ÚTBOÐ á hlutafé í Húsasmiðjunni hf. fer fram 15.-19. maí næstkomandi og verða þá seld 30% af áður útgefnu hlutafé í fyrirtækinu. Ákveðið hefur verið að skrá Húsasmiðjuna hf.

ÚTBOÐ á hlutafé í Húsasmiðjunni hf. fer fram 15.-19. maí næstkomandi og verða þá seld 30% af áður útgefnu hlutafé í fyrirtækinu. Ákveðið hefur verið að skrá Húsasmiðjuna hf. á Aðallista Verðbréfaþings Íslands og fer skráningin fram að loknu hlutafjárútboðinu. Sala hlutafjárins verður tvískipt. 15% hlutafjár verða boðin á föstu gengi í almennri áskriftarsölu frá 15.-18. maí og 15% verða boðin í tilboðssölu frá 15.-19. maí. Í tilboðssölunni verður hverjum tilboðsgjafa heimilt að gera tilboð í allt að 5% hlutafjár.

Íslandsbanki-Fyrirtæki og markaðir er umsjónaraðili hlutafjárútboðsins og skráningarinnar. F&M er jafnframt stærsti einstaki seljandinn í útboðinu, en F&M keypti fyrr á árinu 20% í Húsasmiðjunni og selur nú rúmlega 3/4 hluta eignar sinnar í fyrirtækinu.

Gert ráð fyrir 28% veltuaukningu á þessu ári

Húsasmiðjan er leiðandi verslunar- og þjónustufyrirtæki á sviði byggingar- og heimilisvöru. Velta og hagnaður fyrirtækisins hefur aukist umtalsvert undanfarin ár og er gert ráð fyrir áframhaldandi vexti á þessu ári. Velta fyrirtækisins nam 5,9 milljörðum króna árið 1999 og hafði vaxið um 31% frá árinu 1998 og um 68% frá árinu 1997. Hagnaður Húsasmiðjunnar árið 1999 var 305 milljónir króna eftir skatta og hafði hann aukist um 71% frá fyrra ári. Á þessu ári er gert ráð fyrir 28% veltuaukningu og er áætluð velta 7,5 milljarðar. Hagnaður yfirstandandi árs er áætlaður 417 milljónir krónaeftir skatta. Nýlokið er hlutafjárútboði meðal fastráðinna starfsmanna Húsasmiðjunnar og fjölgaði hluthöfum um 318. Hluthafar í Húsasmiðjunni eru nú 334.

Hjá Húsasmiðjunni starfa um 500 manns, og verslanir fyrirtækisins eru tólf talsins um allt land. Einnig rekur Húsasmiðjan rafiðnaðarvöruverslanir í nafni Ískrafts í Kópavogi og á Akureyri og sérhæfða þjónustuverslun fyrir innréttingamarkaðinn í nafni H.G. Guðjónssonar. Í fréttatilkynningu kemur fram að að meðaltali átti hver Íslendingur fjórum til fimm sinnum viðskipti við fyrirtækið á árinu 1999. Auk þess lætur nærri að fjórða hver fjölskylda í landinu sé með viðskiptareikning hjá Húsasmiðjunni.