ALÞINGI samþykkti í gær lög um fæðingar- og foreldraorlof en þau gera ráð fyrir sjálfstæðum rétti karla til fæðingarorlofs og stofnun sérstaks fæðingarorlofssjóðs til að standa undir tilheyrandi kostnaði.

ALÞINGI samþykkti í gær lög um fæðingar- og foreldraorlof en þau gera ráð fyrir sjálfstæðum rétti karla til fæðingarorlofs og stofnun sérstaks fæðingarorlofssjóðs til að standa undir tilheyrandi kostnaði. Miklar annir voru á Alþingi í gær og stóð fundur fram á nótt. Alls voru afgreidd 29 lög frá þinginu, auk 7 þingsályktana. Þar má nefna helst lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum um stjórn fiskveiða. Er megintilgangur síðasttöldu löggjafarinnar að fresta um eins árs skeið gildistöku nokkurra ákvæða varðandi veiðar smábáta sem taka áttu gildi 1. september nk.

Alþingi samþykkti einnig lög um veitinga- og gististaði, sem beint er gegn starfsemi nektardansstaða, lög um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði og breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Jafnframt samþykkti þingið lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, breytingar á lögum um vörugjald og lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins.

Þingheimur samþykkti einnig sjö þingsályktanir.