Á ráðstefnunni kom fram að í raun skiluðu fáir samrunar þeim árangri sem að væri stefnt.
Á ráðstefnunni kom fram að í raun skiluðu fáir samrunar þeim árangri sem að væri stefnt.
"HIN hraða þróun í internetinu knýr okkur til enn hraðari aðgerða í útibúaneti heldur en áður," sagði Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka Íslands, á ráðstefnu Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga síðastliðinn föstudag.

"HIN hraða þróun í internetinu knýr okkur til enn hraðari aðgerða í útibúaneti heldur en áður," sagði Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka Íslands, á ráðstefnu Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga síðastliðinn föstudag. Sagði Halldór að mælingar bankans sýndu að 60% af viðskiptavinum bankans mundu nýta Netið sem sína megin samskiptaleið við bankann árið 2003. Þetta þýddi að bankinn þyrfti að fækka verulega í útibúum sínum á þessu sama tímabili. Þetta knýr að sögn Halldórs á um samruna banka. Telur hann að af þessari ástæðu sé sameining viðskiptabanka það sem skilað geti mestu hagræði, meira hagræði en sameining viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Við sameiningu viðskiptabanka verði verulegt kostnaðarhagræði, en í sameiningu viðskiptabanka og fjárfestingarbanka sé aðallega um að ræða tiltekið hagræði vegna aukinna tekna sem þó sé erfitt að meta.

Stærri fyrirtæki kalla á stærri banka

Að mati Halldórs er fækkun útibúa banka þó ekki eina ástæða þess að þörf er á sameiningu þeirra. Stærri bankar geti betur þjónað millistórum og stórum fyrirtækjum en vegna reglna til að draga úr áhættu séu því takmörk sett hversu hátt hlutfall viðskipta bankans geti verið við einstakan viðskiptavin. Af þessum sökum verði banki að stækka um leið og önnur fyrirtæki til að geta haldið áfram að veita þeim þá fjármálaþjónustu sem þau þarfnast. Auk þessa sé samhengi á milli stærðar banka og lánshæfismats þeirra og því fái stærri banki hagstæðari lán en minni banki, jafnvel þó allar kennitölur séu eins.

Svigrúm verði veitt til sameininga

Fram kom í máli Halldórs að mjög mikil fylgni væri milli samþjöppunar á bankamarkaði og arðsemi banka. Þar sem samþjöppun hefði orðið mest hefði hið sama átt við um arðsemina. Áhyggjur hér á landi af samþjöppun fjármálafyrirtækja eru nokkru meiri en hann hafði búist við og sagði hann að í smærri löndum í Evrópu hefðu ekki verið gerðar athugasemdir við mikla samþjöppun, m.a. vegna þess að stærð banka væri mikilvæg í alþjóðlegri samkeppni. Vonast hann til að samkeppnisyfirvöld hér á landi muni komast að sömu niðurstöðu og að menn fái að nýta hagræðingarmöguleika en samkeppnissjónarmið muni verða metin í ljósi Evrópuþróunar.

Sameina fyrst, selja svo

Aðspurður um samrunaþróun á bankamarkaði hér, sérstaklega með tilliti til stærsta eignaraðilans í Landsbanka og Búnaðarbanka, þ.e. ríkisins, svaraði Halldór því til, að almennt talað væri hagstæðara að tryggja fyrst samruna og selja að honum loknum. Án þess að hann vildi tala um tiltekin fyrirtæki sagði hann að almennt fengist hærra verð fyrir eignina með þessum hætti, því samrunavæntingar komi aldrei fyllilega inn í verðið. Reynslan segi að það sé ekki fyrr en samruninn sé endanlega ákveðinn sem hann komi að fullu inn í verðið.

Hámarki kvótahlutdeildar þyrfti að lyfta

Aðspurður um samruna í sjávarútvegi sagði hann þá reglu að takmarka stærð útgerðarfyrirtækja við 10% hlutdeild í ákveðnum tegundum gæti hamlað þróun í þeirri grein. Þessum mörkum þyrfti að lyfta nokkuð, a.m.k. ef þróunin í fjármálageiranum ætti þar að vera fordæmi varðandi sjávarútveginn.

