Hulda Berndsen Ingvarsdóttir fæddist í Birtingaholti í Vestmannaeyjum 10. maí 1927. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 28. apríl síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Fossvogskapellu 5. maí.

Elsku langamma. Við vitum að nú ertu komin upp til englanna. Og við munum sakna þín mikið. Þú varst alltaf svo góð við alla og passaðir upp á fólkið í kringum þig. Þegar við komum í heimsókn til þín á hjúkrunarheimilið í síðasta sinn, helgina áður en þú fórst, varstu sofandi. Við kíktum samt á þig og sendum þér fingurkoss. Það var gott og við vitum að ef þú hefðir verið vakandi hefðirðu kysst okkur og knúsað. Þú hefðir líka lumað að okkur einhverju góðgæti og boðið okkur að leika í dótinu sem þú hafðir sankað að þér. Þannig varstu. Hugsaðir alltaf um aðra fyrst og svo langsíðast um sjálfa þig. Það er eitthvað sem við ætlum að læra af. Þó gleymir maður sér stundum og byrjar að hugsa bara um sjálfan sig. En það geta allir gert það.

Þeir eru hinsvegar færri sem geta gefið af sér allt til enda. Eins og þú.

Sem varðst göfugri eftir því sem þú veiktist meira. Hafðir áhyggjur af heilsu samsjúklinga þinna á hjúkrunarheimilinu þrátt fyrir að þú værir sjálf í hjólastól og hefðir í raun um nóg annað að hugsa. Þú hugsaðir vel og fallega um alla og það verður okkur ætíð innblástur til að verða að betri manneskjum.

Saknaðarkveðjur,

Gabríel Darri og Kristín Una.

Gabríel Darri og Kristín Una.