Valéry Giscard d'Estaing
Valéry Giscard d'Estaing
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
LAUST fyrir lok síðasta árs lögðu 15 þjóðarleiðtogar fram áætlun um framtíðarþróun Evrópusambandsins. Með henni er engu líkara en að leiðtogar aðildarríkja sambandsins, hafi stigið öðrum fæti fram, án þess þó að hinn fylgdi á eftir.

LAUST fyrir lok síðasta árs lögðu 15 þjóðarleiðtogar fram áætlun um framtíðarþróun Evrópusambandsins. Með henni er engu líkara en að leiðtogar aðildarríkja sambandsins, hafi stigið öðrum fæti fram, án þess þó að hinn fylgdi á eftir.

Auk samningaviðræðna, sem nú eiga sér stað við Pólland, Ungverjaland, Tékkland, Slóveníu, Eistland og Kýpur, sem öll hafa sótt um aðild að ESB, var ákveðið að hefja viðræður við Slóvakíu, Lettland, Litháen, Rúmeníu, Búlgaríu og Möltu. Framkvæmdastjórnin gekk svo langt að lýsa því yfir að fyrir lok ársins 2000 yrði ákveðið hvenær sjö eða átta umsækjendur fengju aðild að sambandinu og einnig hve langur aðlögunartími þeim yrði gefinn. Samt sem áður hefur leiðtogum Evrópuríkja ekki tekist að búa ESB nógu vel undir að taka við þessum fjölda nýrra meðlima.

Brýn þörf er á að endurbæta stofnanir Evrópusambandsins. Þótt þær þjóni nú aðeins 15 ríkjum virka þær ekki nógu vel við núverandi aðstæður. Að öllu óbreyttu verða stofnanirnar ófærar um að sinna hlutverki sínu þegar aðildarlöndum sambandsins fjölgar og mun erfiðara verður að koma á umbótum eftir fjölgunina. Ef sambandið verður stækkað í svona miklum flýti og umbætur á stofnunum vanræktar að sama skapi er líklegt að það leiði til alvarlegrar kreppu innan ESB á fyrsta áratug 21. aldar. Að lokum gæti sambandið dagað uppi sem útþynnt fríverslunarsvæði með nokkrum jaðarstofnunum.

Slík afbökun á eðli Evrópusambandsins, og hinu einstaka sögulega markmiði þess, kann að vekja ánægju meðal þjóðernissinna í hinum ýmsu ríkjum Evrópu en þó einkum og sérílagi meðal frammámanna í Washington, sem sækjast eftir áhrifum í Evrópu til að greiða fyrir pólitískri stefnu - eða tálsýn Bandaríkjanna.

Ýmsir stjórnmálamenn, er flytja hástemmdar ræður um framtíð Evrópu virðast einungis þekkja sögu álfunnar aftur til Hitlers, Stalíns og kalda stríðsins. Þeir hafa ekki nægilegan skilning á átjándu og nítjándu öldinni, ekki síst sögu þjóðanna á Balkanskaga.

Saga Evrópu síðustu aldirnar hefur einkennst af stofnun ótal þjóðríkja, sem keppa hvert við annað og berjast innbyrðis. Flest eiga sér eigið tungumál og sérstaka þjóðarsögu. Engin þessara þjóða er tilbúin að fórna arfleifð sinni og sjálfsákvörðunarrétti. Þess vegna tekur langan tíma og marga áfanga, að fá fólk til að gefa smám saman eftir af fullveldi þjóðarinnar í því skyni að veita framtíðarþróun hennar brautargengi.

Þessi leið, sem hófst með Schuman-áætluninni 1950, hefur leitt til ótrúlegs árangurs innan Evrópusambandsins. Ef núverandi leiðtogar Evrópusambandsríkjanna halda að þeir geti tvöfaldað fjölda aðildarlandanna með hraðsoðnum ákvörðunum ráðherraráða og aðstoðarmanna þeirra einar að vopni - þá eiga þeir örugglega eftir að lenda í alvarlegum erfiðleikum, ekki síst gagnvart kjósendum heima fyrir.

Upphaflega voru það Frakkar sem komu samrunaferlinu af stað en Þjóðverjar hafa alla tíð samþykkt innlimun sína í sambandið. Frakkar hafa að minnsta kosti gert sér grein fyrir því að innlimun Þýskalands í ESB getur aðeins tekist til frambúðar ef franska þjóðin tengist sambandinu á sama hátt og hin þýska. Þessi gagnkvæmi skilningur Þjóðverja og Frakka hefur auðveldað mjög sameiningarferlið og gert að verkum að kreppuástandi hefur nokkrum sinnum verið afstýrt.

Síðasta kreppan í samrunaferlinu skapaðist kringum Maastricht-samninginn, en evran (sem verið hafði í bígerð í 20 ár) varð samt sem áður að veruleika. Enn einn sigurinn! Án Evrópska seðlabankakerfisins hefði verið hægt að beita gömlu þjóðbankana efnahagsþvingunum, neyða þá til að gangast undir skilmála markaðarins og þola harðar aðfinnslur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hinn sameinaði markaður Evrópu stæði þá frammi fyrir ógnvekjandi innbyrðis átökum.

