ÞAÐ ER stutt síðan tryggingafélögin hækkuðu bifreiðatryggingar og hafa tilkynnt aðra hækkun bifreiðatrygginga á næstunni. Ástæðan fyrir þessum hækkunum er sögð vera mikil aukning bifreiðatjóna og slysabóta.

ÞAÐ ER stutt síðan tryggingafélögin hækkuðu bifreiðatryggingar og hafa tilkynnt aðra hækkun bifreiðatrygginga á næstunni. Ástæðan fyrir þessum hækkunum er sögð vera mikil aukning bifreiðatjóna og slysabóta.

Þeir sem taldir eru valda alvarlegustu tjónunum eru á aldrinum 17-25 ára. Það er því spurning, hvort það teljist eðlilegt, eða verjandi, að þeir sem aka bílum af ábyrgð og öryggi, greiði niður tryggingar fyrir ökuníðinga sem virðast litla þekkingu, eða reynslu, hafa á meðhöndlun bíls og virðast enga virðingu bera fyrir eigin lífi eða annarra.

Tryggingafélögin hafa staðið fyrir fræðslu um öryggismál í umferðinni, sem er þeim til sóma. Það getur þó varla aukið öryggi í umferðinni að tryggingafélögin geri menn ekki ábyrga fyrir líkamlegu tjóni eða dauða, sem þeir valda með óábyrgri notkun bíls og lögbrotum. Menn myndu fremur hugsa sig um áður en þeir tækju mikla áhættu í glannaakstri ef þeir ættu á hættu að sökkva í margra ára skuldafen vegna glannaaksturs. Það er hægt að aka bíl án þess að nota hann sem drápstæki, en þeir sem lítið kunna með bíl að fara, hlusta ekki á aðvaranir, en myndu fremur hræðast skuldafenið og langtíma sviptingu ökuleyfis.

Löggæslan er þó ekki í höndum tryggingafélaga, á henni bera ábyrgð ríkisvald og lögregla og þar er potturinn hreinlega mölbrotinn. Mönnum virðist hreinlega vera í sjálfsvald sett, á hvaða hraða þeir aka og að búa til umferðarreglur á meðan á akstrinum stendur, hver fyrir sig. Lögregla sést ekki nema á ákveðnum fjáröflunardögum, sem virðast vera valdir á þeim tíma, þegar ökumenn eru búnir að trekkja upp hraðann og orðnir óvarir um sig. Það er ljóst að umferðarlagabrot geta fært vissum þjóðfélagsþáttum góðar tekjur, en vonandi eru engin tengsl þar á milli og lélegrar löggæslu.

Undarleg finnst mér sú ákvörðun ríkisvalds að horfa upp á að tugum mannslífa sé fórnað og að þjóðfélagið greiði tugi milljarða í tjónabætur á hverju ári til þess að spara nokkur hundruð milljónir í launakostnaði lögreglumanna. Í því er ekki alveg auðsjáanlegur hagnaður.

Það er talað um að tvöfalda Reykjanesbraut til þess að auka öryggi í umferðinni á brautinni. Þegar gamli Keflavíkurvegurinn var við lýði, töldu menn mikla nauðsyn á því að flýta framkvæmdum við núverandi Keflavíkurveg, til þes að auka öryggi í umferðinni. Staðreyndin varð samt sú að slysum fjölgaði verulega, vegna aukins hraða á brautinni. Með sömu löggæslu og nú er mun hraðinn aukast verulega á nýju brautinni og slysum fjölga stórlega. Ég er samt ekki að mótmæla tvöföldun Reykjanesbrautar, en ef hún á að auka öryggi í umferðinni þarf að margfalda löggæsluna á brautinni og lækka hraðann á henni þegar hálka er, því fjöldi fólks virðist ekki kunna að haga akstri eftir aðstæðum.

Að lokum vil ég benda tryggingafélögunum á, að með hækkun bifreiðatrygginga nú eru þau búin að draga frá ellilífeyrisþegum, sem minnst hafa, margfalda þá upphæð sem þessir aðilar geta fengið í bótahækkun á árinu.

GUÐVARÐUR JÓNSSON,

Hamrabergi 5, Reykjavík.

Frá Guðvarði Jónssyni:

Höf.: Guðvarði Jónssyni