EKKI þarf að minna lesendur á að mikil umræða hefur verið um hvers kyns erfðafræðirannsóknir og mál sem þeim tengjast svo sem um persónuvernd og fleira.

EKKI þarf að minna lesendur á að mikil umræða hefur verið um hvers kyns erfðafræðirannsóknir og mál sem þeim tengjast svo sem um persónuvernd og fleira. Í síðasta hefti Læknablaðsins gerir Reynir Arngrímsson krabbameinsrannsóknir og klíníska erfðamengisfræði að umtalsefni. Fyrir nokkru var haldin ráðstefna Samtaka um krabbameinsrannsóknir og segir hann það gleðiefni hversu víðtækar þær eru og telur þær standa á sterkum grunni. Undir lok greinarinnar segir hann að með nýjum rannsóknaraðferðum sé hægt að flokka sjúkdóma á nýjan hátt og muni aðferðir sem skimi fyrir arfbreytileika í mörg þúsund genum samstundis hafa áhrif á val meðferðar. Síðan segir læknirinn:

"Þannig má fá betri yfirsýn yfir hvers vegna sjúklingar svara ekki hefðbundinni meðferð og hvers vegna dánartíðni getur verið mismunandi. Þannig opnast nýir möguleikar á að skilja grundvallarbreytingar sem leiða til sjúkdómsástands, sem aftur leiðir til þróunar meðferðarúrræða sem byggðar eru á slíkri þekkingu. Fastlega má búast við að í framtíðinni muni meðferð sjúklings taka mið af erfðafræðilegum breytingum sem skilgreina áður óþekkta undirflokka sjúkdóma eins og ofangreint dæmi sýnir. Vonandi bera íslenskir vísindamenn á krabbameinssviði gæfu til að leggja sitt af mörkum í þessum efnum með skynsamlegri samvinnu og samnýtingu rannsóknartækifæra."

Ástæða er til að taka undir þessi orð læknisins og fagna þeim orðum hans að rannsóknir á þessum sviðum standi vel hérlendis. Allur almenningur veit það svo langt sem hann hefur tök á að fylgjast með og kann að meta slíkt starf. Eftir sem áður hljóta menn að vilja fara með gát og að öllum lögum og reglum þegar viðkvæm mál eru annars vegar.

ÚR ÞVÍ að minnst er á Læknablaðið er ástæða til að vekja athygli á spurningum Vilhjálms Rafnssonar í grein í sama blaði. Þar ræðir hann um hættu af óbeinum reykingum og segir meðal annars: "Tóbaksreykingar eru því í raun hættulegri heilsunni en þessar gömlu rannsóknir gátu sýnt fram á vegna þess að ekki var tekið tillit til óbeinna reykinga. Skaðvænleg áhrif óbeinna reykinga voru ekki þekkt á þeim tíma. Getur verið að tóbaksiðnaðurinn sé að reyna að leiða athygli okkar frá þessum óþægilegu staðreyndum með háværri og ósanngjarnri gagnrýni á rannsóknir á óbeinum reykingum?"

LEIÐRÉTTA ber það sem Víkverja skjöplaðist á í fyrri viku þegar hann ruglaði saman tveimur mönnum sem báðir heita Guðmundur. Báðir hafa þeir unnið að málum fíkniefnaneytenda, annar fyrir Virkið og er það Mummi í Mótorsmiðjunni og hinn fyrir Byrgið og það er Guðmundur Jónsson. Hafði Víkverji þakkað Mumma í Mótorsmiðjunni fyrir þjóðþrifastörf Guðmundar og hans manna í Byrginu og er beðist velvirðingar á því. Báðir hafa þeir lagt fram mikilvægan skerf í þessum erfiða málaflokki og báðir eiga þeir heiður skilinn fyrir þau störf.