var í Vestmannaeyjum sýningin á skipslíkönum og myndum úr lífi Helga Benediktssonar og kvikmyndum sem snertu atburði í Vestmannaeyjum á fyrri hluta þessarar aldar. Engan grunaði þá að það yrði í síðasta sinn sem við systkinin hittumst öll saman ásamt móður okkar, Guðrúnu Stefánsdóttur, sem viðstödd var þessa hátíð.

Dauðanum hefur stundum verið líkt við manninn með ljáinn. Það má einnig líkja honum við Ægi konung sem gefur engum grið sem hann vill hreppa. Dauðastríð þessa elsta bróður míns var skammvinnt og hart. Dauðinn gerði að honum harðar atrennur eins og Ægir konungur lék Helga forðum við Faxasker. Hann varð þunghöggur og umskiptin urðu því sneggri en flestir hugðu.

Sigling hans var löng og farsæl. Hann átti því láni að fagna að eignast góða konu, tvær dætur, tengdasyni og barnabörn sem einnig hafa eignast börn. Þessi duli maður unni börnunum um alla hluti fram og þau nutu traustrar mundar afa síns og langafa. Mér fylgir hinsvegar minningin um hreinskiptinn bróður og þessa styrku mund.

Arnþór Helgason.

Í dag verður til moldar borinn frá Landakirkju Stefán Helgason, sem lést í Reykjavík 30. apríl sl. eftir stutta legu.

Mig langar með nokkrum orðum að minnast þessa vinar míns, Stefáns, og systursonar konu minnar, en hann var almennt nefndur Denni af ættingjum og vinum.

Æska Denna og uppeldi, eins og margra annarra ungra manna hér í Vestmanneyjum, beindist að sjónum. Snemma öðlaðist hann vélstjórnar- og skipstjóraréttindi. Hann fór því ungur að starfa við fyrirtæki föður síns sem rak hér umfangsmikla útgerð, fiskverkun og verslun. Faðir hans lét smíða, bæði hér í Eyjum og í Svíþjóð, marga fiskibáta. Það kom að því í hlut Denna sem var mjög fær vélstjóri og laghentur að fylgjast með og hafa eftirlit með smíði bátanna í Svíþjóð. Hann var einnig oft í áhöfn þessara báta þegar þeim var siglt heim að smíði lokinni. Þegar útgerð föður hans lagðist af fór hann að starfa sem ökukennari. Fyrsti nemandi hans var Minna, móðursystir hans. Hann er því búinn að kenna mörgum bæjarbúum hér að aka bifreið. Denni lagði metnað sinn í að æfa nemendur sína það vel undir ökuprófið að þeir stæðust það með sóma. Denni starfaði einnig mörg ár sem verkstjóri í Kertaverksmiðjunni.

Í eldgosinu 1973 dvaldi hann hér í Eyjum allan tímann og starfaði með slökkviliði Vestmannaeyja við að bjarga húsum og verðmætum undan hrauni og eimyrju gossins.

Við Denni áttum saman trillubát. Hann talaði oft um hve mikla ánægju hann hafði af að skreppa á sjó og þá helst á vorin. Við fórum oft fyrri part morguns þegar sólin var að rísa handan jökulsins. Allt umhverfið var logagyllt og spegilsléttur sjór. Þá kom upp í hugann ljóðið "Heima" sem Ási í Bæ orti:

Hún rís úr sumarsænum,

í silkimjúkum blænum

með fjöll í feldi grænum

mín fagra Heimaey.

Það var oft skemmtilegt hjá okkur "trillukörlum" eftir að hafa rennt færi, að leggjast undir iðandi fuglabjarg, hlusta á gargið og kvakið í fuglunum, næra sig á heitri kjötsúpu sem Sirrý sendi með okkur á sjóinn. Það má segja að það hafi verið orðin föst venja hjá okkur Denna að hittast á laugardagsmorgnum þegar tími gafst til, fá okkur bíltúr á bryggjurnar og út á Eyju og koma svo heim til Sirrýjar þar sem okkar beið góð máltíð.

Á kveðjustund minnumst við fjölskylda mín Denna og þökkum margar ógleymanlegar og ánægjulegar samverustundir. Þá verður okkur ljóst hve mikið ber að þakka fyrir áralanga vináttu þeirra hjóna.

Að lokum viljum við Minna og börnin okkar votta Sirrý, dætrum, tengdasonum og aldraðri móður innilega samúð svo og systkinum, barnabörnum og öðrum ættingjum.

Jóhannes Tómasson.

Þegar ég var tæpra sex ára var það mín heitasta ósk að eignast lítið systkin þar sem ég var yngsta barn foreldra minna. Það má segja að sú ósk hafi ræst þegar systir mín eignaðist lítinn dreng hinn 15. maí árið 1929. Hann varð strax augasteinninn okkar allra í Skuld. Hann fékk nafnið hans Stefáns afa síns og ekki varð það til að minnka ást okkar á honum. Hann var sólargeisli á heimilinu, því pabbi hans var ólatur að bera hann í fanginu heim að Skuld og lofa okkur að hafa hann á daginn. Það endaði með því að Denni ílentist í Skuld hjá afa sínum og ömmu til fermingaraldurs.

Þá byggðu þau Guðrún og Helgi stórt og rúmgott hús og gerðu ráð fyrir að Denni flyttist heim í foreldrahús, sem og varð. Ekki slitnuðu vináttuböndin því við Denni og fjölskyldur okkar hafa alla tíð tengst sterkum böndum. Mig langar að þakka honum þann bróðurkærleika sem hann sýndi mér alla tíð. Elsku Denni minn, þakka þér fyrir alla þína hjálp og vináttu gegnum lífið. Ég veit við munum hittast aftur.

