Ingibjörg Jónsdóttir fæddist að Efri-Holtum í V-Eyjafjöllum 21. mars 1908. Hún lést á hjúkrunardeild Lundar á Hellu hinn 27. apríl síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Pálsson frá Fit í V-Eyjafjöllum, f. 6. maí 1872, d. 2. feb. 1930, og Þorbjörg Bjarnadóttir frá Gíslakoti í A-Eyjafjöllum, f. 12. júní 1877, d. 26. des. 1965. Þau hófu búskap á Efri-Holtum en fluttu síðar að Ásólfsskála í sömu sveit. Ingibjörg var sjöunda í röð þrettán barna þeirra hjóna. Þau eru: Margrét, f. 3.6. 1897 (látin), maki Sigurður Guðjónsson (látinn); Guðbjörg, f. 7.8. 1901 (látin), maki Sigurður Guðjónsson (látinn); Sigurður, f. 10.9. 1902 (látinn), maki Guðrún Ólafsdóttir (látin); Páll, f. 9.11. 1903 (látinn), maki Sólveig Pétursdóttir; Þórarinn, f. 5.5. 1905, maki Sigrún Ágústsdóttir; Jón, f. 14.8. 1906; Sigurbjörg, f. 24.5. 1910 (látin), maki Sigurjón Guðjónsson (látinn); Einar, f. 15.10. 1912 (látinn); Einar, f. 26.10. 1914, (látinn), maki Ásta Steingrímsdóttir (látin); Sigurlaug, f. 10.6. 1916, maki Guðjón Pétursson (látinn); Ólafur Jónsson, f. 10.1. 1918 (látinn), maki Jóna Björnsdóttir; Kristín, f. 13.9. 1920 (látin).

Hinn 5. janúar 1935 giftist Ingibjörg Hróbjarti Péturssyni frá Lambafelli, f. 20.6. 1907, d. 10. feb. 1992. Foreldrar hans voru Pétur Hróbjartsson og Steinunn Jónsdóttir á Lambafelli. Börn Ingibjargar og Hróbjartar eru: 1) Kristín, f. 18.6. 1935; maki Sveinn Jónsson (látinn). Þau eiga sjö börn, tólf barnabörn og eitt barnabarnabarn. 2) Guðsteinn Pétur, f. 26.6. 1937, maki Árný Magnea Hilmarsdóttir (látin). Þau eiga tvö börn og þrjú barnabörn. 3) Þór, f. 27.11. 1940, maki Ingveldur Sigurðardóttir. Þau eiga eitt barn. 4) Einar Jón, f. 6.3. 1942; maki Ólafía Oddsdóttir. Þau eiga þrjú börn og sjö barnabörn. 5) Unnur, f. 22.11. 1946, maki Helgi Haraldsson. Þau eiga átta börn og tólf barnabörn. 6) Ólafur, f. 15.1. 1949, maki Kristín Guðrún Geirsdóttir. Þau eiga fjögur börn og eitt barnabarn.

Skólaganga Ingibjargar var hefðbundið barnaskólanám. Bústörfum sinnti hún fram yfir tvítugsaldur á heimili foreldra sinna á Ásólfsskála. Hún hóf búskap í Vestmannaeyjum ásamt eiginmanni sínum um 1935 og bjuggu þau þar til ársins 1940 er þau fluttu að Lambafelli í A-Eyjafj. og tóku við búi foreldra Hróbjartar.

Ingibjörg tók þátt í félagslífi sveitarinnar og starfaði m.a. í Kvenfélaginu Fjallkonunni.

Útför Ingibjargar fer fram frá Ásólfsskálakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Móðir, nú ég minnast vil á þig móðir, sem í heiminn færðir mig, móðir, ég vil yrkja um þig ljóð alla tíð þú varst svo blíð og góð. Móðir, hvað er meira, en brosið þitt en megnar ætíð lækna hjartað mitt móðir, hvað er meira, en öll þín tár megi Drottinn græða öll þín sár. Móðir blíð, hve bjart er kringum þig blessuð sértu, er örmum vafðir mig. Móðir, hafðu mesta frá mér þökk, meira ei getur túlkað önd mín klökk. (Höf. ók.)

Móðir, nú ég minnast vil á þig

móðir, sem í heiminn færðir mig,

móðir, ég vil yrkja um þig ljóð

alla tíð þú varst svo blíð og góð.

Móðir, hvað er meira, en brosið þitt

en megnar ætíð lækna hjartað mitt

móðir, hvað er meira, en öll þín tár

megi Drottinn græða öll þín sár.

