Poul Nyrup Rasmussen
Poul Nyrup Rasmussen
"Best fyrir Danmörku" er slagorð danskra jafnaðarmanna fyrir danskri aðild að Efnahags- og myntsambandi Evrópu, EMU, er Poul Nyrup Rasmussen forsætisráðherra og fleiri frammámenn danskra jafnaðarmanna kynntu á blaðamannafundi í Kaupmannahöfn.

"Best fyrir Danmörku" er slagorð danskra jafnaðarmanna fyrir danskri aðild að Efnahags- og myntsambandi Evrópu, EMU, er Poul Nyrup Rasmussen forsætisráðherra og fleiri frammámenn danskra jafnaðarmanna kynntu á blaðamannafundi í Kaupmannahöfn. Á dögunum samþykkti þing jafnaðarmanna að styðja baráttuna fyrir EMU-aðild. Tillagan var samþykkt með 97% stuðningi, sem endurspeglar ekki stuðning við EMU-aðild Dana í flokknum almennt. Svo glaður var Nyrup yfir úrslitunum að hann táraðist í útsendingu frá þinginu og mátti vart mæla.

Einnig hefur verið kynnt lagafrumvarp um aðild Dana að þátttöku í "sameiginlegri mynt", sem Niels Helveg Petersen utanríkisráðherra mun leggja fram á næstunni. Á grundvelli þeirra laga verður síðan þjóðaratkvæðagreiðslan 28. september haldin.

Höfðað til hugar og hjarta

Gætti Nyrup þess mjög á þinginu að beina orðum sínum til andstæðinga og fara tillitssömum orðum um þá og í ræðu sinni gerði hann grín að tilhneigingu Dana til að vera hræddir við útlendinga og höfðaði bæði til hugar og hjarta er hann ræddi rökin fyrir EMU-aðild.

Í dönskum umræðum um EMU er sjaldnast talað um evruna, heldur um "sameiginlegu myntina". Sama er gert í lagafrumvarpinu um EMU-aðild og þetta orðalag verður einnig á atkvæðaseðlinum 28. september. Orðalagið fer fyrir brjóstið á EMU-andstæðingum, sem álíta það fela í sér jákvætt gildismat á aðildinni.

Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.

Höf.: Kaupmannahöfn. Morgunblaðið