Lilja Vilhjálmsdóttir fæddist í Miðhúsum í Grindavík 16. desember 1909. Hún lést á Heilsustofnun Suðurnesja 30. apríl síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Agnes Jónsdóttir, húsfreyja, f. 3. desember 1876 á Þórkötlustöðum í Grindavík, d. 18. júní 1968, og Vilhjálmur Jónsson, trésmiður og sjómaður, f. 19. ágúst 1866 á Strandhöfða, V-Landeyjahreppi, d. 20. ágúst 1960. Þau slitu samvistir. Lilja ólst upp á Ísólfsskála í Grindavík hjá móður sinni og stjúpföður Guðmundi Guðmundssyni, f. 19. janúar 1884, d. 20 júní 1977. Alsystkini hennar eru: Jóhanna Guðleif, f. 28. okt. 1900, d. 26. sept. 1984, Magnúsína Sigurbjörg, f. 12. maí 1904, d. 4. apríl 1994, Arnfríður, f. 12. ágúst 1906, og Jón Hafliðason Vilhjálmsson, f. 17. september 1908, d. 20. desember 1990. Hálfsystkini Lilju frá föður eru: Guðjón, f. 25. nóvember 1896, d. 14 mars 1969, Reginbaldur, f. 26. mars 1911, d. 28. júlí 1998, Bjarni Kristinn, f. 9. ágúst 1912, d. 15. júní 1943, og Jóhanna Petrúnella, f. 29. ágúst 1917. Hálfsystkini Lilju frá móður eru: Valgerður Guðrún, f. 6. maí 1912, Sólrún, f. 9. desember 1913, Sigrún Rakel, f. 9. maí 1916, Guðmunda Hannesína Helga, f. 12. júlí 1918, Jón Valgeir, f. 4. júní 1921, og Ísólfur, f. 12. október 1922, d. 3. júlí 1994.
Börn Lilju eru: 1) Sigurbjörg Stefánsdóttir, f. 18. júní 1930, maki Ármann Guðjón Björnsson, f. 6. september 1923, d. 1. mars 1964. Þeirra börn eru Halldór, f. 29. janúar 1951, Kristinn, f. 8. maí 1952, Ársæll, f. 19. mars. 1955, Lilja f. 15. september 1956, Valur Rúnar, f. 16. september 1957, og Agnes, f. 9. nóvember 1962. 2) Bára Þórarinsdóttir, f. 2. júlí 1934, maki Haukur Sævaldsson, f. 24. október 1930. Þau slitu samvistir. Þeirra börn eru Hrafn, f. 14. júlí 1956, Hulda, f. 20. mars 1961, Lilja Hrönn, f. 17. maí 1965, og Haukur Örn, f. 25. október 1974. 3) Guðbjörg Ársælsdóttir, f. 30. júní 1939, maki Magnús Th. Magnússon, f. 8. janúar 1935. Þeirra börn eru Ársæll, f. 27. ágúst 1956, Magnús Ingi, f. 19. maí 1960, og Dóra, f. 25. október 1965. 4) Sveinbjörn Ársælsson f. 1. febrúar 1941, d. 27. nóvember 1985. Fyrri kona Ólafía Eva Valgeirsdóttir, f. 10. desember 1942. Þeirra synir drengur, f. 27. september 1965, d. 28. september 1965, og Hlynur Þór, f. 12. febrúar 1973. Síðari kona Ingibjörg Daníelsdóttir, f. 16. október 1950. Þeirra synir eru Sveinbjörn Ársæll, f. 17. febrúar 1981, og Gunnar Daníel, f. 17. febrúar 1984.
Lilja vann þau störf er tíðkuðust til sjávar og sveita á þessum tíma, sem vertíðarstúlka, vinnukona, kaupakona eða ráðskona þar til hún stofnaði heimili með manni sínum Ársæli Sveinbjörnssyni, f. 16. september 1910 á Eiði í Garði, d. 26. júlí 1974. Þau byrjuðu búskap 1937 á Garðstöðum í Garði, en fluttu í eigið hús að Sólvöllum, síðar Garðbraut 15, síðla árs 1941. Þau giftu sig 31. desember 1949.
Alls eru afkomendur Lilju nú orðnir sextíu og þrír.