(Hvað evruna varðar, erum við ekki sáttir við "velviljað" afskiptaleysi Evrópska seðlabankans gagnvart evrunni og skort á stuðningi pólitískra stofnana við hana. Sömu Evrópumennirnir og gagnrýna Bandaríkjamenn fyrir "velviljað" afskiptaleysi gagnvart dollaranum ættu að forðast að vera gagnrýndir á sama hátt!)

Viljinn til þess að viðhalda umtalsverðum sjálfsákvörðunarrétti Evrópu andspænis alþjóðlegu valdi á eftir að verða mikilvæg viðbótarástæða fyrir frekari samruna Evrópuríkja. Eitt og sér er ekkert evrópskt þjóðríki nógu öflugt og valdamikið til að bjóða alþjóðlegum stórveldum birginn, sem eiga áreiðanlega eftir að freistast til að leysa vandamál sín á næstu öld án þess að taka nægjanlegt tillit til hagsmuna annarra.

Aðeins með því að vinna saman að því að gera Evrópusambandið að fullkomlega starfshæfri heild, geta Evrópuþjóðir vænst þess að halda áhrifum sínum á alþjóðavettvangi. Hvernig gætum við annars haft áhrif á ákvarðanir um ný alþjóðalög, látið í okkur heyra um takmörkun vígbúnaðarkapphlaups, brugðist við stríði í öðrum heimshlutum, haft eitthvað að segja um hvernig best sé að haga alþjóðaviðskiptum, hvernig bregðast skuli við gróðurhúsaáhrifum, hvernig draga skuli úr fólksfjölgun í heiminum og taka á straumi flóttamanna og uppflosnaðra einstaklinga - og, síðast en ekki síst, hvernig koma eigi skipulagslausum fjármagnsmörkuðum nútímans í stöðugt og raunhæft alþjóðlegt kerfi.

Á 21. öldinni, í síðasta lagi á seinni helmingi hennar, mun einokun ameríska stórveldisins smám saman verða að engu. Í staðinn verða til fleiri en eitt stórveldi í heiminum. Evrópusambandið er ennþá langt frá því að vera fært um að standa fyrir öflugri sameiginlegri utanríkisstefnu og stefnu í öryggismálum og getur af þeim sökum ekki talist stórveldi.

Það mun kosta mikið átak að sannfæra gömlu Evrópuþjóðirnar um að áhrifamáttur þjóðfélaga okkar í framtíðinni og verndun hagsmuna þeirra, er kominn undir vilja okkar til að sameinast enn frekar.

Eftir er að sjá hvort breska konungsríkið muni á endanum ganga að fullu inn í ESB. Meðan breskaþjóðin veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga, er að hálfu innan sambandsins og að hálfu utan, veltur öll þróun sambandsins á náinni samvinnu Frakka og þjóðverja og verður undir forystu þeirra. þeir munu kjósa að vera áfram í bandalagi með Bandaríkjamönnum til að tryggja öryggismál á alþjóðavettvangi, en á sama tíma leggja áherslu á að halda sjálfsákvörðunarrétti sínum.

Aðgangur Pólverja, Tékka og Ungverja að Evrópusambandinu - samtals 60 milljóna manna - á sannarlega að vera ofarlega á forgangslistanum. En umbætur á stofnunum ESB hljóta samt sem áður að hafa algeran forgang. (Fyrir einstaka meðlimi Evrópuþingsins ætti þetta að vera frábært tækifæri til að sýna pólitískt frumkvæði!)

Aðgangur Tyrkja, samfara útfærslu á sameiginlegri utanríkisstefnu og öryggismálum að landamærum Sýrlands, Írak og Íran og ennfremur að Kákasussvæðinu, er alls ekki forgangsverkefni.

Í sumum tilfellum henta efnahagsleg tengsl betur en full aðild að sambandinu. það væri óviturlegt að galopna efnahagslega viðkvæm Evrópuríki fyrir fullri markaðssamkeppni við háþróuð evrópsk fyrirtæki - örlög austur-þýska iðnaðarins er víti til varnaðar. Einnig er óskynsamlegt að bjóða milljónum verkamanna að flytjast búferlum til Vestur-Evrópu, því að þeir kynnu að láta freistast til að setjast þar að af því að þeir þéna fimm eða tíu sinnum meira þar en heima. Leiðtogar Evrópusambandsins ættu að taka þessi félagslegu og efnahagslegu málefni með í reikninginn og flana ekki að neinu án undirbúnings.

Stækkun ESB um 27 lönd og 530 milljónir manna brýtur í bága við upphaflega áætlun sambandsins og getur engan veginn leitt til eins heildarkerfis innan sambandsins. Stungið hefur verið upp á ýmsum leiðum: "Evrópa á misjöfnum hraða", "Evrópa í sammiðja hringum", "Evrópa í tveimur lögum".

