Hildur Óskarsdóttir
Hildur Óskarsdóttir
Bókmenntatextar á Netinu eiga eftir að dafna við hlið hinnar hefðbundnu bókar sem er í pappírsformi, en ekki ganga af henni dauðri er sú niðurstaða sem Hildur Óskarsdóttir kemst að í BA-ritgerð sinni sem fjallar um bókmenntir á Netinu og framtíð bókarinnar á tímum www, irc, SMS, GSM og wap. Hún útskýrði fyrir Kristínu Sigurðardóttur hvernig hún kemst að niðurstöðunni.

"Ég tel að bókin í hefðbundnu formi, þ.e. prentuð á pappír, eigi alltaf eftir að halda velli og að bókmenntir á Netinu dafni henni við hlið." Helsta breytingin sem Hildur sér er sú að hætt verði að gefa út meginþorra uppflettibóka, s.s. orðabækur og matreiðslubækur, á pappír. "Þessi útgáfa á eftir að flytjast yfir á rafrænt form. Fólk mun þá annaðhvort geta keypt uppflettibækur á margmiðlunardiskum eða sótt sér upplýsingar úr bókum á Netinu gegn einhverri greiðslu."

Hildur sér helst tvennt standa í vegi fyrir því að farið verði að gefa út skáldsögur eingöngu á Netinu, annars vegna vegna þess hversu erfitt sé að vernda höfundarrétt netbókmennta og svo vegna þess að fólk muni síður vilja lesa bækur af tölvuskjá en af pappír. "Fagurbókmenntir eiga vart eftir að ná sömu útbreiðslu á Netinu og þær gera í hefðbundnu bókarformi." Til þess að skáld fari í auknum mæli þá leið að gefa út á Netinu þarf að tryggja betur verndun höfundarréttar segir Hildur og telur ólíklegt að reynsla bandaríska rithöfundarins Stephens Kings hvetji kollega hans til bókaútgáfu á Netinu. King varð í vetur fyrstur þekktra rithöfunda til að gefa út á Netinu og bauð fólki að lesa fyrstu 8 bls. í nýjustu bók sinni ókeypis á Netinu og svo var hægt að sækja sér bókina á Netinu gegn greiðslu. Tölvuþrjótum tókst að leysa dulkóðann og þannig fengu allir bókina ókeypis.

Hægt að fá rafbækur í leðurbandi

"Ég held að ráðandi útgáfuform skáldsagna verði áfram í hefðbundnu pappírsformi einfaldlega vegna þess að fólki finnst þægilegra að lesa bókina þannig en af tölvuskjá, fólk þreytist síður í augunum. Í Bandaríkjunum eru nýkomnar á markaðinn svokallaðar rafbækur (e-books), sem eru tæki á stærð við A5-blað. Til þess að nýta þér rafbókina getur þú t.d. skráð þig í bókaklúbb á Netinu og þá sækir þú þér kannski fjórar bækur á mánuði gegn ákveðinni greiðslu. Bókunum er svo hlaðið inn í tækið, þ.e. rafbókina. Í rafbókinni er hægt að fletta upp orðum, stækka letrið, hafa ljós á skjánum svo hægt sé að lesa í myrkri, velja um hvort textinn birtist lóðrétt eða lárétt á skjánum. Til þess að færa sig aðeins nær hefðbundnu bókinni er hægt að kaupa sér rafbók í leðurbandi. Rafbókin hefur ekki náð mjög mikilli útbreiðslu ennþá og á eftir að sanna gildi sitt og er því ekki enn sem komið er farin að ógna hinni hefðbundnu bók."

Eitt að því sem Hildur hefur máli sínu til stuðnings, um að með netvæðingu muni bókalestur ekki hverfa, er það og mjög svipaður málflutningur var rekinn gegn sjónvarpinu þegar það kom til. Hún segir að ótti manna við að fólk hætti að lesa bækur á hefðbundnu formi vegna tilkomu Netsins, minni á ótta manna við að sjónvarpið myndi ganga af bókinni dauðri. "Bókin hefur staðið af sér allar ógnir í fortíðinni og mun gera það áfram. Bókalestur hefur þó minnkað hlutfallslega á Íslandi á síðastliðnum áratugum. Fólk les minna af bókum en meira af stuttum textum, t.d. blöð, tímarit og upplýsingar af Netinu."

Hildur segir að það megi sjá fyrir sér breytingu á bókabúðum sem að einhverju leyti sé hægt að rekja til Netsins. Netbókabúðir hafa þann ótvíræða kost að hægt er að sitja í rólegheitunum heima hjá sér og leita að bók um ákveðið efni í leitarvél á Netinu, í stað þess að standa í biðröð í bókabúð og spyrja um eitthvað sem hugsanlega er svo ekki til. Í nýlegri grein í breska dagblaðinu Sunday Times er talað um að nú sé allt gert til að halda kúnnanum sem lengst inni í bókabúðinni með kaffihúsum inni í bókabúðum, heimsóknum rithöfunda og ýmsum uppákomum, segir Hildur. "Bókabúðir virðast líkjast menningarmiðstöðvum sífellt meira."

Bókin er útópía

Ein kenning sem Hildur rakst á í heimildaöflun sinni fyrir BA-ritgerðina er sú að bókin hafi þegar liðið undir lok því að þær bækur sem eru mest keyptar eru kiljur. "Þær detta í sundur á stuttum tíma, krumpast. Kennismiðurinn, George P. Landow, segir að fólk sem talar líkt og ég geri sé með bók í huga sem aldrei hafi verið til, innbundna, vel lyktandi og þokkafulla. Þetta sé útópía því að bækurnar sem gefnar séu út séu mestmegnis pappírskiljur. Þá sé stór hluti lesefnis í háskólum í formi ljósritaðra hefta. Heftin eru sitt úr hvorri áttinni, með mismunandi letri og blaðsíðutalið allt í rugli." Landow er þeirrar skoðunar að slíkt sé ekki hægt að flokka með bókum.

