Nasdaq-hlutabréfavísitalan hélt áfram að lækka í gær, annan daginn í röð, núna um 2,3%. Mikið var um að fjárfestar seldu hluti í tæknifyrirtækjum, sem mörg hver eru talin verðlögð of hátt. Sama var upp á teningnum á öðrum mörkuðum í Bandaríkjunum.
Nasdaq-hlutabréfavísitalan hélt áfram að lækka í gær, annan daginn í röð, núna um 2,3%. Mikið var um að fjárfestar seldu hluti í tæknifyrirtækjum, sem mörg hver eru talin verðlögð of hátt. Sama var upp á teningnum á öðrum mörkuðum í Bandaríkjunum. Ekki varð eins mikil lækkun þó á Dow Jones-vísitölunni, eða 0,63%. Hlutabréf lækkuðu í verði á helstu mörkuðum Evrópu í gær og nam lækkun FTSE-vísitölunnar í London 1,49% eða 92,50 stigum í 6.123,8 stig. Í Frankfurt lækkaði DAX-vísitalan um 1,72% eða 127,55 stig í 7.280,54 stig. Lækkunin var hlutfallslega enn meiri í París, en þar lækkaði CAC 40-vísitalan um 144,81 stig í 6.369,61 eða um 2,22%. Í Zürich hækkaði hins vegar SMI-vísitalan um 0,99% eða 4,89 stig í 1.342,22 stig. Á Norðurlöndunum lækkuð hlutabréf alls staðar nema í Ósló þar sem þau hækkuðu um 0,37%. Í Kaupmannahöfn lækkuðu bréf hins vegar um 0,26%, um 1,08% í Stokkhólmi og 1,58% í Helsinki. Gengi hlutabréfa lækkaði heldur á Verðbréfaþingi Íslands í gær. Úrvalsvísitalan lækkaði þannig um 0,35% og er 1.692 stig. Gengi bréfa Þróunarfélagsins lækkaði mest, eða um 10%. Gengi bréfa Skýrr hækkaði hins vegar mest í gær.