Sigríður Þrúður Þórarinsdóttir og Björg Þorvaldsdóttir afhentu Katrínu Ásgrímsdóttur undirskriftir 999 íbúa á Austurlandi sem mótmæla lokun fæðingardeildarinnar. Með á myndinni eru Unnur Stefánsdóttir, formaður Kvenfélagsins Nönnu í Neskaupstað, og Bergljó
Sigríður Þrúður Þórarinsdóttir og Björg Þorvaldsdóttir afhentu Katrínu Ásgrímsdóttur undirskriftir 999 íbúa á Austurlandi sem mótmæla lokun fæðingardeildarinnar. Með á myndinni eru Unnur Stefánsdóttir, formaður Kvenfélagsins Nönnu í Neskaupstað, og Bergljó
Neskaupstað - Nýlega ákvað stjórn Heilbrigðisstofnunar Austurlands að loka fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Austurlands á fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað frá 19. júní til 1. ágúst nk.
Neskaupstað - Nýlega ákvað stjórn Heilbrigðisstofnunar Austurlands að loka fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Austurlands á fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað frá 19. júní til 1. ágúst nk. Þó að deildinni sé lokað er barnshafandi konum tryggt óskert eftirlit og skurðstofa Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað verður opin til að sinna bráðatilfellum.

Á meðan deildin er lokuð er gert ráð fyrir að barnshafandi konur í fjórðungnum nýti sér fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Egilsstöðum, sem verður opin á þessum tíma, en þar er ekki starfrækt skurðstofa.

Hörð viðbrögð

Hörð viðbrögð hafa verið við þessari ákvörðun, m.a. hafa barnshafandi konur sem eiga von á sér á þessum tíma og starfandi ljósmæður gagnrýnt þessa ákvörðun með greinaskrifum í héraðsfréttablöðum. Þá var á sameiginlegum fundi kvenfélagsins Nönnu og kvennadeildar Slysavarnafélagsins í Neskaupstað ákveðið að senda Katrínu Ásgrímsdóttur, stjórnarformanni Heilbrigðisstofnunar Austurlands, og Einari Rafni Haraldssyni, framkvæmdastjóra stofnunarinnar, bréf þar sem fyrirhugaðri lokun er mótmælt og bent á að með því sé verið að skerða öryggi barnshafandi kvenna á Austurlandi þar sem ekki er sambærileg þjónusta annars staðar í fjórðungnum, þ.e.a.s. fullkomin skurðstofa með sérfræðingum á vakt allan sólarhringinn. Jafnframt var skorað á stjórn Heilbrigðisstofnunarinnar að endurskoða afstöðu sína með öryggi barnshafandi kvenna í fjórðungnum í huga. Í framhaldi var sendur út undirskriftalisti með samhljóma mótmælum og áskorun um að afstaðan yrði endurskoðuð. Undir þann lista skrifuðu 999 einstaklingar á Austurlandi.

Björg Þorvaldsdóttir og Sigríður Þrúður Þórarinsdóttir, verðandi mæður, afhentu Katrínu Ásgrímsdóttur undirskriftalistann á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað. Katrín tók við listanum með þeim orðum að texti áskorunarinnar "sýni ekki hið raunsanna í málinu" en sagðist þó vera sammála því að slík aðgerð væri skerðing á þjónustu. Jafnframt taldi hún þessa aðgerð vera skref aftur á bak en það væri oft þannig að leiðin fram á við væri skrykkjótt. "Rekstur Fjórðungssjúkrahússins hefur verið erfiður og þessi aðgerð er leið til að styrkja þann grunn sem Fjórðungssjúkrahúsið stendur á rekstrarlega svo að hann geti blómstrað faglega. Þetta er árið sem við leitum jafnvægis til að tryggja áframhaldandi uppbyggingu þjónustu Fjórðungssjúkrahússins" sagði Katrín.

Katrín kvaðst myndu kynna undirskriftalistann fyrir stjórn heilbrigðisstofnunar Austurlands á fundi sem haldinn verður innan tíðar þar sem endanlega verður tekið á málinu í ljósi þeirra viðbragða sem Heilbrigðisstofnunin hefur fengið frá íbúum og fagfólki.

Við þetta tækifæri kynnti Sr. Sigurður Ragnarsson, sóknarprestur í Neskaupstað, áform um stofnun Hollvinasamtaka Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað. Samtökunum er ætlað er að vinna á breiðum grunni að því að styrkja stöðu Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað þannig að öll heilsugæsla á Austurlandi eflist. Meðal verkefna slíkra samtaka eru aðgerðir til að styrkja stöðu einstakra deilda innan Fjórðungssjúkrahússins og stuðla að þróun annarra deilda. Við viljum ekki taka skref aftur á bak, við erum vön að stíga skrefið fram á við. Sigurður taldi að slík samtök færu nokkuð létt með að safna fjármunum til að koma í veg fyrir lokun fæðingardeildarinnar.