Útför Lilju fer fram frá Útskálakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
Ef sérð þú gamla konu, þá minnstu móður þinnar,sem mildast átti hjartað og þyngstu störfin vann,og fórnaði þér kröftum og fegurð æsku sinnar,og fræddi þig um lífið og gerði úr þér mann. Þú veist að gömul kona var ung og fögur forðumog fátækasta ekkjan gaf drottni sínum mest.Ó, sýndu henni vinsemd í verki og í orðum, sú virðing sæmir henni og móður þinni best. Því aðeins færð þú heiðrað og metið þína móður,að minning hennar verði þér alltaf hrein og skýr,og veki hjá þér löngun til að vera öðrum góður,og vaxa inn í himin - þar sem kærleikurinn býr.(Ók. höf.)
Dauðinn heimsótti hana ömmu mína í Garði sl. sunnudag eins og kærkominn vinur seint á ævikvöldinu, þar sem hún var umvafin ástúð náinna ættingja á sjúkrahúsinu í Keflavík. Hún var södd lífdaga og tilbúin til að ganga á vit feðra sinna. Í himnaríki taka á móti henni afi minn sem hún missti fyrir rúmum aldarfjórðungi og Svenni frændi, einkasonur ömmu, sem lést fyrir 15 árum, langt um aldur fram. Þar taka líka á móti henni fráfallin systkini, vinir og vandamenn. Á 91. aldursári var hún búin að sjá á eftir mörgu samferðafólki.
En ef ég fullyrði að dauðinn hafi verið ömmu kærkominn gestur, af hverju er ég þá svona döpur? Af tómri eigingirni. Því ég er búin að missa hana ömmu mína í Garðinum sem hefur verið hornsteinn í lífi mínu síðan ég man eftir mér. Sem barn heimsótti ég ömmu og skynjaði veröldina í Garðinum sem töfraheim. Stóra blettinn umhverfis húsið, róluna í hitarörunum, gömlu leikföngin, gulræturnar og rabarbarana sem við krakkarnir sóttum sjálf á haustin og hefðum ekki nagað af meiri áfergju þótt við hefðum verið með sleikipinna. Meira segja tvöfaldi frystirinn, alltaf sneisafullur af mat, var ævintýralegur, svo ekki sé minnst á meðlætið með kaffinu og lambasteik í ofni sem enginn eldar eins og amma gerði. Henni var það mikið hjartans mál að gestir yfirgæfu ekki húsið hennar með tóman maga. Á unglingsárunum sóttist ég eftir því að fara í Garðinn því þar var svo ótrúlega kyrrlátt. Bara við að loka augunum og hugsa inn í húsið á Garðbraut 15 og hlusta eftir prjónunum hennar ömmu færist yfir mig kyrrð. Töfraheimur bernskunnar hvarf unglingnum. Garðurinn varð griðastaður þangað sem ég leitaði þegar erill unglingsárana var að sliga mig. Eftir að ég eltist og eignaðist fjölskyldu sjálf var mér það mikilvægt að börnin mín kynntust ömmu í Garði, kyrrðinni og einföldu ævintýrunum í stássstofunni og í kjallaranum.
Mitt í þessari veröld stóð amma mín, ættmóðirin mikla, og sá til þess að gefa okkur að borða, gefa okkur vettlinga og sokka, gefa börnunum okkar prjónaföt, gefa okkur kartöflur og flatkökur til að taka með heim, gefa okkur af öllu því sem hún gat. Þrátt fyrir að hafa ekki verið rík af veraldlegum auði var hún amma mín sú örlátasta manneskja sem ég hef kynnst.
Um leið og ég skrifa þessi orð læðist að mér sá grunur að þessi minningargrein væri ömmu sennilega ekki að skapi. Því hún vildi ekki lesa neina vitleysu, skáldsögur eða slíkt. Hún vildi fá að vita kjarngóðar staðreyndir um fólk. Ég læt duga að segja að fyrir mér var hún fulltrúi þeirrar kynslóðar sem nú er að hverfa okkur sjónum. Kynslóðar sem hafði vinnuna að leiðarljósi af því að lífið bauð ekki aðra kosti í þeim efnum. Kynslóðar sem með ómældri vinnu lagði grunninn að velferðarsamfélagi nútímans. Okkur unga fólkinu er eflaust erfitt að skilja það erfiði sem ömmur okkar og afar lögðu af mörkum svo að okkar líf mætti verða betra en þeirra. Mér, eins og eflaust öllum hennar afkomendum, hefur verið hollt að kynnast þessari lífssýn.
