William Heinesen
William Heinesen
Eftir William Heinesen. Edward Fuglö myndskreytti. Gunnar Hoydal ritaði formála. Hannes Sigfússon þýddi. Mál og menning, Reykjavík, 2000.

Vængjað myrkur er heillandi bók. Hún er skemmtilegri í öðrum lestri en fyrsta og alveg jafn spennandi. Lýsingar á staðháttum, hugsunum og atburðum eru skrifaðar af mikilli næmni og list og maður er á svipstundu staddur í öðru landi á öðrum tíma. Önnur aðalhetja sögunnar, Antonía, hrífur lesanda - og hlustendur ef upphátt er lesið - með sér á vit ímyndunaraflsins og upp rifjast "ógnarskepnur" frá manns eigin bernskuárum.

Flest börn sjá forynjur og drauga í myrkrinu og gildir þá einu hvort sem þau fæddust fyrir 100 árum, 40 eða 10. Sendiferð Antoníu og Litla-bróður upp á heiði fyrir ofan Þórshöfn verður að ferðalagi á vit óvissunnar og spennan ber þau ofurliði þegar Antonía getur ekki stillt sig og "munnurinn tekur af henni ráðin" hvað eftir annað. Litli-bróðir er skynsemin uppmáluð en skapar nauðsynlegt mótvægi við systur sína.

Einhver kann að velta því fyrir sér hvort hollt sé að lesa sögur fyrir börn um dularvættir, huldufólk, framliðna og aðrar verur sem halda til í skjóli myrkurs. Hvers vegna ekki, má spyrja á móti og taka síðan undir með höfundi formálans sem segir: "Barnið verður sjálft að sigrast á hinu óþekkta, bæði því sem heillar og því sem ógnar."

Maður verður svo undarlega auðmjúkur þegar maður les fallega, vel skrifaða sögu eins og þessa um sendiferð, sem í grunninn er svo hversdagsleg en verður í meðförum skáldsins að hættulegum spennuleiðangri. Svo er það svo notalegt að lesa sögu sem er vel þýdd eins og þessi. Myndirnar eru líka afbragðsgóðar og skondið er að fylgjast með því hvernig álfurinn hleypur hringinn í kringum ljóskerið þar til hann hverfur í bókarlok.

Sagan um vængjaða myrkrið er nú gefin út í annað sinn á Íslandi, þegar öld er liðin frá fæðingu höfundarins. Áður birtist hún í smásagnasafninu Í töfrabirtu sem Mál og menning gaf út árið 1959. Það kæmi ekki á óvart þótt útlán á þeirri bók ykjust nú þegar barnungir lesendur og foreldrar þeirra eru minntir á færeyska höfundinn William Heinesen. Í það minnsta er forvitni þess sem þetta ritar vakin.

María Hrönn Gunnarsdóttir

Höf.: María Hrönn Gunnarsdóttir