Sigmar Ólafsson í skipasmíðastöðinni í Guangzhou.
Sigmar Ólafsson í skipasmíðastöðinni í Guangzhou.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tvær skipasmíðastöðvar í Alþýðulýðveldinu eru nú langt komnar með að bæta 16 bátum í íslenska fiskiskipaflotann. Í Guangzhou hefur verkfræðistofan Skipatækni mann sinn Sigmar Ólafsson vélfræðing í eftirliti með nokkrum þeirra. Hafliði Sævarsson fór í heimsókn til hans og spjallaði við hann um smíðar íslenskra skipa þar og lífið á þessum slóðum.

Guangzhou er ævagömul verslunarborg í Alþýðulýðveldinu Kína. Hún er betur þekkt undir nafninu Kanton sem portúgalskir sæfarar gáfu henni. Evrópsk nýlenduveldi hafa um langan tíma átt ítök þarna við bakka Perluár, um klukkutímasiglingu frá árósum Suður-Kínahafs þar sem Hong Kong er. Ein agnarlítil eyja er á fljótinu í miðri borginni. Innan um græn tré fyrir meira en 150 árum hófust þar skipasmíðar fyrir innanlandsmarkað.

Þessi litla eyja heitir Xinzhou og er mikilvæg í hugum allra Kínverja vegna frægs herskóla sem er þar. Þar lærði Chiang Kai-Shek sem seinna braut á bak aftur kínversku keisarafjölskylduna. Útlendingar hafa verið óvelkomnir þar vegna skólans. Íslenskir útgerðarmenn voru fyrstir til að brjóta múrana um Xinzshou. Nú um stundir eru þar sjö íslensk fiskiskip í smíðum. Í Dalian norðar í Kína eru önnur níu.

Aðdragandi

Upphaf samstarfs Kínverja og Íslendinga í skipasmíðum má rekja til annars verkefnis í Austurlöndum. Fyrir nokkrum árum fóru íslenskir togarar og sjómenn til Kamchakaskaga og voru þar við veiðar í Kyrrahafi. Þegar senda átti bátana í slipp bauð kínversk skipasmíðastöð í Dalian, gamall viðskiptavinur Rússanna, ódýrast. Íslendingar fylgdu togurunum og sáu að þangað væri hægt að leita með stærri verkefni.

Menn metast um það hver hafi í raun og veru verið fyrstur til að skoða Kína með nýsmíðar í huga. Sá fyrsti til að slá til var Örn Erlingsson útgerðamaður. "Í mínum huga er Örn frumkvöðull og mikill kjarkmaður vegna þess hann þorði meðan hinir hikuðu," segir Sigmar Ólafsson vélfræðingur, sem hefur eftirlit með byggingu sjötíu metra togara Arnar.

Sigmar kom til Guangzhou fyrir tæpu ári síðan og gegnir þar tvíþættu hlutverki. Á annan veginn sér hann til þess að þeir bátar sem að verkfræðistofan Skipatækni hefur hannað, séu byggðir samkvæmt teikningu og smíðalýsingu. Á hinn veginn er Sigmar tengiliður milli Íslands og Kína og skýrir hugtök jafnt sem þær gæðakröfur sem gerðar eru.

Framleiðsluferlið

Huangpu skipasmíðastöðin er lítil á kínverskan mælikvarða. Þar starfa aðeins um 4000 manns. Samt sem áður getur verksmiðjan framleitt skip á afar hagkvæman máta sem minnir um margt á færibönd bílaverksmiðjanna.

Stálið kemur hrátt og óskorið að eyjunni og er því þá og þegar komið fyrir á lágum lestarvögunum. Eftir járnbrautinni er það dregið á milli mismunandi húsa, sandblásið, grunnað og skorið áður en það nær í aðalbyggingarsalinn. Hann liggur eins og ormur þvert inn á miðja eyna um 400 metra langur. Í fyrsta hlutanum er hann lágur og þar verða skrokkarnir til á hvolfi. Þegar skipin eru færð lengra inn er þeim snúið við og tekið til við að byggja ofan í skrokkinn. Lofthæð hússins hækkar í fjórum hlutum og getur því rýmt skipin er þau vaxa í höndum smiðanna. Seinasti hlutinn er 35 metra hár og 65 metra breiður og þar eru inréttingarnar settar í bátana og þeir málaðir. Á járnbrautinni er þeim síðan rennt út í flotbryggju skammt frá og settir á flot.

