Sturla Hjaltason fæddist á Raufarhöfn 10. desember 1940. Hann lést á Akureyri 17. mars síðastliðinn og fór útför hans fram frá Raufarhafnarkirkju 25. mars.

Hve sæl ó hve sæl er hve leikandi lund, en lofaðu engan dag fyrir sólarlagsstund. Og dátt lék sér barnið um dagmálamund en dáið var og stirðnað um miðaftans stund. Svo örstutt er bil milli blíðu og éls og brugðist getur lánið frá morgni til kvelds.

Hve sæl ó hve sæl er hve leikandi lund,

en lofaðu engan dag fyrir sólarlagsstund.

Og dátt lék sér barnið um dagmálamund

en dáið var og stirðnað um miðaftans stund.

Svo örstutt er bil milli blíðu og éls

og brugðist getur lánið frá morgni til kvelds.

Kæri bróðir! Þessi orð Matthíasar virðast eiga vel við í þínu tilfelli. Ekki hafði mig órað fyrir því er við töluðum saman í síma fáeinum dögum fyrir andlát þitt að það yrðu okkar síðustu samskipti í þessari tilveru. Okkur fannst öllum að þú hefðir yfirstigið veikindi þín frá 1995 nokkuð vel, en eins og máltækið segir "enginn ræður sínum næturstað". Þá vissulega kom fráfall þitt yfir okkur öll eins og reiðarslag.

Sturla var fæddur 10. desember 1940, sama mánaðardag og faðir okkar Hjalti. Hann var næstelstur ellefu systkina, barna Hjalta og Ollu á Hjaltabakka. Nú hefir fyrsta skarðið verið höggvið í systkinahópinn á Hjaltabakka, þau eiga eflaust eftir að verða fleiri ef að líkum lætur.

Í þá gömlu góðu daga þegar við vorum að alast upp viðgekkst það á Raufarhöfn að velflest heimili höfðu smábúskap, s.s. kýr, kindur og hænsni, enda mannmargt á mörgum heimilum. Það kom því snemma í hlut okkar eldri bræðranna að aðstoða við heyöflun, sækja kýr, moka flór og sinna hænsnum. Ekki lét Sturla sitt eftir liggja við þá iðju, enda meira heima en við hinir þar sem við vorum í sveit hjá Jónasi frænda okkar á sumrin. Snemma kom í ljós að Sturla var mjög handlaginn, öll verkfæri, hamar, sög og hjólsveif, léku í höndum hans enda ávallt "yfirsmiður" ef reka þurfti saman kofa eða fleka til að sigla á Kottjörninni. Við vorum svo heppin að faðir okkar átti töluvert af verkfærum sem hann léði okkur ef vel var að farið. Sturla var alla tíð mjög heimakær og iðinn og hjálpsamur við móður okkar, enda urðu þau mjög samrýnd og góðir vinir alla tíð. Eftir að foreldrar okkar fluttu til Reykjavíkur reyndist hann þeim sama hjálparhellan og fyrr. Eins og margir vita stóð æskuheimili okkar Hjaltabakki (hann hefur nú horfið af sjónarsviðinu) örfáa metra frá hinni fögru innsiglingu til Raufarhafnar. Það hefur sennilega mótað lífsviðhorf okkar bræðra að sjá sökkhlaðin síldarskipin sigla inn, enda urðum við allir sjómenn að aðalstarfi. Eins og títt var í þá daga var snemma farið að halda börnum til vinnu og gilti það ekki síður um okkur systkinin, enda nóg um störfin svo sem áður segir svo og vinnu á plönunum og í verksmiðjunni. Sturla tók að sjálfsögðu þátt í þessu öllu eins og aðrir og var ávallt rómaður fyrir dugnað og samviskusemi. Upp úr fermingaraldri höfðu safnast í sjóð okkar Sturlu einhverjar krónur og var þeim strax varið í að komast yfir fley. Þar með var ísinn brotinn og samstarf okkar á sviði útgerðar hafið. Árið 1960 keyptum við saman stóran trillubát, "Gunnþór", sem við gerðum út í nokkur ár saman uns Sturla keypti minn hlut í bátnum og hefur haldið honum út fram á síðustu ár. Árið 1966 keypti Sturla lítið íbúðarhús hér á staðnum og hóf um það leyti sambúð með konu sinni Katrínu Björnsdóttur. Seinna þegar fjölskyldan stækkaði byggði Sturla við húsið og naut við það aðstoðar Björns tengdaföður síns. Kom þá vel í ljós hversu hagur Sturla var og reynslan frá kofasmíðinni í gamla daga kom að góðum notum. Saman eignuðust þau Katrín börnin Snorra 1969 og Sóleyju 1974 auk þess sem Katrín átti þrjú börn frá fyrra hjónabandi, þau Sævar, Viðar og Eddu, sem Sturla gekk í föðurstað. Öllu þessu góða fólki hefur Sturla reynst hinn besti drengur alla tíð. Þau sakna nú öll vinar í stað, en sú kemur tíð að sárin munu gróa. Árið 1985 varð Sturla fyrir því áfalli að missa eiginkonu sína Katrínu og var sár harmur kveðinn að eiginmanni og börnum, en Katrín hafði verið mikill sjúklingur um langan tíma. Sá Sturla sjálfur um umönnun barnanna eftir það með aðstoð góðra vina. Fyrir allmörgum árum festu þeir feðgar saman kaup á nýjum vélbáti, "Sæunni", og gerðu út frá Raufarhöfn uns árið 1998 að þeir fluttu þá útgerð til Sandgerðis. Á síðastliðnu ári festi Sturla kaup á íbúð í Hafnarfirði. Hann hafði þá kynnst ágætri konu, Gunni Jakobínu Gunnarsdóttur frá Akureyri. Sturla hafði ásamt sjómennskunni unnið að því að breyta og lagfæra íbúðina þegar kallið kom. Hann var staddur á heimili Gunnar þegar það átti sér stað fyrirvaralaust.

Kæri bróðir! Ég veit að ég mæli fyrir hönd okkar systkinanna og ótal margra fleiri vina þinna þegar ég segi að þín er sárt saknað, en eigi má sköpum renna. Eitt er víst, að eitt sinn skal hver deyja, það er eins víst og dagur fylgir nóttu. Ég er fullviss þess að á ströndinni handan "hafsins" hafa ástvinir þínir sem farnir eru af þessu tilverusviði tekið á móti þér og þú munt eiga góða tilveru með þeim.

Við hjónin þökkum þér samfylgdina og vináttu liðins tíma um leið og við biðjum góðan guð að leiða og styrkja alla eftirlifandi ástvini þína, börn, tengdabörn og afabörn, sem voru svo fjarska hænd að afa sínum og honum þótti svo vænt um.

Guð blessi minningu þína.

Þorgeir og Signý.

Þorgeir og Signý.