[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FYRSTI sumarsmellurinn í Bandaríkjunum er myndin Gladiator sem frumsýnd var fyrir síðustu helgi og var langvinsælasta myndin í kvikmyndahúsum þar í landi um helgina.

FYRSTI sumarsmellurinn í Bandaríkjunum er myndin Gladiator sem frumsýnd var fyrir síðustu helgi og var langvinsælasta myndin í kvikmyndahúsum þar í landi um helgina. Í myndinni er áhorfandinn færður aftur til Rómaveldis og er myndin sú síðasta sem Oliver Reed heitinn lék í. Myndin halaði inn meiri peninga en næstu sex myndir á kvikmyndalistanum samanlagt. Í myndinni leikur Russel Crowe rómverskan herforingja sem hefur sigrað ófáar orrusturnar. Keisarinn (Richard Harris) liggur á dánarbeði og vill að herforinginn sigursæli verði sinn eftirmaður en sá sem erfa skal krúnuna (Joaquin Phoenix) er afbrýðisamur og fyrirskipar að fjölskylda herforingjans sé drepin. Herforinginn sleppur naumlega sjálfur og leitar hefnda og snýr aftur sem skylmingaþræll (gladiator). Myndin hefur fengið glimrandi dóma vestanhafs og er þess vænst að hún verði ein vinsælasta kvikmynd sumarsins.

Ein önnur ný mynd er á bandaríska kvikmyndalistanum, I Dreamed of Africa með Kim Basinger í aðalhlutverki. Myndin féll algjörlega í skuggann á Gladiator og náði aðeins að komast í 9. sæti listans. Mig dreymdi um Afríku er fyrsta mynd Basinger síðan hún lék í L.A. Confidential árið 1997.