Mikil verðmæti tapast því fólk geymir ekki tölvupóst

Hildur segir að ýmislegt megi flokka með bókmenntatextum á Netinu, s.s. tölvupóst, fréttavefi og rafrit og svo sé hægt að sækja sér ýmsar bókmenntir á íslensku á Netinu auk þess að fletta upp í orðabókum.

Hún segir að tölvupóst megi flokka sem vissa gerð bókmenntatexta. "Þetta eru bréfaskriftir nútímans og bréfaskriftir eru orðnar gjaldgengar í bókmenntaheiminum í dag sem bókmenntatexti. Það er verið að gefa út bréf sem gengu á milli Kanada og Íslands í byrjun 20. aldarinnar." Hildur segist jafnframt óttast að mikil verðmæti séu að tapast með því að sífellt stærri hluti bréfaskrifta fari fram í tölvupósti. "Mér finnst mjög mikil eftirsjá í hefðbundnum bréfaskriftum því enginn á eftir að vista tölvupóstinn sinn handa sagnfræðingum framtíðarinnar að rannsaka."

Öll verk Jóns Trausta á Netinu

Biblían er til á Netinu, svo og mörg fornritanna, þjóðsögur, ævintýri, kvæði, smásögur, greinasöfn, stjórnarskráin. Einnig er hægt að lesa öll verk Jóns Trausta á Netinu á slóðinni www.its.is/net/. Þetta er því ekki útgáfa á nýjum bókum heldur endurútgáfa.

Þá segir Hildur að hægt sé að flokka fréttavefina mbl.is og visir.is sem vissa gerð bókmenntatexta, eru það fréttavefirnir. Einnig séu til einhver rafrit, sem svipi til tímarita, en þau séu flest ýmist fræðileg eða pólitísk. Svo séu ýmis fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og einstaklingar sem halda úti vefsíðum. Þá sé nýr vefur Borgarbókasafnsins, www.borgarbokasafn.is, eru kynntir 6-7 af okkar helstu rithöfundum. Þar er viðkomandi höfundur kynntur og hægt er að lesa kafla úr bók eftir hann, hlusta á upplestur, horfa á viðtal við rithöfundinn. Svo er til vefur um barnabókmenntir, www.ismennt.is/vefir/barnung/index.htm

Einnig er til vefbókasafn, www.vefbokasafn.is, sem er samstarfsverkefni allra bókasafna á landinu og vísar fólki á vefsíður um ákveðin málefni. Þá er hægt að fletta upp í Gegni og greini Landsbókasafnsins og leita þannig að bók eða grein heima og þegar komið er á safnið veit fólk í hvaða bók eða grein er að finna umfjöllun um málefnið og í hvaða deild safnsins hana er að finna.

Svo eru tvær íslenskar orðabækur á Netinu, Orðabanki íslenskrar málstöðvar, www.ismal.hi.is, og Orðabók Háskólans, www.lexis.hi.is.

Þá eru til ýmsir fréttahópar þar sem fólk skiptist á skoðunum og ýmis dægurmál krufin til mergjar. Svo er irkið til sem er að minnsta kosti sköpunarvettvangur þó svo að kannski sé ekki hægt að tala um bókmenntatexta þar. SMS-skilaboð GSM-símanna eru enn einn vettvangur bókmenntatexta en algengt er að brandarar og ljóð eru send á milli símanna en þau eru oftast á ensku og klámfengin.

Dæmi:

Ég er geimvera

og ég hef

umbreytt

mér í

farsíma -

núna er ég

og fingurinn á þér

að elskast

og ég veit þér líkar það

vegna þess að þú

brosir ... Geimvera:)

Bókin er vinsælasta söluvaran á Netinu

Hildur segir að sér finnist nokkuð spaugilegt að bókin skuli vera vinsælasta söluvaran á Netinu. "Það er menningarleg kaldhæðni að bækur sem hafa verið til frá örófi alda, nokkurn veginn í sömu mynd, skuli vera vinsælasta söluvaran á þessu nútíma fyrirbæri sem Netið er, því flestir sem versla á Netinu eru að kaupa bækur."

Hildur hefur eytt ómældum tíma í netheimum til að skoða sig um, að viða að sér upplýsingum auk þess að leita í hefðbundnum, fræðilega viðurkenndum heimildum, nefnilega bókum. "Það sem kom mér mest á óvart hvað það er til mikið af bókmenntatextum á Netinu. Ég hef kannski harðnað í þeirri afstöðu minni að vilja tryggja framtíð hinnar hefðbundnu bókar. Engu að síður finnst mér Netið mjög spennandi vettvangur fyrir bókmenntatexta."

Hildi þykir mikill missir að bókinni ef hún myndi hverfa "Mér finnst slæmt ef bókin í pappírsformi á eftir að hverfa og með henni bókaverslanir. Ég myndi sakna þessarar nautnar sem það er að elska bækur. Ég sé mig ekki fyrir mér liggjandi uppi í rúmi með litla tölvubók og fletta blaðsíðum með því að ýta á takka. Ég myndi alls ekki vilja sjá það. Það er þessi munaður sem fylgir bókum (í pappírsformi) sem ég myndi ekki vilja missa."