Jarðbundin lífsýn samofin örlæti, áreiðanleika og einlægni er í mínum huga sá mikli karakter; amma í Garði.
Hún hafði líka ótrúlegt minni. Ef hún hefði lesið lög á sínum tíma þá hefði hún sennilega ekki þurft að fletta upp lagabálkunum. Hún hefði bara munað þá. Stundum var ég segja henni frá ferðum mínum um landið. Þá spurði hún gjarna hvort vegurinn hefði ekki legið svona eða hinsegin og hvar býlin stóðu. Yfirleitt mundi ég það ekki. Það kom ekki að sök því hún gat hæglega farið yfir það með mér í huganum hvernig landshættir voru í Borgarfirðinum, Biskupstungum eða austur í landi þar sem hún hafði verið kaupakona rúmum 60 árum áður. Hvort heldur hún hafði komið þangað síðan eða ekki.
Amma hafði frá miklu að segja af langri ævi og áhugaverðast þótti henni að tala um fólk sem hún hafði kynnst eða vissi deili á. Hún hafði einlægan áhuga á fólki og þess vegna las hún mest minningargreinar og ævisögur. Eins mikið og hún talaði um alls kyns fólk, sem hún hafði verið samferða í lífinu, oftast af Suðurnesjum, dæmdi hún það ekki heldur velti fyrir sér hvernig höndum lífið hafði farið um þetta fólk. Hún var nánast eins og mannfræðingur í vangaveltum sínum. Á síðustu árum var oft ótrúlega létt yfir henni einmitt þegar hún var í rannsóknum á spítala, bæði í Keflavík en líka á Vífilsstöðum því þrátt fyrir ýmis mein og vanlíðan hafði hún svo mikinn félagsskap af hinum sjúklingunum sem voru gjarna konur á hennar aldri. Og þá var nú aldeilis skipst á ævisögunum! Hún var nefnilega svo mikil félagsvera þrátt fyrir að hafa búið ein síðastliðin ár. Það kom aldrei til tals að hún færi á elliheimili því hennar takmark í lífinu var að búa í húsinu sínu í Garðinum eins lengi og unnt var og gera allt sjálf meðan hún gat, jafnvel lengur en heilsan leyfði. Undir það síðasta hafði hún ekki kraft í að koma útsæðinu sjálf niður í kartöflugarðana uppi í heiði. En meðan ættingjar sáu um það, undir styrkri yfirstjórn ömmu, var henni mikið létt, því það er svo mikill tilgangur fólginn í því að setja niður útsæði að vori og taka upp kartöflur að hausti.
Maður var svo sem ekki alltaf sammála henni ömmu og hún dró ekkert undan þegar hún hafði myndað sér skoðanir á annað borð. En maður var heldur ekkert að karpa neitt við hana, því ef hún hafði skoðanir á hlutunum fékk maður að heyra þær og svo hún gat farið aftur að prjóna.
Það er svo margt sem kemur upp í hugann við fráfall ömmu, svo margar góðar minningar. En ein tilfinning stendur upp úr í þeim hafsjó minninga sem sækja á mig og það er þakklæti. Þakklæti fyrir að hafa verið hornsteinninn minn í Garðinum. Mig langar fyrir hönd allra barnabarna,barnabarnabarna og barnabarnabarnabarna (hún amma var nefnilega orðin langalangamma og stolt af því) taka mér það bessaleyfi að segja: Takk fyrir að hafa verið amma í Garði.
Dóra Magnúsdóttir.
