Svavar Kristinsson fæddist í Reykjavík 29. febrúar 1936. Hann lést í Sjúkrahúsi Suðurlands 26. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jóna Einarsdóttir, f. 13. janúar 1907, d. 19. ágúst 1962, og Kristinn Jónsson, f. 19. júní 1903, d. 27. október 1997. Systkini Svavars voru: 1) Einar, f. 12.12. 1938. Kona hans Þórunn Ólafsdóttir, f. 19.9. 1939, d. 4.9. 1990. Þau eiga eina dóttur. 2) Anna Helga, f. 11.8. 1944 gift Knúti Scheving, f. 14.6. 1945. Þau eiga þrjú börn.

Svavar kvæntist 23.6. 1961 Jónu Helgadóttur frá Árbæ í Holtum, f. 19.9. 1942. Fósturforeldrar hennar voru Þórhildur Sigurðardóttir, f. 17.7. 1901, d. 10.7. 1972, og Jón Jónsson, f. 6.6. 1901, d. 16.9. 1978.

Sonur Jónu og Svavars er Þórhallur Jón, f. 13.12. 1960, kvæntur Agnesi Ólöfu Thorarensen, f. 5.10. 1966, dóttir hennar er Vigdís Finnbogadóttir, f. 17.6. 1983, fyrir á Þórhallur dótturina Sigurveigu, f. 18.6. 1986, móðir hennar er Ásta Pétursdóttir, f. 10.4. 1967.

Svavar starfaði lengst af sem verslunarmaður.

Útför Svavars fer fram frá Oddakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Vertu hér yfir og allt um kring með eilífri blessun þinni, sitji Guðs englar saman í hring, sænginni yfir minni.

Það er margt sem flýgur upp í hugann þegar kveðja þarf mann eins og Svavar Kristinsson.

Mér finnst eins og ég hafi alltaf þekkt hann. Mín fyrsta minning um Svavar var þegar ég var lítil stelpa og var að alast upp í Landeyjum og kom í gamla kaupfélagið sem kallað er, en þar starfaði hann innanbúðar hjá kaupfélaginu Þór ásamt eiginkonu sinni Jónu Helgadóttur. Svo liðu árin og ég fullorðnaðist og þá hagaði því þannig til að ég fluttist að Hellu 1985 og hóf störf við verslun Kf. Þór. Þá starfaði Svavar á skrifstofunni og Jóna í versluninni sem hún og gerir enn undir nafni KÁ. Svavar var hægur maður í eðli sínu, dagfarsprúður, trúr og traustur öllum þeim sem að honum stóðu, notalegur en ákaflega fastur fyrir ef eitthvað var. Það var svo gott að hafa hann nálægt sér. Svavar var fyrst og fremst fjölskyldumaður en hana bar hann allra mest fyrir brjósti, að hlúa að henni sem best sem hann gat gaf honum mest. Þetta fann ég mjög fljótt eftir að við Þórhallur sonur hans hófum búskap saman, betri tengdaföður var ekki hægt að eiga. Svavar var mikill áhugamaður um garðrækt enda bar garðurinn hans þess merki, alltaf vel snyrtur og fínn svo eftir því var tekið. Mér fannst það lýsa honum vel nú um páskahelgina þegar hann hafði orð á því við Jónu að hann vonaðist til að veðrið færi að verða betra svo að hann gæti komist út og á páskadag komst hann stundarkorn út með klippurnar og gat byrjað. Þar með voru vorverkin hafin og það hefur honum liðið vel með. Bókabúð rak Svavar undir sínu nafni í rúman áratug enda bókhneigður mjög og undi sér vel við lestur góðra bóka. Hann var vel að sér um menn, málefni og sögu. Maður kom aldrei að tómum kofanum hjá honum þegar spurt var um eitthvað. Síðustu þrjú æviárin starfaði Svavar hjá Reykjagarði og varð ég þess aðnjótandi að vinna með honum þar. Þar var oft verið að glettast og gantast og sá ég oft bros lýsa upp andlitið enda var hann með létt skap og sá broslegu hliðarnar á hlutunum. Svavar var baráttumaður mikill. Það sá ég hvað best þegar hann veiktist fyrir tveimur árum. Það var ekkert gefið eftir og enginn vafi var á því að hann ætlaði sér að sigrast á veikindum sínum og hafa betur en lífsbók hans hefur verið orðin fullskrifuð. Það er stórt skarð sem myndast í okkar litlu fjölskyldu þegar við þurfum að sjá á eftir Svavari, einkum hjá Sigurveigu sonardóttur hans sem þótti svo afar vænt um afa sinn og hann bar hag hennar og velferð svo mjög fyrir brjósti.

