Tveir sakborninganna leiddir í dómsal. Aðalmeðferð málsins verður ákveðin við fyrirtöku þess á föstudag.
Tveir sakborninganna leiddir í dómsal. Aðalmeðferð málsins verður ákveðin við fyrirtöku þess á föstudag.
JÁTNINGAR nokkurra aðalsakborninga í stóra fíkniefnamálinu svonefnda á innflutningi á um 100 kg af fíkniefnum, einkum hassi frá Danmörku, komu fram við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

JÁTNINGAR nokkurra aðalsakborninga í stóra fíkniefnamálinu svonefnda á innflutningi á um 100 kg af fíkniefnum, einkum hassi frá Danmörku, komu fram við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Ákært er fyrir innflutning og sölu á þriðja hundrað kg af fíkniefnum frá Danmörku, Hollandi og Bandaríkjunum á árunum 1997-1999. Langmestur hluti efnanna er hass en einnig er ákært fyrir innflutning á nokkrum kg af kókaíni og amfetamíni og um 6.000 e-töflum, sem ákærðu játuðu á sig að takmörkuðu leyti.

Sá sakborninganna sem ákærður er fyrir vörslu fíkniefnanna, sem lögregla lagði hald á við húsleit hjá honum í september, þ.e. 4 kg af amfetamíni 17 kg af hassi og 5,445 e-töflur auk 678 g af kókaíni auk fleiri efna, sagðist fyrir dómi hafa vitað um fíkniefnin en ekki í hversu miklu magni þau hefðu verið geymd.

Flutti inn allt að 65 kg af hassi

Átján sakborningar af nítján, sem sæta ákæru ríkissakskóknara, voru leiddir fyrir dómara og leyft að tjá sig um sakarefnin. Ákærðu í málinu bera mismikla sök og játaði einn hinna ákærðu, sem hvað þyngsta sök ber, að hafa flutt inn allt að 65 kg af hassi á hálfu öðru ári. Honum er gefið að sök að hafa flutt inn rúm 170 kg af hassi en gekkst við hluta þess magns og mótmælti kröfum ákæruvalds um upptöku 114 milljóna króna sem svara til ávinnings af brotum hans og annars meðákærðs innflytjanda. Maðurinn var starfsmaður Samskipa hf. í Danmörku og gefið að sök að hafa notfært sér aðstöðu sína hjá fyrirtækinu og falið fíkniefnin um borð í skipum félagsins og flutt þau þannig til landsins.

Tveir liðlega tvítugir starfsmenn skipafélagsins á Íslandi, sem ákærðir eru fyrir að fjarlægja fíkniefnasendingar úr gámum skipanna, koma þeim til kaupenda, og taka við greiðslu fyrir þau sögðust fyrir dómi ekki hafa vitað hversu mikið magn fíkniefna um ræddi. Þeir eru ákærðir fyrir að taka við milljónum króna sem afrakstri fíkniefnasölu og ráðstafa þeim samkvæmt fyrirmælum innflytjenda. Viðurkenndi annar þeirra þær sakir án þess að vita hversu háar fjárhæðir um ræddi en samkvæmt ákæru voru það 8,9 milljónir króna. Hinn sagðist hafa tekið við 11,8 milljónum króna en sagðist ekki hafa vitað að peningarnir væru afrakstur fíkniefnasölu.

Krafist upptöku 125 milljóna króna hjá einum aðila

Annar innflytjandi sem ákærður er fyrir aðild sína að fíkniefnainnflutningnum viðurkenndi að hafa flutt inn 13 kg af hassi en hann er ákærður fyrir innflutning á um 160 kg á hassi.

Meintur söluaðili fíkniefnanna, sem ákærður er fyrir að kaupa rúmlega 100 kg af hassi af innflytjendunum, viðurkenndi að hafa keypt allt að 30 kg af hassi og komið í sölu hérlendis auk 10 kg af hassi og 1,3 kg af marihúana frá Hollandi. Ákæruvaldið krefst upptöku 125 milljóna króna hjá ákærða sem svarar til ávinnings af brotum hans samkvæmt ákæru.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari fer með málið sem verður tekið fyrir í dómi á föstudag þar sem ákveðið verður hvenær aðalmeðferð þess fer fram.