Innilegar kveðjur til elsku Sirrýjar, dætra og allrar fjölskyldunnar. Megi almættið styrkja ykkur og okkur öll á þessum erfiðu tímum.

Guðfinna Stefánsdóttir (Minna).

Stefán Helgason í Vestmannaeyjum, áður Denni í Skuld, hefur mætt sínu skapadægri miklu fyrr en efni gátu talist til, okkur og svo mörgum öðrum til sárs saknaðar. Hann tengdist okkur með eftirminnilegu og höfðinglegu brúðkaupi barna okkar í Eyjum fyrir tæpum þremur áratugum, þar sem gestir frá meginlandinu voru hýstir, svo margir og svo lengi sem við þurfti. Ítrekaða og ómælda gestrisni reyndum við af þeim Sigríði og fjölskyldum þeirra, með upplifun þjóðhátíðar, siglingu út um sund og eyjar og öku- og gönguferðum um hvern krók og kima kærrar Heimaeyjar. Fyrir gamlan Eyjapeyja var þetta ómetanleg endurlifun á bernskri lífsreynslu, frá þeim fersku árum, er vitundin var að vakna til skynjunar og skilnings á fegurð og um leið harðneskju lífs og náttúru. Sameign þriggja barnabarna og síðar tveggja langforeldrabarna mynduðu líftaugar, sem ekki rakna.

Okkur sortnaði fyrir augum, þegar Heimaey huldist gosmekki, ösku og hrauni, en fyrir harðfylgi Denna í eina slökkviliði heims, sem hefur reynt að slökkva í eldfjalli, vakti hann upp byggðina og kom sinni kvenþjóð með fyrsta flugi til lands, og þar með fyrsta barnabarni okkar, tveggja mánaða þokkadís. Síðan barðist hann áfram í mekkinum og varð stundum að telja sig fram um göturnar og beygja í blindni, enda kunni ökukennarinn hvert skref utan að allt frá blautu barnsbeini. Hann og félagar unnu þar frægan sigur, en hver veit nema hann hafi til lengdar hlotið æviskaða og áratjón af eldsins eiturbrasi. Til samanburðar finnst manni vega létt að hafa átt hlut að gerð áætlana um endurreisn á pappír.

Hjarta Denna sló ætíð í Eyjum, svo hann velktist aldrei í vafa um að snúa aftur. Hann var sjófróður um mannlíf, atvinnuhætti og hag Eyjabúa og hélt hart og fast á málstað þeirra og sjávarútvegsins, og gat sennilega hugsað sér að innlima Ísland í Eyjarnar! Var því í senn eggjandi - ef ekki ögrandi - og skemmtilegt að eiga við hann orðastað, og þó rétt að fara með gát, því að með hlýju geði bjó hann yfir heitu skapi.

Með Denna er farinn síðasti mótafinn niðja okkar. Fer að gjörast einsamt, því fleiri nánustu af sömu kynslóð sem bíða manns handan móðunnar. Meiri er þó missir eiginkonu og hans nánustu fjölskyldu og þar með nafna, sem Eyjalífi unir, eins og forðum á sama aldri sá afi, sem hér talar. Þeim eru öllum sendar innilegar samúðarkveðjur ofan frá meginlandi.

Rósa og Bjarni Bragi.

Því lengra sem líður á ævina gerir maður sé betur grein fyrir gildi góðra minninga. Að safna slíkum sjóði er meira virði en nokkur veraldlegur auður.

Verðgildi þeirra er ekki háð dagsveiflum heldur fer vísitalan sífellt hækkandi. Með tíð og tíma gerir maður sér einnig betur grein fyrir mikilvægi þeirra sem áttu þátt í því að búa þær til.

Denni frændi á dýrmætan hluta af æskuminningum okkar. Að alast upp í Eyjum eru forréttindi. Æskan er viðburðarík þar sem sjórinn, úteyjarnar og björgin spila mikilvægt hlutverk. Pabbi og Denni hafa frá því við munum eftir okkur verið félagar í trilluútgerð í frítíma sínum. Ósjaldan fengum við krakkarnir að fljóta með í veiðitúra, út í einhverja eyna að sækja fugl eða í skottúra út á vík. Upp úr standa þó sölvaferðir fjölskyldna okkar sem voru næstum árlegir viðburðir. Þetta voru ærslafullar og skemmtilegar ferðir þar sem sölvatínslan var í raun aukaatriði.

Við minnumst atburða sem áttu fastan sess í tilveru fjölskyldna okkar.

Bíltúrar í gamla bláa jeppanum hans Denna. Samvera á gamlárskvöld. Þorraveisla á þrettándanum. Kjötsúpan sem Denni sendi í Dalinn á Þjóðhátíð. Bílprófin sem Denni gaf okkur systkinunum. Denni á harðahlaupum til að sinna útkalli slökkviliðsins. Denni að atast í krökkunum með góðlátlegri stríðni þar sem hann lét þau reyna á sig, stæla vöðvana og æfa jafnvægið. Denni og Sirrý, heimilið þeirra, vinátta, gestrisni og höfðingsskapur sem þau sýndu ávallt. Allt þetta hluti af órjúfanlegri heild sem gerði bernskuna svo góða.

Eftir að við kvöddum æskuárin, er ekki erfitt að sjá af hverju Denni skipar svo mikilvægan sess í okkar huga því með fullorðinsaugum sáum við sömu barngæsku og gleði og hann sýndi okkur hér áður, beinast að börnum okkar.

Fyrir þetta þökkum við um leið og við sendum ástvinum Denna innilegar samúðarkveðjur.

Margrét Rósa, Erna,

Tómas, Stefán Haukur,

Iðunn Dísa og Ingunn Lísa Jóhannesarbörn.

Arnar Sigurmundsson.