HVÍTUR aðstoðarráðherra í stjórn Kenýa sagði í gær að hundruð fjölskyldna hefðu ráðist inn á tvo búgarða og lagt þá undir sig en stjórnin sagði að málið tengdist á engan hátt jarðanámi blökkumanna í Zimbabwe.

HVÍTUR aðstoðarráðherra í stjórn Kenýa sagði í gær að hundruð fjölskyldna hefðu ráðist inn á tvo búgarða og lagt þá undir sig en stjórnin sagði að málið tengdist á engan hátt jarðanámi blökkumanna í Zimbabwe.

Basil Criticos, sem fer með vegagerð og opinberar framkvæmdir í stjórninni, sagði að um 300 fjölskyldur hefðu ráðist inn á búgarð hans og gengið í skrokk á öryggisvörðum hans. Um 200 fjölskyldur hefðu lagt annan búgarð undir sig.

Criticos sagði að landtökumennirnir hefðu kveikt í sísalliljuökrum búgarðanna og hafist handa við að skipta þeim niður og rækta þá. Criticos er í stjórnarflokki landsins og eini hvíti maðurinn sem á sæti á þinginu.

Áður höfðu tveir róttækir þingmenn skorað á fátæka blökkumenn að fara að dæmi landtökumanna í Zimbabwe sem hafa lagt hundruð bújarða hvítra manna undir sig frá því í febrúar. Talsmaður ríkisstjórnar Kenýa sagði þó í gær jarðanámið tengjast á engan hátt landtökumálinu í Zimbabwe og sagði að deilt hefði verið um búgarðana tvo frá því í fyrra og hefði deilunni verið skotið til dómstóla.

Eftir að Kenýa fékk sjálfstæði 1963 afsöluðu flestir hvítu bændanna bújörðum sínum en margar stærstu jarðanna eru enn í eigu hvítra manna.

Naíróbí. Reuters.