TÖLVUFRÆÐSLAN á Akureyri hefur fengið vottun sem prófmiðstöð fyrir hið samevrópska EDCL-skírteini sem á íslensku er kallað tölvuökuskírteini, skammstafað TÖK.

TÖLVUFRÆÐSLAN á Akureyri hefur fengið vottun sem prófmiðstöð fyrir hið samevrópska EDCL-skírteini sem á íslensku er kallað tölvuökuskírteini, skammstafað TÖK. Um er að ræða skírteini sem staðfestir að handhafi þess hafi staðist próf í notkun á tölvum og upplýsingakerfum og geti beitt þessari þekkingu sinni í leik og starfi. Skírteinið er staðlað og í flestum löndum starfa samtök sem fylgjast með að námsmarkmiðum sé fylgt. Hér á landi gegnir Skýrslutæknifélag Íslands þessu hlutverki og gefur út vottun til prófmiðstöðva sem hafa heimild til að prófa fólk og gefa út TÖK-skírteini.

Skírteinið getur verið afar gagnlegt, t.d. þegar fólk er að sækja um vinnu eða nám og staðfestir að viðkomandi hafi lokið prófi í sjö áföngum í notkun tölvu og algengustu forrita. Þessir áfangar eru grundvallaratriði upplýsingatækni, tölvan og stýrikerfi hennar, ritvinnsla, töflureiknir, gagnagrunnur, framsetning kynningarefnis og Netið. Ekki er nauðsynlegt að ljúka þeim öllum í einu heldur getur fólk tekið próf í einstökum áföngum og síðan bætt við þekkingu sína eins og því best hentar.

Skírteinið er viðurkennt í öllum löndum Evrópusambandsins og á Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig hefur útbreiðsla þess sífellt verið að aukast utan Evrópu.

Tölvufræðslan hefur starfað frá árinu 1988 og leggur áherslu á fjölbreytt og hagnýtt nám í ýmsum tölvu-, viðskipta- og tungumálagreinum. Höfuðstöðvar skólans eru að Furuvöllum 13 á Akureyri en Tölvufræðslan hefur einnig haldið námskeið á yfir 30 stöðum á landinu. Auk þess að þróa eigin námskeið og kennslugögn hefur skólinn haldið fjölmörg námskeið fyrir fyrirtæki og stéttarfélög sem eru þá sniðin að þörfum þeirra.