Móðir blíð, hve bjart er kringum þig

blessuð sértu, er örmum vafðir mig.

Móðir, hafðu mesta frá mér þökk,

meira ei getur túlkað önd mín klökk.

(Höf. ók.)

Fallegt ljóð, sem segir næstum allt sem segja þarf um móður okkar systkinanna frá Lambafelli. Til hennar gátum við leitað með öll okkar vandamál og úr þeim var leyst bæði fljótt og vel. Hún lærði það í bernsku, sem flestir fengu að kynnast á hennar aldri að mikil vinnusemi, samfara dugnaði og áræði væri allt sem þyrfti til að komast áfram í þessu lífi. Þannig munum við hana sívinnandi frá morgni til kvölds.

Þegar faðir okkar var rúmfastur, svo mánuðum skipti, hefur eflaust reynt mikið á mömmu, bæði utan dyra sem innan en aldrei var kvartað, frekar bætt á sig verkefnum. Þau tóku að sér fósturbörn svo og barnabörn sem ólust upp hjá þeim fram að unglingsárum.

Ekki er nokkur vafi á því að henni þótti ekki síður vænt um þau en sín eigin. Minntist hún oft á bróðurson sinn, Sigfús, er kom á heimili okkar barn að aldri og dvaldist til fullorðinsára hjá okkur, enda reyndist hann þeim sem besti sonur. Er árin færðust yfir og heilsan fór að bila, þá drýgðu þau tekjurnar með því að taka að sér sumarbörn og eru þau ófá, sem dvalið hafa á Lambafelli um lengri eða skemmri tíma.

Mamma var grallari, ætíð stutt í prakkaraskapinn, sögur af unglingsárum á Skála lýstu henni hvað best. Einu sinni á grímudansleik í Skarðshlíð dansaði karlmaður þar allt kvöldið án þess að nokkur bæri kennsl á hann. Þegar grímurnar voru teknar niður um miðnóttina ætluðu viðstaddir ekki að trúa því að þar færi húsmóðirin á Lambafelli.

Hún var sérstök, vann eins og þræll, gat skemmt sér og tekið þátt í félagslífi hvenær sem var.

Mamma var dýravinur og voru hestarnir í sérstöku uppáhaldi hjá henni, og ekki spillti það fyrir að þeir voru skjóttir, það var liturinn frá Skála. Langbesti gæðingurinn sem hún átti var einmitt rauðskjóttur og nefndi hún hann Skjöld. Vann hann oft til verðlauna fyrir frábært tölt og mikill vilja og voru verðlaunaskeifurnar ætíð hafðar uppi á vegg.

Hún minntist oft á æskustöðvarnar á Ásólfsskála, og það var hennar hinsta ósk að hvíla heima, þegar þessu jarðneska lífi lyki.

Hafðu þakkir fyrir allt og allt.

Þinn sonur

Ólafur Hróbjartsson.

Ingibjörg Jónsdóttir föðursystir mín er gengin yfir móðuna miklu. Margs er að minnast er ég hugsa til baka, til daga minna á Lambafelli, þar sem hún bjó ásamt bónda sínum Hróbjarti Péturssyni.

Þau hjónin voru afar samhent, voru bæði dugnaðarfólk sem bjó lengst af við þröngan kost eins og algengt var á þeim tímum. Hróbjartur var völundur á tré og járn og allt lék í höndum frænku minnar. Barnahópurinn var stór en samt létu þau sig ekki muna um að taka börn í sveit eins og kallað var.

Ég nam margt af þeim hjónum, lærði að þekkja allskonar gróður og fugla og ekki síst að vinna ærlega á hendurnar, því ekki voru neinar vélar fyrst er ég kom að Lambafelli.

Ingibjörg var trúuð kona og hafði hina helgu bók ætíð hjá sér við hjónarúmið, las daglega og vitnaði oft í Frelsarann. Hún vandi mig á kirkjurækni og voru þær ófáar messurnar sem við sóttum saman að Eyvindarhólum en þá var sr. Sigurður Einarsson í Holti sóknarprestur Eyfellinga. Ég lærði gömlu sálmalögin og sálmana varð auðvitað að læra utanað svo allt gengi sem best.

Við fórum saman í berjamó austur í svokallaða Hálsa og tínt var í stóra mjólkurbrúsa og gerði Ingibjörg ljúffenga saft af berjunum. Allt var farið á hestum og þótti hin besta skemmtan. Síðan kom dráttarvélin og þá var drengurinn auðvitað látinn keyra, sækja vatn, fara með mjólk á pallinn og gera margt sem þurfti.