Amma var dugnaðarforkur sem aldrei féll verk úr hendi og öll nutum við góðs af prjónaskap hennar, allir fengu hosur og vettlinga á haustin eða eftir þörfum. Hún var mjög nýtin, henti helst engu og það var undravert hvað hún gat nýtt hlutina í. Hún galdraði fram veislur á örskammri stundu ef gesti bar að garði og hafði alltaf af því áhyggjur að fólk hefði nú ekki fengið sér nóg. Eftir að ég varð fullorðin var afskaplega gott að koma í þá ró og kyrrð sem ríkti í húsinu hennar ömmu, sitja í eldhúsinu, þiggja veitingar og spjalla um gamla daga því amma sagði svo vel frá lífinu þegar hún var ung. Hún var líka mjög ættfróð og hafði ótrúlegt sjónminni þannig að frásögnin var sérstaklega fróðleg og lifandi. Og alltaf sagði hún: "Ætlar þú ekki að fá þér meiri bita, væna mín, þú hefur varla snert á brauðinu?" Þannig að þegar heim var haldið stóð ég á blístri. Það eru margar góðar minningar sem ég á um hana ömmu mína sem mér þótti svo ósköp vænt um og var svo stór þáttur í lífi mínu þegar ég var að alast upp.
Elsku besta amma mín, takk fyrir allt. Hvíl þú í friði.
Hulda Hauksdóttir.
Takk fyrir allt.
Þín,
Lilja Hrönn Hauksdóttir
og fjölskylda.
Ef sérð þú gamla konu, þá minnstu móður
þinnar,sem mildast átti hjartað og þyngstu störfin
vann,og fórnaði þér kröftum og fegurð æsku
sinnar,og fræddi þig um lífið og gerði úr þér
mann.
Þú veist að gömul kona var ung og fögur
forðumog fátækasta ekkjan gaf drottni sínum
mest.Ó, sýndu henni vinsemd í verki og í orðum,
sú virðing sæmir henni og móður þinni
best.
Því aðeins færð þú heiðrað og metið þína
móður,að minning hennar verði þér alltaf hrein og
skýr,og veki hjá þér löngun til að vera öðrum
góður,og vaxa inn í himin - þar sem kærleikurinn
býr.(Ók. höf.)
Í dag er kvödd fyrrverandi tengdamóðir mín, Lilja Vilhjálmsdóttir. Ég vil í þessum orðum minnast hennar. Kynni okkar eru orðin löng, eða nærri fjörutíu ár. Tengsl okkar slitnuðu aldrei sem betur fer.
Lilja var um margt einstök kona. Þegar litið er yfir farinn veg verður hennar minnst sem mikillar sómakonu. Hún bjó yfir mörgum dýmætum eðliskostum. Fyrst og fremst var hún heimilismanneskja. Hæst ber hve mikil dugnaðarkona hún var til allra verka og féll aldrei verk úr hendi. Vandvirkni hennar var við brugðið. Hún var mikil hannyrðakona, en allt hennar fólk naut góðs af því svo og aðrir óskyldir. Enginn var afskiptur. Lilja hafði gaman af lestri góðra bóka, einkanlega hvað snerti fróðleik um land og þjóð. Ævisögur voru henni oft til mikillar ánægju.
Hópurinn hennar, sem hún var svo hreykin af og fylgdist grannt með, er orðinn mjög stór. Hún fylgdist með fæðingu hvers nýs fjölskyldumeðlims og sagði með stolti frá númer hvað hann væri.
Manninn sinn góða, hann Ársæl V. Sveinbjörnsson, kæran tengdaföður minn, missti hún árið 1974. Þá urðu mikil kaflaskipti á Sólvöllum í Garði. Einkason sinn, Sveinbjörn, missti hún einnig, árið 1985, báða á besta aldri. Þessu mótlæti tók Lilja með sínu þekkta æðruleysi eins og lífið hafði kennt henni.
Óþarfa tilfinningasemi var ekki hennar stíll, en það vafðist ekki fyrir neinum, að þar fór skapmikil kona. Hún var afar stjórnsöm og fór ekki í launkofa með skoðanir sínar og stóð á þeim.
Lilja hafði ótrúlegt minni eins og kunnugir þekkja. Áhugi hennar á fólki og ætterni manna var mikill. Ég hlustaði oft á hana rekja saman ættir fólks, sem virtist í fyrstu æði langsótt. Hún var ótrúlega minnug á löngu liðna atburði og sérstaklega á staðhætti og örnefni.
