Helgi Reynir Árnason fremst til hægri í startinu í flokki vanra.
Helgi Reynir Árnason fremst til hægri í startinu í flokki vanra.
ALÞJÓÐLEGT snjókrossmót var haldið í Ólafsfirði síðasta laugardag. Mikið var um að vera og hátt á annað þúsund manns lögðu leið síðan í bæinn til að horfa á um 20 keppendur þeysast á sleðum á tilbúinni braut sem gerð var daginn áður.

ALÞJÓÐLEGT snjókrossmót var haldið í Ólafsfirði síðasta laugardag. Mikið var um að vera og hátt á annað þúsund manns lögðu leið síðan í bæinn til að horfa á um 20 keppendur þeysast á sleðum á tilbúinni braut sem gerð var daginn áður. Keppendur voru frá Íslandi, Noregi og Rússlandi, en Finnarnir og Svíarnir sem ætluðu að koma hættu við á síðustu stundu. Norðmennirnir tveir, Geir Jöran Sara og Pal Grötte lentu í 1. og 3. sæti, en Alexander Kárason frá Akureyri hafnaði í 2. sæti.

Þetta mót var jafnframt fjórða umferð í snjókross móti og sigraði Alexander Kárason.Úrslitin í snjókrossinu urðu á þá leið að Helgi Reynir Árnason, Ólasfirði sigraði með 157 stig, Alexander Kárason hafnaði í öðru sæti með 151 stig og Stefán Bjarnason í því þriðja með 113 stig.

Allan föstudainn unnu stórvirk tæki við að moka um 5000 tonnum af snjó inn í miðbæ Ólafsfjarðar. Útbúin var sérstök braut sem náði frá bæjartjörn upp á svokallað Gullatún og niður með sundlauginni í áttina að bókasafninu.

Stór hópur manna kom frá Síberíu og gisti í Ólafsfirði. Kom hópurinn með herflugvél til Akureyrar. Chamil Mougallinov stóð sig best af þeim en hann lenti í 4. sæti.

Langur og góður dagur

Mótið tókst í alla staði vel. Engin alvarleg óhöpp áttu sér stað en hins vegr meiddist eini kvenmaðurinn í upphitun og var úr leik. Eftir mótið fóru keppendur og starfsmenn í sund og síðan var grillað við Hótelið. Síðar um kvöldið var heljarinnar ball og skrall, þannig að dagurinn var langur og góður. Forráðamenn mótsins voru í skýjunum með framkvæmdina, veðrið sem lék við bæjarbúa og gesti og einnig undirtektir góðar undirtektir.

Ólafsfirði. Morgunblaðið.

Höf.: Ólafsfirði. Morgunblaðið