Kæra Jóna, missir þinn er mikill, megi Guð styrkja þig í sorg þinni og söknuði. Elsku tengdapabbi, hafðu hjartans þakkir fyrir allt og megi Guðs blessun hvíla yfir þér.

Vertu hér yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring,

sænginni yfir minni.

Þín tengdadóttir

Lóa.

Afi minn Svavar er farinn í ferðina sem við förum öll í að lokum. Mér finnst það skrítin tilhugsun að afi sé ekki lengur til staðar. Hann var alltaf svo traustur, hógvær og góður. Veröldin hefur sannarlega breyst við fráfall hans. Ég minnist margra ferða okkar saman um Suðurland og nágrenni Hellu þar sem afi minn átti heima. Sérstakar voru veiðiferðirnar og ferðirnar austur til eggjatínslu. Þá voru jafnan bæði amma og Siggi með í för. Á haustin var farið til berja og þá gat það hent að afi minn gleymdi sér í unaði náttúrunnar og reikaði eitthvað út í móa í burtu frá ferðafélögum sínum. Stundum þurfti jafnvel að fara að leita hans en þá birtist hann ávallt og hafði gaman af þvarginu í okkur hinum. Ég held að þessar ferðir hafi einnig verið afa mínum mikils virði því sjaldan sindruðu augu hans jafn fallega og þegar hann var úti í náttúrunni og naut hennar með ástvinum sínum. En nú er afi minn farinn í sína hinstu för og við eigum öll eftir að sakna hans en enginn hefur misst eins mikið og amma sem hefur deilt kjörum með honum í svo mörg ár. Elsku amma mín! Guð styrki þig í sorg þinni.

Sigurveig Þórhallsdóttir.

Í dag verður jarðsunginn frá Oddakirkju á Rangárvöllum, mágur minn, Svavar Kristinsson, Þrúðvangi 24 Hellu. Hann var fæddur í Reykjavík, 29. febrúar 1936.

Svavari kynntist ég fyrst, er ég flutti að Hellu 1963 og hóf störf hjá Kaupfélaginu Þór, en Svavar var þar starfsmaður. Fljótt komu eiginleikar hans í ljós en hann var dagfarsprúður maður, rólegur í fasi og traustur félagi sem einnig gat verið með gamansemi á lofti. Þessa eiginleika kunnu viðskiptavinir kaupfélagsins vel að meta, enda var Svavar vel liðinn í starfi hjá kaupfélaginu og síðar arftaka þess.

Samskipti við Svavar urðu meiri eftir að ég kynntist systur hans, en góður samgangur er á milli heimilanna og komu þá fleiri góðir eiginleikar hans í ljós. Hann hafði gaman af lestri góðra bóka af ýmsu tagi auk þess sem hann fylgdist með fréttum og frásögnum í blöðum eða ljósvaka-fjölmiðlum. Ferðalög innanlands, stutt eða löng, með fjölskyldu sinni og/eða vinum voru honum hin besta skemmtun. Svavar var minnugur á menn og málefni er voru í brennidepli líðandi stundar og hafði ríka frásagnagáfu. Það kom sér vel fyrir þá sem ferðuðust með honum eða þar sem leiðir lágu saman. Svavar þekkti vel örnefni og staðarheiti og gat miðlað af þeirri þekkingu sinni til þeirra sem ekki vissu. Oft á tíðum gat hann komið með sögur og sagnir tengdar stöðum sem ekið var hjá eða þar sem áð var. Áhugamál Svavars voru mörg. Hann hafði gaman af dýrum, var í hestamennsku á árum áður, auk þess sem hann átti nokkrar kindur sér til gamans í mörg ár. Umhirða kringum skepnurnar skapaði útiveru og heyskap sem hann naut vel.

Hann var einn af stofnfélögum Lionsklúbbsins Skyggnis á Hellu þar sem hann var virkur félagi um árabil. Þá hafði hann gaman af að spila bridge og var einn af þeim sem létu það áhugamál sitt ekki hopa fyrir nýjum áhugamálum sem hent hefur marga. Það var einmitt í ferðalagi erlendis þar sem Svavar var með spilafélögum sínum í skemmti- og keppnisferð að hann kenndi sér fyrst þess meins er hann lést úr 26. apríl sl.

Þá hafði hann gaman af að dunda við garðrækt en garðurinn við heimili hans ber þess glöggt merki. Eins og áður sagði hafði Svavar gaman af bókum og þegar verslun staðarins hætti bókasölu setti hann á fót bókabúð sem hann rak til dánardægurs með aðalstarfi sínu hjá Reykjagarði þar sem hann starfaði síðustu árin.

Svavar unni fjölskyldu sinni, með hana sér við hlið kunni hann best við sig. Þar átti hann góða bakhjarla sem studdu hann og styrktu í veikindum hans.

