Ritstj. Herbert Guðmundsson. Höf. Ólöf Margrét Snorradóttir, dr. Guðrún Kvaran. 170 bls. Útg. Muninn. Prentun: Grafík hf. 2000.

BÓK þessi byggir á lögum og reglum um mannanöfn og nafnaskrá sem tók gildi fyrir þrem árum. Í formála segir að hlutverk bókarinnar sé »að birta löggilta nafnaskrá«. Má þá líta svo á að hér sé komin handbók fyrir foreldra, presta og aðra sem ráða mannanöfnum. Birtar eru »meginreglur um mannanöfn«. Þær eru hvergi óskýrar en að ýmsu leyti mótsagnakenndar, sýnilega samdar til að sætta ólík sjónarmið. Samkvæmt þeim skal íslensk nafnahefð í heiðri höfð og gildir þá einu hvort nafn er íslenskt eða erlent að uppruna. Foreldrum skal ekki leyfast að velja börnum sínum ónefni sem þeim sé ami að. Birtur er listi með nöfnum sem hafnað hefur verið. Meðal slíkra eru: Alexsandra, Franzisca, Daniel (með i) og Kristofer (með o). Nöfnin Daníel og Kristófer eru auðvitað leyfð. Því fer samt fjarri að mismunandi ritháttur sé í öllum tilfellum forboðinn: Leyfður eru rithátturinn: Richard, Ríkarður, Ríkharð, og Ríkharður svo dæmi sé tekið. Ennfremur Rudolf og Rúdólf, Geirarður og Geirharður. Auk nafnsins Pétur er leyft að skrifa Peter, Per og Pjetur. Þannig mætti lengi telja.

Snemma á liðinni öld tóku margir upp ættarnöfn sem þá var lögum samkvæmt leyfilegt. Síðar var söðlað um, og það svo rækilega að útlendingur, sem sótti um íslenskt ríkisfang, varð að kasta hvoru tveggja, skírnarnafni og ættarnafni en taka upp alíslenskt nafn með son og dóttir. Með núgildandi lögum voru þær kröfur mildaðar. En enginn getur framar tekið upp ættarnafn, hvorki íslenskt né erlent. Og mjög er dregið úr vægi þeirra íslensku ættarnafna sem fyrir voru því þeir, sem eiga rétt á að nota ættarnafn, mega einungis bera það til viðbótar því að kenna sig við föður eða móður. Það er þá kallað millinafn. Ekki er amast við erlendum skírnarnöfnum sem hafa unnið sér hefð, jafnvel þótt þau beri framandi svipmót. Skráin byrjar t.d. á Aagot. Meðal annarra slíkra eru: Angelíka, Sabrína, Kaj og Stanley. Nöfn eru tísku háð eins og hvað annað. Um fyrri aldamót tíðkaðist mjög að velja stúlkum karlanöfn með kvenkynsendingum - Guðmundína og Petrína eða jafnvel Péturína svo dæmi séu tekin. Hornstrendingar hölluðu sér að Biblíunöfnum eins og lesa má í sögum Guðmundar G. Hagalíns, þeim sem þar gerast. Sextíu og átta kynslóðin horfði með velþóknun til Sovétríkjanna og tók upp nafnið Tanja. Fyrir var rússneska heitið Sonja.

Hverju nafni, íslensku sem erlendu, fylgir í bók þessari skýring á uppruna og merkingu. Eitthvað er nú götótt í fræðunum þeim. Sex karlanöfn og fimmtán kvennanöfn byrja þarna á Sól, þar með talin Sólveig. Það er skýrt svo: »Máttur sólar. Myndað af forliðnum Sól- og viðliðnum -veig.« Og nafninu Solveig fylgir svo þessi skýring: »Máttur sólar. Ritmynd af Sólveig.«

Fyrrtalda skýringin er hæpin. Hin síðari alröng. Halldór Halldórsson skýrir nafnið Solveig svo (Stafsetningarorðabók með skýringum, 3. útg.): »... af salur og veig. Uppruni síðari liðar umdeildur.« Halldór taldi, ef ég man rétt, -veig vera samstofna við sögnina að vega. Solveig væri því nánast sömu merkingar og Rannveig. Hvort tveggja merkti: Sú sem ræður eða nýtur vegsemdar í húsinu. Skýringin sú samræmist sem best fornum, germönskum lögum sem kváðu svo á að konan - húsfreyjan - skyldi ráða innan stokks, það er að segja fyrir innan dyrastaf. Bæði eru nöfnin ævaforn og tíðkast enn með flestum eða öllum germönskum þjóðum. Í Sturlunga sögu (afar vandaðri útgáfu Jóns Jóhannessonar, Magnúsar Finnbogasonar og Kristjáns Eldjárn) eru fjórar konur með nafninu Solveig. Ekkert nafn byrjar þar á Sól-. Nafnið Sólveig er því síðari tíma alþýðuskýring. »Sólveig getur tæplega verið rétt,« segir í frumútgáfu orðabókar Halldórs. Þá athugasemd felldi hann að vísu niður í endurskoðaðri útgáfu, vafalaust vegna þess að nafnið Sólveig hefur unnið sér hefð og er líka fallegt. En þeim, sem virða íslenska tungu, ber að halda þessum tveim nöfnum skýrt og skilmerkilega aðgreindum.

Í karlanafnalistanum koma fyrir nöfnin Sólmundur og Sölmundur. Hið síðara er skýrt svo: »Verndari húss. Myndað af nafnorðinu salur 'stórt herbergi' og viðliðnum -mundur 'vernd'.« Eftirfarandi skýring fylgir hins vegar fyrrtalda heitinu: »Gjöf sólar. Myndað af forliðnum Sól- og viðliðnum -mundur 'gjöf, vernd'.« Þarna virðist merkingu viðliðarins vera hnikað til svo hann falli betur að forliðnum. Í Sturlungu eru fjórir með nafninu Sölmundur, enginn Sólmundur. Það bendir til að yngra nafnið sé einungis breytt mynd hins eldra. Þótt orðið sauil komi fyrir í gotnesku sannar það ekki að orðið sól geti ekki verið ævagamalt tökuorð úr latínu.

Sumar skýringarnar eru nokkuð langsóttar. Nafnið Signar er t.d. útskýrt svo: »Ef til vill myndað af kvenmannsnafninu Signa eða sótt til árheitisins Signa.«

Af lestri bókar þessarar má draga þá ályktun að íslensk lög og reglur um mannanöfn þurfi endurskoðunar við. Sjálfsagt er að leyfa ættarnöfn - eða banna þau með öllu svo dæmi sé tekið. Ef til vill er íslensk menning svo sérstæð og viðkvæm að hún standi og falli með son og dóttir?

Erlendur Jónsson