Samstarfið við Kínverjana

Sigmar er rólyndismaður og telur það ekki of erfitt að starfa með kínverjum. "Vissulega koma þeir dagar þegar maður rífur í hár sitt. Þegar eitthvað sem ég hef útskýrt 25 sinnum er enn gert vitlaust velti ég því fyrir mér af hverju ég sé hér." Hins vegar lýsir hann því hvernig hann eigi oft í erfiðleikum með að koma ströngum gæðakröfum frá Íslandi á framfæri. T.d. eru kínverskir smiðir vanir að innrétta einfaldar og íburðarlitlar káetur. Þeim bregður við að sjá myndir úr nýjum íslenskum togurum sem líta út eins og lúxushótel.

Samskipti geta gengið stirðlega. Sigmar kann ensku en varla orð í kínversku. Flestir í skipasmíðastöðinni tala aðeins síðarnefnda tungumálið. "Allt gengur best þegar ég tala íslensku og bæti við handapati. Þeir svara mér óhikað á kínversku," segir Sigmar sem lýsir samverkamönnum sínum sem þægilegum og ljúfum.

"Þegar ég bið um eitthvað eru þeir alltaf jákvæðir. Ef þeir þekkja ekki það sem ég á við þá spyrja þeir hvað það sé sem mig vantar, vissir um að þeir geti framkvæmt það. Í Huangpu stöðinni er einungis vikið frá smíðalýsingu, þegar allir eru sammála um að hún sé röng og það gerist sjaldan."

Þó að samstarfið gangi vel á verklega sviðinu hefur Sigmari gengið illa að kynnast skipamiðunum betur persónulega. Þeir setja útlendinga á ákveðinn stall fyrir ofan sig. Framkoma þeirra er hlutlaus í óttablandinni lotningu. Menningarþröskuldurinn sem tungumálið og aðrar ástæður valda er svo hár að Sigmar getur ekki kynnst skrautlegu mönnunum í stöðinni.

Lífið í Kanton

Sigmar flutti til Alþýðulýðveldisins ásamt konu sinni Pálínu Pálsdóttur og yngstu dóttur Signýju Pálu. Þeim líkar báðum vel. Signý er í námi í alþjóðlegum grunnskóla og hefur líkað það umhverfi vel.

Áður en Sigmar fór til Guangzhou vissi hann að borgin væri ein sú mest vaxandi í heimi bæði efnahagslega og með tilliti til fólksfjölda. Þrátt fyrir tæknibyltinguna átti hann líka von á að sjá hina frægu stráhatta. Hann taldi sig vera Kína vel kunnugur.

Kanton hefur reynst vera það sem Sigmar átti von á og gott betur. "Að verða vitni að breytingunum hér er magnað. Útsýnið út um stofuglugga fjölskyldunnar hefur á rétt rúmu hálfu ári breyst úr öskuhaugum í skýjakljúfa við rætur hverra iðar hefðbundið kínverskt mannlíf."

Í borginni er bílaómenning. Sigmar hættir sér út í hana á kínverskri bifreið á hverjum degi þegar hann heldur til vinnu sinnar. Á þeim hálftíma akstri fer hann um ríkmannaleg íbúðahverfi upp á hringveg sem byggður er á stultum tuttugu metrum yfir húsþökunum. Þegar komið er niður er af honum taka við fátækrahverfi allt niður að ofurlítill höfn þaðan sem ferja flytur bílinn út í eyna. Sitjandi við hlið Sigmars á þessum stutta túr er hægt að verða vitni að lífinu í hinni litríku borg.

Sigmar segir þó að þetta sé aðeins brot af raunveruleikanum: "Þegar ég kom til Kína hélt ég að ég vissi mikið um þennan stað en það litla sem ég hef lært hefur bara sýnt mér hvað ég veit lítið."

