Kaupþingsmenn í Færeyjum fyrir framan höfuðstöðvar Kaupthing Föröya. Frá vinstri: Bjarne Olsen sparisjóðsstjóri, Marner Jacobsen sparisjóðsstjóri og varaformaður nýja félagsins, Peter Holm forstjóri Kaupthing Föroya, Sigurður Einarsson forstjóri Kaupþings
Kaupþingsmenn í Færeyjum fyrir framan höfuðstöðvar Kaupthing Föröya. Frá vinstri: Bjarne Olsen sparisjóðsstjóri, Marner Jacobsen sparisjóðsstjóri og varaformaður nýja félagsins, Peter Holm forstjóri Kaupthing Föroya, Sigurður Einarsson forstjóri Kaupþings
Kaupþing og Sparisjóður Færeyja hafa stofnað fyrirtækið Kaupthing Föroya Virðisbrævameklarafelag P/F, sem einnig er kallað Kaupthing Föroyar.

Kaupþing og Sparisjóður Færeyja hafa stofnað fyrirtækið Kaupthing Föroya Virðisbrævameklarafelag P/F, sem einnig er kallað Kaupthing Föroyar. Skrifstofa Kaupþings í Færeyjum, sem stofnuð var í byrjun mars, gengur inn í hið nýja félag og forstöðumaður hennar, Peter Holm, hefur verið ráðinn forstjóri félagsins. Kaupþing á 51% í hinu nýju félagi en Sparisjóður Færeyja 49% og er eigið fé félagsins um 120 milljónir íslenskra króna. Ekkert annað fyrirtæki sérhæfir sig á verðbréfasviði í Færeyjum og segir Sigurður Einarsson, forstjóri Kaupþings og stjórnarformaður í nýja félaginu, að markaðsaðstæður séu svipaðar og voru hér á landi fyrir örfáum árum og möguleikar séu umtalsverðir. Sigurður segir að í Færeyjum hafi menn mest fjárfest í skuldabréfum hingað til og sér hann fyrir sér að svipuð þróun geti átt sér stað og á Íslandi. Menn muni færa sig yfir í hlutabréf og önnur sparnaðarform og hyggist fyrirtækið verða þátttakandi í því að bjóða upp á fjölbreyttari sparnaðarform en tíðkast hefur í Færeyjum.

Sigurður bendir á að þar sem danska krónan sé gjaldmiðillinn í Færeyjum og fyrirtækið sé fyrst og fremst færeyskt verði horft töluvert til Danmerkur með fjárfestingar enda séu Færeyingar vanir því. Hins vegar verði einnig boðið upp á íslensk bréf en reynslan muni segja til um hvernig þeim verður tekið.