GÍFURLEG aukning varð á framleiðslu og innflutningi skotelda fyrir síðustu áramót, en þá fögnuðu Íslendingar því að árið 2000 gekk í garð. Alls voru flutt inn 552.169 kg af skoteldum á árinu 1999 en heildarmagn innflutnings árið 1998 var 278.323 kg.

GÍFURLEG aukning varð á framleiðslu og innflutningi skotelda fyrir síðustu áramót, en þá fögnuðu Íslendingar því að árið 2000 gekk í garð. Alls voru flutt inn 552.169 kg af skoteldum á árinu 1999 en heildarmagn innflutnings árið 1998 var 278.323 kg. Hér á landi voru framleidd 123.605 blys árið 1999 en rúmlega 90.000 síðustu tvö ár þar á undan.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skriflegu svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ástu Möller um skotelda sem lagt hefur verið fram á Alþingi, en fyrr á þessu þingi spurðist Ásta fyrir um tíðni slysa af völdum skotelda. Í svarinu kemur ennfremur fram að frá og með árinu 1995 til og með 1999 hafa verið flutt til landsins samtals rúmlega 1,3 tonn af skoteldum.

Heildarmagn innflutnings hefur farið stigvaxandi frá árinu 1995 en tók þó kipp í fyrra, eins og áður segir. Innflutningur nam 146.904 kg árið 1995, 183.008 kg árið 1996, 215.812 kg árið 1997, 278.323 kg árið 1998 og 552.169 kg árið 1999. Mikill meirihluti innfluttra skotelda kemur frá Hong Kong og Kína en í fyrra voru flutt inn 202.168 kg af skoteldum frá Hong Kong, 288.755 kg frá Kína og 25.625 kg frá Þýskalandi, sem kemur í þriðja sæti.

Fram kemur í svari dómsmálaráðherra að til að hækka aldursmörk þeirra sem mega kaupa skotelda þurfi að breyta núgildandi vopnalögum, en tillögur um slíkar lagabreytingar hafi ekki komið fram. Í drögum að nýrri reglugerð um skotelda, sem langt er komin í vinnslu, sé hins vegar gert ráð fyrir viðauka þar sem skoteldar eru flokkaðir. Er þar nákvæmlega tilgreint hvaða tegundir skotelda má selja og til hvaða nota.