Glaðværð var mikil á heimilinu og oft hlegið dátt og innilega að ýmsu sem á dagana dreif.

Kæra frænka, ég þakka þér fyrir kærleika þinn og fórnfýsi í minn garð, boðun orðsins, fyrir öll handaverkin sem þú gerðir fyrir mig með þínum vinnulúnu höndum og aldrei féll verk úr hendi, iðni og samviskusemi í hávegum höfð alla tíð.

Þú lést aðra ganga fyrir en hugsaðir minna um sjálfa þig. Þetta á auðvitað einnig við um Hróbjart.

Ég votta systkinunum frá Lambafelli samúð mína með þökk fyrir allt og allt.

Sigfús Ólafsson.

Elsku amma Ingibjörg. Nú hefur þú fengið hvíldina sem þú þráðir. Eftir sit ég með söknuð í hjarta, en ég sit ekki bara með söknuð í hjarta heldur dásamlegar og hlýjar minningar um bestu langömmu í heimi. Ég man þegar ég kom til ykkar afa um helgar þegar ég bjó úti í Eyjum og alltaf var spennan jafnmikil að fá að koma í sveitina til ykkar. Ég man þegar við fengum okkur alltaf göngutúr niður að læknum og alltaf fékk hundurinn ykkar afa, hann Lappi, að koma með okkur. Ég man þegar ég var hjá ykkur og við vorum að fara að sofa, þá fékk ég alltaf að sofa milli þín og afa. En fyrst léstu mig fara með bænirnar sem þú kenndir mér. Svo kom veturinn '92, þá fékk afi hvíldina og ég man hvað þú misstir stóran hluta af sjálfri þér. Í jarðarförinni hans afa sat ég hjá þér og hélt í höndina þína og strauk þér, mér fannst erfitt að sjá tárin streyma niður kinnarnar á þér. Eftir útförina voru allir að hrósa mér fyrir að vera svona góð við þig, enda var ég ekki nema sjö ára. Þá kemur að dvalarheimilinu Lundi sem þú dvaldir á í átta ár. Ég kom alltaf til þín eins oft og ég gat, enda ömmustelpa. Öllum fannst ótrúlegt hvað þú þekktir mig alltaf, því minnið var ekki gott síðustu árin hjá þér. En mér fannst alltaf jafn gott að koma til þín þrátt fyrir það. Ég man árið '97 þegar ég kom til þín og þú varst að fara að leggja þig og ég skreið upp í rúm til þín og sofnaði. Ég vaknaði þegar tvær starfskonur voru að taka mynd af okkur því þeim fannst svo sætt að ég skyldi sofna uppi í rúmi hjá þér. En nú sit ég hér og er að horfa á myndina sem þær gáfu mér af okkur. Nú er víst komið að kveðjustundinni og ég vil þakka þér fyrir alla þá ást sem þú sýndir mér og allt sem þú kenndir mér. Einnig vil ég þakka starfsfólki dvalarheimilisins Lundar fyrir góða umönnun og hjúkrun á ömmu minni. Mig langar að birta bæn sem er mér efst í huga þegar ég hugsa um ömmu því hún kenndi mér hana:

Ó Jesú bróðir besti

og barnavinur mesti

æ breið þú blessun þína

á barnæskuna mína.

Elsku amma, þú munt alltaf eiga pláss í hjarta mínu. Sofðu vært amma Ingibjörg.

Þín langömmustelpa

Harpa Steinarsdóttir.

Í dag er til moldar borin Ingibjörg Jónsdóttir frá Lambafelli. Þegar ég minnist hennar er mér efst í huga umhyggja hennar fyrir fjölskyldu sinni. Hún gladdist yfir hverjum nýjum fjölskyldumeðlim og fylgdist vel með aldri og þroska hvers og eins. Oft byrjaði hún daginn með því að segja mér: ,,Í dag á hann Nonni minn afmæli", eða einhver annar sem tilheyrði hennar stóra hópi. Hún átti hlýju og væntumþykju handa þeim öllum.

Fyrir u.þ.b. 16 árum missti ég föður minn snögglega og þá naut ég hlýju og stuðnings frá þeim hjónum Ingibjörgu og Hróbjarti, sem var mér mikils virði. Vil ég þakka fyrir það og allt sem þú gafst mér, Steinari og börnum okkar.

Ég minnist þín með hlýju.

Hvíl þú í friði.

Þuríður Sigurðardóttir.

Ólafur Hróbjartsson.