Valgerður Guðrún Halldórsdóttir fæddist í Garði í Mývatnssveit 20. apríl 1929. Hún lést á líknardeild Landspítalans 25. apríl síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Dómkirkjunni 5. maí.

Okkur langar til að minnast ömmu Valgerðar í örfáum orðum. Við vorum svo lánsöm að fá að búa í kjallaranum hjá Valgerði og Kristjáni í fimm ár áður en við byggðum okkar eigið hús. Sambúðin gekk vel og Valgerður var dugleg að aðstoða okkur í heimilishaldinu með góðum leiðbeiningum og ráðum. Það var óneitanlega mikill stuðningur að hafa hana á efri hæðinni ef eitthvað kom upp sem leysa varð úr. Ekkert var betra en að fara upp í kaffi til Valgerðar og setjast aðeins út á verönd hjá henni og spjalla um heima og geima á góðum sumardögum eða að skiptast á uppskriftum. Valgerður var alltaf til í að prufa eitthvað nýtt þegar kom að bakstri eða matargerð. Valgerður var hörkukvendi og allt sem hún tók sér fyrir hendur var gert 100 prósent. Sem ungt foreldri með lítið heimili skammaðist maður sín oft fyrir húshaldið hjá sér þegar viðmiðið var heimili Valgerðar. Stór og mikill kostur við Valgerði var hversu hreinskiptin hún var. Hún hikaði ekki við að segja sína meiningu og því vissi maður alltaf hvar maður stóð gagnvart henni. Valgerði var gott að eiga að og frábært að koma til hennar í kaffi eftir að við fluttum út. Tómasi, langömmubarninu hennar, leið alltaf vel á Otrateignum og hans fyrsta verk í heimsóknum þangað var að kíkja á efri hæðina á dótið sem hann vissi að þar var að finna. Að því loknu kíkti hann alltaf í ofninn inni í eldhúsi því þar lumaði Valgerður oft á einhverju góðgæti. Við eigum eftir að sakna þess að missa af þeim góða félagsskap sem amma Valgerður var en vitum að hún er án efa í góðum verkefnum þar efra.

Takk fyrir samskiptin, þau voru okkur dýrmæt.

Hafsteinn og Þóranna Skriðu, Kjalarnesi.