Með þessum fátæklegu orðum, þakka ég og fjölskylda mín Svavari fyrir samfylgdina og allar góðar stundir og kveðjum hann hinstu kveðju. Elsku Jóna, Sigurveig, Þórhallur og Lóa, missir ykkar er mikill. Megi algóður Guð gefa ykkur styrk til framtíðar.

Blessuð sé minning hans.

Af eilífðar ljósi bjarma ber,

sem brautina þungu greiðir,

vort líf sem svo stutt og stopult er,

það stefnir á æðri leiðir,

og upphiminn fegri,

en auga sér,

mót öllum oss faðminn breiðir.

(Einar Ben.)

Knútur Scheving og fjölskylda.

Um páskana brugðum við Sólveig konan mín okkur austur í Rangárþing. Það var í nógu að snúast en þrátt fyrir það gáfum við okkur tíma til að líta við hjá Svavari og Jónu á Hellu.

Okkur var boðið upp á kaffi og gómsætar heimatilbúnar kökur. Þau hjón voru hress og glöð að vanda og ég lét mér ekki detta í hug að þetta væri síðasta skiptið sem við Svavar töluðum saman. Hann hafði að vísu átt við slæman sjúkdóm að stríða en leit vel út þannig að fráfall hans kom mér á óvart.

Það mun hafa verið árið 1946 þegar við Svavar hittumst fyrst. Faðir hans Kristinn Jónsson, í daglegu tali nefndur Kristinn á Brúarlandi, flutti búslóð föður míns frá Litlu-Tungu að Heiðarbrún. Notaði hann til þess vörubíl sinn og fór tvær eða þrjár ferðir.

Síðar kynntumst við Svavar nánar þegar við stunduðum nám á Héraðs-skólanum á Skógum undir Eyjafjöllum. Ekki var mikil fyrirferð í Svavari en hann stundaði nám sitt vel og betur en margir aðrir.

Vorið 1956 tókum við Svavar bílpróf á Hvolsvelli. Ég mætti til prófsins nokkuð óstyrkur enda hafði ég haft hundleiðinlegan ökukennara sem skammaði mig meir en ástæða var til. Svavar hughreysti mig og sagði að bílaeftirlitsmaðurinn sem raunverulega var prófdómari væri ljúfmenni og allt mundi ganga vel.

Nokkru eftir þetta eignaðist Svavar sinn fyrsta bíl sem var grænn Skóda fólksbíll. Ég átti þá eftir að sjá hann á akstri á Árbæjarbrautinni fram hjá Heiðarbrún. Í eitt skipti stansaði hann og sagði glettnislega: "Það er bara andskoti mikið af fallegum og skemmtilegum stelpum uppi í Árbæjarhverfi." Jú, það var rétt. Hann átti í framhaldi af því eftir að kynnast stúlku þarna, Jónu Matthildi Helgadóttir, sem síðar varð kona hans.

Við Svavar unnum á tímabili saman í byggingarvinnu á Hellu. Þá var verið að reisa nýtt verslunarhús hjá Kaupfélaginu Þór í stað húss sem hafði brunnið. Nýja húsið varð síðan vinnustaður hans í fleiri ár. Hann starfaði þar fyrst sem lagermaður en síðar verslunarstjóri. Þegar rekstri var hætt þarna vann hann hjá versluninni Þríhyrningi við skrifstofustörf. Síðustu misserin vann hann hjá sláturhúsi Reykjagarðs. Svavar rak einnig á tímabili bókabúð þannig að hann hafði í mörgu að snúast.

Hann var víðlesinn og fróður um marga hluti, einkum er snertu stjórnmál. Við hann var þá gaman að spjalla og gilti þá einu hvort umræðuefnið var stjórnsýsla á landsvísu eða bara sveitarstjórnarmál í Rangárvallahreppi. Hann var maður hógvær í orðum en gat vel svarað fyrir sig með sterkum rökum og líktist þá nokkuð Kristni föður sínum og frænda Ingólfi Jónssyni.

Gegnum tíðina kom ég oft til þeirra Svavars og Jónu. Þar var töluverður gestagangur enda gestum vel tekið og oft viðhöfð gamanyrði og glens.

Stundum fékk ég gistingu hjá þeim þegar varla hefði verið hægt að fá húsaskjól annars staðar. Hafði eitt sinn orð á því að nú væri ég búinn að koma þar æði oft. Svavar leit þá upp frá kaffibollanum og sagði: "Þú ert alltaf velkominn til okkar, Eyjólfur minn."

Með kveðju til aðstandenda,

Eyjólfur Guðmundsson

frá Heiðarbrún.

Lóa.