Halldór benti þó á að í sjávarútvegi, eins og í bankastarfsemi, væru möguleikar á nánu samstarfi og samvinnu fyrirtækja án beins eignarhalds og þannig gætu fyrirtæki í sjávarútvegi náð hagræðingu umfram það sem ella væri mögulegt innan þessara 10% marka.

Blendin reynsla af tryggingasamvinnu

Varðandi árangurinn af samþættingu banka- og tryggingastarfsemi sagði Halldór að menn væru ekki sammála um hverju hún hefði skilað. Reynslan sé blendin hjá Landsbankanum. Hún væri mjög jákvæð í líftryggingasamstarfinu en síður hafi tekist að finna samnefnara í banka- og vátryggingastarfsemi. Bankar geti selt vátryggingar en þeir eigi ekki að afgreiða vandamál sem upp koma. Það fari ekki saman að fá tjónþola inn í banka til að afgreiða hann vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir og veita honum fjármálaþjónustu á sama stað. Þetta þýði að alltaf verði erfitt að samþætta vátryggingar og bankastarfsemi. Sem fyrr segir falli líftryggingar og langtímasparnaður afar vel saman.

Jóhann Magnússon framkvæmdastjóri FBA ráðgjafar hf. ræddi á ráðstefnunni um þátt fjármálafyrirtækja í samrunaferli fyrirtækja. Sagði hann að skoða yrði sameiningu í tengslum við þróun fjármálamarkaðar. Umhverfið væri orðið fjölbreytilegra og alþjóðlegra sem þýddi að það væri flóknara og að mistök væru dýrari en áður. Hann gerir ráð fyrir að samrunar og yfirtökur fari vaxandi hér á landi, en því séu þó takmörk sett vegna smæðar markaðarins. Sagði hann fjármálafyrirtæki hafa tekið miklum breytingum hér á landi, áður hefðu þau verið fjármálastofnanir og ekki sýnt frumkvæði eða tekið mikinn þátt í eignarhaldstengdum breytingum. Nú væri ekki lengur hægt að tala um stofnanir, réttara væri að tala um fyrirtæki. Þau tækju nú meira beinan þátt í samrunum og veittu ráðgjöf eða leiddu jafnvel breytingarferli, tækju þátt í endurskipulagningu, fjármögnun, sæju um skráningu á markað og tækju stöður í gegnum eignarhluti.

Jóhann sagði kröfur um sérhæfingu vera að aukast og að fjármálafyrirtæki yrðu í auknum mæli að líta á sig sem alþjóðleg þekkingarfyrirtæki á sviði fjármála.

Fáir samrunar skila árangri

Spurningin um það hvort sameiningar hafi staðist væntingar var einnig til umræðu á ráðstefnunni. Jónatan S. Svavarsson rekstrarráðgjafi hjá PricewaterhouseCoopers fjallaði um þetta og sagði að í raun skiluðu fáir samrunar því sem að væri stefnt. Sagði hann að samrunakostnaður skilaði sér aðeins í 23% tilvika til baka innan 10 ára, en þar sem vel gengi skilaði samruni verulegum árangri. Til að auka líkur á árangursríkum samruna þyrfti að hafa nokkur atriði í huga. Verðmat fyrirtækja þyrfti að vera raunhæft, lögfræðileg og skattaleg atriði á hreinu, framtíðarsýn skýr, skipulag, áætlanir og kynning til hagsmunaaðila í lagi og síðast en ekki síst þyrfti eftirfylgni og getu til að bregðast við breyttum forsendum. Þetta snerist um stjórnun breytinga því þær væru örar og áríðandi væri að geta brugðist hratt við. Hraði væri mikilvægur í samruna og nauðsynlegt væri að ná stöðugleika sem fyrst.

Markmið sameiningar verður að sögn Jónatans að vera aukning verðmæta, annars væri engin ástæða til sameiningar.