Eitt sinn fórum við í jeppaferð inn á Vigdísarvelli á Reykjanesi, hvar verið var að rétta. Veðrið var mjög gott. Sól skein í heiði og með í ferð voru sneisafullir dunkar með heimabakkelsi. En það var ekki verið að slóra. Hún prjónaði alla leiðina, en í "forbifarten" sagði hún frá því markverðasta sem fyrir augun bar. Hún sagði frá landsháttum, bæjarnöfnum, örnefnum og mannlífi á liðinni tíð. Sumt var kryddað með sögum af "romans" frá þeim góðu gömlu dögum.
Lilja var alin upp hjá móður sinni og fóstra á Ísólfsskála við Grindavík, við úfið hraun og beljandi haf. Þar er veðrasamt og hrjóstrugt. Ókunnugum kann að virðast ófýsilegt að búa þarna, a.m.k. erfitt miðað við aðstæður. Allt þetta mótaði Lilju. Heimilið var stórt og allir urðu að vera fljótir að læra handtökin og að bjarga sér. Stór var hópurinn, en þau systkini urðu tólf alls, sem móðir hennar átti með sínum tveimur mönnum.
Ég fann mjög til þess er ég kom í fjölskylduna hversu vankunnandi ég var. Ég ólst upp á mölinni í gömlu Reykjavík í hjarta bæjarins. Allt var sótt í búðina á horninu, enda þótti ég kunna lítt til verka. Aldursmunurinn á milli okkar var einhvern veginn meiri en árin sögðu til um. Gildismat okkar var um margt afar ólíkt. Við smullum ekki saman svona í einni andrá.
Ég held að henni hafi ekki þótt mikið til koma svona vinnu eins og minnar, að sitja á skrifstofu. Það var ekki eiginleg vinna. Það var þó aldrei rætt beinlínis.
Lilja naut sín best þegar talað var um gamla tímann, sérstaklega vinnuaðferðir utanhúss og innan. Hún ólst upp við að allt var unnið heima. Ull var breytt í fat, maturinn var unninn heima, eins var með sápuna og allt sem þurfti til daglegra nota. Lítið var um aðdrætti úr búð. Lífnaðarhættir áður fyrr voru eilíf uppspretta langra samræðna. Þá fór hún gjarnan á flug og var sannarlega í essinu sínu. Það var oft gaman að hlusta. Lilja hefði með sitt afburða minni sannarlega getað notið sín á öðrum vettvangi, hefði hún notið menntunar. Þá voru aðrir tíma og slíkt ekki í augsýn.
Henni fannst gaman að klæða sig uppá, eins og öllum hennar systrum. Það hefur oft verið skemmtilegt að hitta þær saman svo "flottar" við hin ýmsu tækifæri. Alltaf hressar og skemmtilegar.
Vinátta okkar hefur vaxið með árunum. Engin orð um það, þau voru óþörf. Faðmlagið og brosið var nóg, framundir það síðasta. Er ég kom til hennar að sjúkrabeðinu á Keflavíkursjúkrahúsinu nú á föstudaginn langa, sá ég að komið var að leiðarlokum.
"Nú er hún Snorrabúð stekkur". Engin Lilja amma í Garði. Litla húsið stendur autt og yfirgefið. Það hefur hýst marga og veitt öllum sem stöldruðu þar við. Lilja var tilbúin til ferðarinnar löngu og til að hitta sitt fólk á betri stað.
Það hefur verið sárt undanfarin misseri að horfa upp á slíkan skörung svo hjálparvana. Aldrei æðruorð. Nú er hún laus úr viðjum þjáninganna.
Ég þakka henni fyrir allt sem hún var mér og fyrir það sem ég lærði af henni. Hjartans þakkir fylgja frá Hlyni Þór, Guðrúnu Björk og Baldvini Snæ til elsku ömmu.
Lækkar lífdaga sól.
Löng er orðin mín ferð.
Fauk í faranda skjól,
fegin hvíldinni verð.
Guð minn, gefðu þeim frið,
gleddu og blessaðu þá,
sem að lögðu mér lið.
Ljósið kveiktu mér hjá.
(Herdís Andrésdóttir.)
Hvíli hún í Guðs friði.
Eva Valgeirsdóttir.
Dóra Magnúsdóttir.