Gunnlaugur Haraldsson
Gunnlaugur Haraldsson
eftir Gunnlaug Haraldsson. I.-III. bindi Þjóðsaga, ehf., 2000

ÞESSI er fimmta útgáfa læknatals. Sú fyrsta, Læknatal, (1760-1913), kom út 1914 og var samin af Jóhanni Kristjánssyni. Það taldi 143 lækna. Miðaðist upphafið við skipan fyrsta landlæknis, Bjarna Pálssonar, í embætti. Þar næst kom læknatal (Læknar á Íslandi) út 1944 og voru höfundar Lárus H. Blöndal og Vilmundur Jónsson. Þar í voru 378 læknar. Inngangur þessa rits var löng (59.bls.) og gagnmerk ritgerð Vilmundar Jónssonar á sögu lækninga og íslenskrar læknastéttar frá upphafi. Margt var fleira en stéttartal í því riti og átti því vel við að nafninu var breytt í Læknar á Íslandi og hefur þeirri nafngift verið haldið síðan. Læknar á Íslandi komu svo út aftur árið 1970, gert af sömu höfundum og með sama sniði. Þá komu Læknar á Íslandi út í þriðja sinn árið 1984. Ritstjóri þeirrar útgáfu var Gísli Ólafsson. Sú útgáfa var að því leyti frábrugðin þeim fyrri, að einungis voru þar æviskrár og upplýsingar nokkru minni en áður. Læknar töldust þá 1.193 og komust fyrir í einu þykku bindi.

Í þeirri útgáfu, sem nú birtist eru taldið 2.022 læknar og er fjölgunin (1981-1999) nálægt 70% og bindin orðin þrjú, enda upplýsingar allnokkru meiri en í síðustu útgáfu.

Með ritstjóra hefur starfað ritnefnd eins og venja er um rit af þessu tagi. Í þeirri ritnefnd hafa starfað Sigurbjörn Sveinsson, Hafsteinn Sæmundsson, Unnur Steina Björnsdóttir og Örn Bjarnason og auk þeirra framkvæmdastjórar Læknafélags Íslands, fyrst Páll Þórðarson, síðar Ásdís Rafnar.

Í upphafi ritsins er Ávarp ritnefndar og síðan kemur Inngangur ritstjóra (20 bls.). Er þar rakin í stuttu máli saga lækninga á Íslandi frá því á miðöldum, greint frá læknakennslu (Hafnarháskóli, Hið konunglega kírúrgíska akademí, Heimakennsla landlæknis, Læknaskólinn, Háskóli Íslands og erlendir háskólar). Er byggt á ritgerð Vilmundar Jónssonar svo langt sem hún nær.

Frá Háskóla Íslands hafa brautskráðst 1.746 læknar (1912-1999). Af þeim hópi er 20% konur. Má segja að konur hafi fyrst farið að ganga inn í þesa starfsstétt að einhverju marki eftir 1960. Langmest hefur fjölgun þeirra orðið á síðasta áratug, 1992-1999, eða 43%. Árið 1998 var kynjahlutfallið jafnt. 193 læknar teljast hafa lokið námi við erlenda háskóla allt frá árinu 1658.

Í lok Inngangs greinir ritstjóri frá tilhögun útgáfunnar og vinnu að henni. Kemur þar fram hverjar breytingar hafa verið gerðar. Er þar einkum um að ræða meiri ættfærslu lækna og maka þeirra, t.a.m. foreldrar, afar og ömmur, nánar er greint frá börnum og mökum þeirra. Allt er þetta með fæðingardögum og árum, svo og dánardögum þar sem það á við. Ritstörf eru einungis lauslega tilgreind að undanskildum doktorsritgerðum og sérfræðingsritgerðum. Ritstörf hinna elstu lækna eru þó nákvæmlega skráð. Starfa er ítarlega getið og verður það stundum langur listi, einkum ef starfsferill er langur, því að starfsvettvangur lækna er einatt breytilegur. Aftast í hverri æviskrá er greint frá skyldleikatengslum við aðra lækna. Þykir mér sem nákvæmnin verði þar stundum óþarflega mikil, eins og t.a.m. bróðurdóttursonarsonur, systursonardótturdóttir og fleira þess háttar.

Höfundur lætur orð falla um að erfitt hafi reynst á fá upplýsingar frá mörgum læknanna og hafi það verið tafsöm vinna. Niðurstaðan varð að engar upplýsingar bárust frá 100 læknum. Þar af neituðu 32 þátttöku. Allir eru þeir þó með í ritinu og heimildir teknar úr opinberum gögnum, sem öllum eru aðgengileg. Þeir, sem ekki sendu inn upplýsingar, án þess að neita, eru merktir með stjörnu, en hinir, sem neituðu, með tveimur stjörnum. Þrátt fyrir þetta eru um þá flesta miklar upplýsingar.

Í lok þriðja bindis er skrá yfir nám lækna allt frá upphafi eftir námsstöðum og árum (námslok). Er það fróðlegt og gagnlegt yfirlit.

Æviskrárnar sjálfar virðast mér vera ágætavel unnar. Skiptist hver æviskrá í nokkra hluta: Nafn og ætterni, Nám, Störf, Félags- og trúnaðarstörf, Ritstörf, Viðurkenningar, Maki, Börn, Skyldleiki/tengdir. Fæ ég ekki annað séð en höfundur hafi unnið verk sitt af góðri fagmennsku og vandvirkni, eins og hann er raunar þekktur fyrir af öðrum ritum.

Myndir eru af langflestum læknanna. Þær hafa prentast vel, enda er pappír góður.

Í alla staði er prýðilega frá þessu mikla stéttartali gengið.

Sigurjón Björnsson

Höf.: Sigurjón Björnsson