Erfiðleikar

Sigmar er hógvær, aðspurður hvort að ekki hafi verið erfitt að flytja með fjölskylduna alla þessa vegalengd. Sigmar og kona hans hafa áður búið erlendis, í Danmörku, Portúgal, Póllandi og Nýfundnalandi við nám og störf. "Í raun var erfiðara fyrir okkur að flytja frá Reykjavík til Bakkafjarðar heldur en frá Reykjavík til Kína," segir hann og hlær.

Sigmari rennur til rifja að búa á stað þar sem oft er erfitt að vita hvað er að gerast í kring. Í landinu er ríkistjórn sem þarf ekki að svara neinum og gerir allt eftir sínu höfði, hvort sem fólki líkar það betur eða verr. "Kínverjar eru þannig að þeir skipta sér yfirleitt ekki af öðru en því sem kemur þeim beint við. Oft er þeim óhollt að gera öðruvísi.

Heimþrá getur einnig kviknað þegar gallar samfélagsins í Guangzhou ná til Íslendinganna. "Bilið milli sárrar fátæktar og yfirgengilegs ríkidæmis hér er skelfilegt. Gróska efnahagsins í borginni er gífurleg. Eins og oft vill verða á stöðum þar sem það gerist á skömmum tíma safnast auðæfin á hendur fárra og aðrir verða eftir. Þetta vandamál er langtum minna heima á Íslandi þar sem áhyggjur af snjó og öðru viðlíka eru léttbærari.

Gæði

Þrátt fyrir að enn hafi ekki kínverskt skip bæst í virkan flota Íslendinga þá er framkvæmdunum bölvað. Það viðhorf að kínverskt sé rusl þekkist um allan vestrænan heim. Sigmar veit jafnvel um gæði framleiðslunnar í Kína og að hann verður að vera varfærinn í orðum þegar hann lýsir henni. Seinast þegar hann lofaði sér í viðtal um málið birti ... blaðið Fishing News grein undir fyrirsögn innan gæsalappa: "Gæði eru ekki vandamál."

Sigmar hristir hausinn yfir flestum gagnrýnisröddum. Skipasmíði er fag með strangar alþjóðlegar reglugerðir. T.d. eru nokkrar skrifstofur sem hafa sérstakt eftirlit með stálinu sem fer í skipin og koma menn frá þeim reglulega og athuga gæði vinnunnar.

"Handverkið hingað til hefur verið til fyrirmyndar," segir Sigmar sem hefur vakandi auga með framleiðslunni. "Ég man eftir því að áður fyrr vildi enginn sjá neitt frá Hong Kong og þar áður var það Japan."

Ekki er langt um liðið síðan Úreldingarsjóðurinn var afnuminn þannig að íslenskum útgerðarmönnum gafst meira frelsi til skipasmíða. Sigmar telur að bátarnir sem er verið að smíða í Kína séu endurnýjun frekar heldur en viðbót við flotann. "Úreldingarsjóðurinn gerði það að verkum að næstum ónothæfir bátar, sumir manndrápskollur sem búið var að skera að framan og aftan, voru mjög verðmætir."

Vegna skipasmíðanna í Kína er ofurendurnýjun í vændum í íslenska fiskiskipaflotanum. Þessa stundina eru 16 bátar í smíðum og von á frekari framkvæmdum. "Kvótinn heima er takmarkaður svo brátt verða allir sáttir við bátana sína."

Sigmar telur að líklegt að allar nýsmíðar íslenskra báta muni fara fram í Kína ánæstu árum. Hann segir að að sumu leyti séu Kínverjar ákjósanlegri til þessara verka heldur en aðrir sem hann hefur unnið með: "Menn hér segja aldrei að eitthvað sé ekki hægt. Þeir neita aldrei heldur vilja vita hvernig eigi að fara að."

Skipin í Kína:

71 m nótaskip fyrir Keflavík

29 m togari fyrir Reykjavík

29 m netabátur fyrir Keflavík

38 m kúfiskveiðibátur fyrir

Þórshöfn

42 m túnfiskveiðibátur

og togari fyrir Vestmannaeyjar

51 m túnfiskveiðibátur fyrir

Vestmannaeyjar

29 m togari fyrir Reykjavík

21 m systurskip eru í

smíðum í Dalian (9 skip).