Nú þegar stækkunarferlið hefur farið af stað er augljóst að á næstu 20 til 50 árum mun Evrópa þróast á þremur mismunandi sviðum:

1. Skipulag evrópska svæðisins, eins og það verður skilgreint eftir stækkunina. Þetta skipulag snýr að efnahagsmálum og fríverslun ásamt takmarkaðri pólitískri sameiningu. Þetta verður í mesta lagi á svipuðum nótum og var fyrir stækkunina. En til þess að kerfið virki þurfa að koma til umbætur á stofnunum sambandsins. Að öðrum kosti hrynur það eins og framkvæmdastjórnin á síðasta ári. Versta úrlausnin væri sú að fela vanmátt sinn til umbóta undir tillögum um falskar málamiðlanir!

Á þessu "Evrópusvæði", verður hver þjóð, að meðtöldum Frökkum og Þjóðverjum, að fallast á málamiðlun milli þess sem hún telur best þjóna sérhagsmunum sínum og hæfilegrar samstöðu meðal heildarinnar. Hver þjóð heldur yfirráðum yfir þeim málum sem krefjast ekki sameiginlegra úrlausna eða reglugerða. Það verður að vera hægt að framfylgja nálægðarreglunni (subsidiarity).

2. Skipulagning sameiginlegra varna Evrópu er annað þróunarsvið Evrópusambandsins á næstu árum. Það er vel á veg komið með virkri þátttöku Bretlands. En til þess að þær virki þarf varnarkerfið annars vegar að byggjast á löndum sem hafa yfir að ráða verulegum hernaðarmætti og hins vegar almennri sátt um kerfi sem byggist á skjótum og árangursríkum ákvörðunum.

3. Þriðja sviðið beinist að því sem eftir er af upphaflegu markmiði sameiningarinnar. Augljóst er að alger sameining er ekki raunhæft markmið fyrir 30 lönd sem eru mjög ólík innbyrðis, t.d. í pólitísku og menninguarlegu tilliti og hvað varðar efnahagsþróun. Tilraun til samruna svo margra landa getur aðeins leitt til ófarnaðar. það er einnig ljóst að samruna er ekki hægt að neyða upp á lönd sem eru á móti honum. Eina raunhæfa leiðin er því að þau lönd, sem hafa til þess pólitískan vilja og þar sem efnahagur og félagslegar aðstæður eru svipaðar, muni þróa samruna.

Eins og sakir standa tilheyra öll þau lönd, sem þetta á við um, evru-svæðinu og íbúar þess eru nú þegar mun fleiri en íbúar Bandaríkjanna. Munu einhver þessara ríkja leita nýrra leiða til þess að sameinast um einhverja þætti pólitísks valdsviðs á grundvelli starfshátta sambandsríkja?

Slík nálgun þarfnast vissulega frumkvæðis frá stofnlöndunum, Frakklandi, Þýskalandi og Ítalíu, auk Benelúx-landanna og nokkurra annarra jákvæðra og sannfærðra kandídata. Til þess að þetta ferli virki þarf að koma á fót nýjum stofnunum; framkvæmdaráði og þingræðislegum stofnunum, sem hafa góð tengsl við þjóðþingin, en sennilega ekki framkvæmdastjórn. þessar stofnanir verða eins konar "stofnanir innan stofnananna", sem nú þegar eru til á vegum Evrópusambandsins.

Einu hömlurnar, sem löndin utan þessa samstarfs - sem kalla má til bráðabirgða "Evru-Evrópu" - geta lagt á það, eru að þessi nýi hópur virði allar samþykktir Evrópusambandsins og að þeim sé ekki heimilt að ganga í berhögg við núverandi stofnanir ESB.

Með þeim fyrirvara að samlíking er aldrei einhlít, þá mun þessi nýi hópur mynda svipaða pólitíska heild innan álfunnar og Bandaríkin gera í Norður-Ameríku.

Leiðtogum okkar skjátlast ef þeir halda að hröð stækkun Evrópusambandsins geti breitt yfir þau vandamál sem ekki tókst að leysa á ráðstefnunum í Maastricht og Amsterdam. Þeir hafa einnig rangt fyrir sér ef þeir láta nýju alríkisþingi þessi vandamál eftir án þess að hafa áður dregið upp sameiginlega pólitíska stefnu fyrir stjórnarerindreka sína að fara eftir.

Evrópa þarfnast forystu ábyrgðarfullra manna, sem hafa traust og trúnað kjósenda sinna, viljann til að skilgreina vel markmið sín og sýna að þeir séu ákveðnir í að móta söguna á ný.

©The Los Angeles Times Syndicate

European Viewpoint.

Valery Giscard d'Estaing er fyrrverandi forseti Frakklands og Helmut Schmidt er fyrrverandi kanslari Þýskalands. Þeir deila með sér formennsku í nefnd sem fjallar um myntbandalag Evrópu.

Höf.: European Viewpoint