STARFSHÓPUR umhverfisráðherra setur fram hugmyndir um reglur og svæðaskiptingu á væntanlegu þjóðgarðssvæði á Vatnajökli í skýrslu sinni, þar sem umferð vélknúinna ökutækja verði beint þannig að tiltekin svæði verði helguð göngufólki.

STARFSHÓPUR umhverfisráðherra setur fram hugmyndir um reglur og svæðaskiptingu á væntanlegu þjóðgarðssvæði á Vatnajökli í skýrslu sinni, þar sem umferð vélknúinna ökutækja verði beint þannig að tiltekin svæði verði helguð göngufólki. Eftirfarandi tillögur er að finna í skýrslunni:

-Aðalakstursleiðin upp á jökulinn yrði upp Tungnárjökul, norðan Pálsfjalls og Háubungu að Grímsvötnum, leið sem hentar allt árið og er vinsælasti hluti Vatnajökuls fyrir umferð vélknúinna farartækja.

-Breiðamerkurjökull er hentugur staður til aksturs upp á jökul yfir vetrarmánuðina og á meðan aðkoman að Skálafellsjökli er hættuleg. Skálafellsjökull er hins vegar hentugur fyrir umferð vélknúinna farartækja.

-Aðkoman að austan er framhjá Snæfellsskála og upp á Brúarjökul og álíka góð aðkomuleið og Tungnárjökulsleiðin. Engin aðstaða er við jökuljaðarinn sem rýrir gildi svæðisins fyrir ferðaþjónustu.

-Kverkfjöll eru vinsæll staður fyrir göngufólk. Aðkomuna þarf að bæta til að auðvelda nýtingu svæðisins. Þar er einnig nokkur umferð vélknúinna farartækja, sérstaklega á veturna.

-Einnig er hægt að koma að jöklinum frá Kistufelli á Gæsavatnaleið inn á vestanverðan Dyngjujökul, en sú leið er lítið notuð vegna slæmrar aðkomu.

-Svæðið frá Skaftárjökli og austur að Breiðamerkurjökli hentar illa til umferðar vélknúinna farartækja og hefur verið litið á það sem svæði göngufólks.