ÍSLENSKU leikmennirnir í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hafa fengið misjafna dóma í dagblaðinu Verdens Gang það sem af er tímabilinu. Árni Gautur Arason, markvörður Rosenborg, sem gat ekki leikið með liði sínu gegn Haugesund um sl.
ÍSLENSKU leikmennirnir í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hafa fengið misjafna dóma í dagblaðinu Verdens Gang það sem af er tímabilinu. Árni Gautur Arason, markvörður Rosenborg, sem gat ekki leikið með liði sínu gegn Haugesund um sl. helgi, þar sem hann meiddist á hendi í leik gegn Viking á dögunum, hefur staðið sig vel og fengið 5,4 í einkunn að meðaltali. Árni Gautur er í 9. sæti listans yfir bestu leikmenn deildarinnar og efstur á lista yfir markverði. Pétur Marteinsson, leikmaður Stabæk, er í 33. sæti með 5,1 að meðaltali og Rúnar Kristinsson, sem var meðal efstu manna á síðasta leiktímabili, er neðarlega á listanum að þessu sinni eða í 81. sæti. Auðun Helgason,Viking, er rétt fyrir ofan Rúnar og númer 76 á listanum, en Tryggvi Guðmundsson, Tromsö, sem hefur skorað eitt mark og átt tvær sendingar sem hafa gefið mark í sex leikjum, er í 112. sæti. Ríkharður Daðason, sem hefur skorað tvö mörk í sex leikjum fyrir lið sitt, Viking, rekur íslensku lestina á lista VG og er landsliðsmaðurinn í 135. sæti á listanum.