Steingrímur Stefán Thomas Sigurðsson fæddist á Akureyri 29. apríl 1925. Hann varð bráðkvaddur í Bolungarvík 21. apríl síðastliðinn og fór útför hans fram frá Kristskirkju 29. apríl.

Ó hve einmana ég er á vorin þegar sólin strýkur blöðum trjánna líkt og þú straukst vanga minn forðum og þegar ég sé allt lifna og grænka minnist ég þess að þú gafst einnig lífi mínu lit og þegar ég sé sólina speglast í vatninu speglast minningin um þig í hjarta mínu og laufgast á ný.

Hann Steingrímur St. Th. Sigurðsson listmálari og rithöfundur er látinn. Það kemur illa við hjarta mitt og þegar Morgunblaðið kom með mynd af honum og stutt ágrip af ævisporum varð ég orðlaus í bili. Ólýsanlegur kraftur hefur samt lyft mér upp, ég ætla að flytja honum kveðju.

Steingrímur var sérstakur maður. Hann var haldinn ofurmætti sem ekki var hægt að skilja en svo gat hann dottið niður fyrir núll á annan máta. Börnum sínum þremur veitti hann mikla umhyggju og umönnun meðan þau voru lítil.

Hann vildi hafa börnin skrautleg og klæddi þau stundum í sokka sem voru ekki í sama lit, hægri fóturinn hárauður og sá vinstri blár eða gulur. Þennan sérstaka smekk hafði Steingrímur.

Það væri margt gott hægt að segja um Steingrím. Hann var feikilega gefandi persóna og mikilvirkur. Hann umvafði mig sínum kærleika og fyrir það er ég honum þakklát.

Jensína Halldórsdóttir.

Ó hve einmana ég er á vorin

þegar sólin strýkur blöðum trjánna

líkt og þú straukst vanga minn forðum

og þegar ég sé allt lifna og grænka

minnist ég þess að þú gafst einnig lífi mínu lit

og þegar ég sé sólina speglast í vatninu

speglast minningin um þig í hjarta mínu

og laufgast á ný.

Björg Elín Finnsdóttir.

Steingrímur Sigurðsson, sá mikli stórfrændi minn, var jarðsettur á laugardag, á sjötíu og fimm ára afmæli sínu. Hann hafði lofað ættingjum sínum og vinum veislu og stóð við það. Ekki veit ég hvort hann var sjálfur viðstaddur eða upptekinn við annað, það skiptir litlu, hann er meðal okkar eigi að síður, sterk og kröftug minning.

Andlát hans var snöggt og óvænt, án undirbúnings rétt eins og mörg tilvik í lífi hans, og kom honum sjálfsagt jafnmikið á óvart og öðrum. Orð Sigfúsar Daðasonar eiga kannski betur við hér en oft áður, "sá sem er dauður, hann er dauður hvaðan sem á hann stendur veðrið". Flest myndum við vafalítið kjósa að fá að kveðja heiminn snöggt. Steingrími hefðu langdregin endalok ekki verið að skapi.

Andlát hans bar þó að með friði og ró í hópi vina við 108. málverkasýningu hans. Andlátið lýsti honum sjálfum kannski betur en margt annað, í reynd var hann tilfinningaríkur, næmur og feiminn húmanisti og gáfumaður, sem leyndist bak við sérstæðan húmor og gauragang í framkomu.

Persónuleiki Steingríms var sérstæður, með honum er genginn einn af síðustu íslensku originölunum, hann setti svip á bæinn, aðra bæi út um land og ekki síst blaðið sem er vettvangur þessarar kveðju. Ekki munum við lengur sjá lítil, kjarnyrt og stundum skrúðmælin bréf sem mæra afburða viðurgjörning á gististöðum og veitingahúsum hér og þar á landinu, Grímur að gjalda greiðann. Þjóðarsálin er fátækari eftir.

Hann var mikil hamhleypa til verka, málaði af krafti, orku og alltaf af tilfinningu. Hann gerði það sem margir kollegar gætu lært af, fór með list sína um landið til fólks og sýndi. Þar fór hann mikinn, fréttir í blöðum um að Steingrímur St. Th. Sigurðsson hefði opnað málverkasýningu voru eins vissar og aflafréttir.

Lífshlaup hans var margbrotið, og víða var drepið niður fæti, og stundum skriplað á skötu, en oftast komið standandi niður. Þótt stundum væru teknar dýfur reis Steingrímur alltaf í hæðir aftur. Honum varð ekki komið á kné fyrr en nú.

Steingrímur hafði ákveðnar skoðanir á flestum málum, og ekki síst í pólítík. Hann var mikill fylgjandi Sjálfstæðisflokksins og studdi flokkinn með ráðum og dáð, bæði í umræðuþáttum fyrir kosningar og víðar. Ýmsir halda því fram að hann hafi með þessu unnið borgarstjórnarkosningar fyrir R-listann hérna um árið. Sama hvaðan gott kemur.

Steingrímur skilur eftir sig mikla arfleifð, fyrst og fremst skilur hann eftir mannvænleg börn sín, frændsystkini okkar sem gott er að eiga að. Verk hans munu lifa, en ekki síst er það minningin um þennan sérstæða lífskúnstner sem eftir situr. Orðstír hans deyr aldrei, enginn getur fetað í fótspor hans, hann verður aldrei klónaður.

Með þakklæti fyrir frændsemina og vináttuna kveð ég hann að leiðarlokum.

Sigurður Guðmundsson.

Við sáumst síðast í sólskini í Reykjavík og það var stíll yfir þér þá, eins og í lífinu og eins og í dauðanum. Nafn þitt mun nú um Íslands þúsund ár tengjast nafni góðs fólks sem kvaddi sama dag og þú fyrir tveimur árþúsundum og það er eins og vera ber. Þannig var bæði staður og stund eins og eftir pöntun, kæri Steingrímur, því þér þótti gaman að hafa dramatíska og táknræna reisn yfir vötnum.

Það liggur í hlutarins eðli að minningargrein er virðingarvottur sem erfitt er að endurgjalda en fyrir allar þínar hnyttnu og hittnu minningargreinar í gegnum tíðina, fannst mér rétt að þú fengir eina frá mér. Þótt ég eigi ættir að rekja til þess kynstofns er þú dáðir einna mest og valdir að deyja hjá, þá hef ég hvorki þína andagift né mannþekkingu, en stundum verður að meta viljann fyrir verkið.

Einhver spakur sagði, að hver vinur væri fulltrúi nýrrar veraldar innra með okkur, veraldar sem kannski væri ekki til fyrr en þessi vinur kæmi til sögunnar. Þannig má segja að þú og einn annar vinur hafi fært mér Vestfirðina, ykkar Vestfirði, sem ég fúslega gerði að mínum, því hjá ykkur voru þeir sveipaðir ævintýraljóma og ég fékk að vera sjóræningjaprinsessa í stafni. Annar spakur sagði að vinir væru afsökunarbeiðni guðs fyrir ættingjana. Allt í lagi þá, guð, þér er fyrirgefið. Steingrímur, ég á mynd af þér frá þessum síðasta fundi í sólinni, með klút um hálsinn, í vesti, göfugur og töff í senn, heiðursmaður og lærður, sem alltaf var til í að ærslast eins og rollingur. Ég kveð þig með eftirsjá og þakka samferðina. Náðin Drottins Jesú sé með öllum.

Þórdís Bachmann.

Jensína Halldórsdóttir.