ÓVÍST er hvort tekst að stofna þjóðgarð á Vatnajökli á yfirstandandi ári eins og stefnt hefur verið að þar sem í ljós er komið að óvissa er um eignarhald á og við jökulsvæðið.

ÓVÍST er hvort tekst að stofna þjóðgarð á Vatnajökli á yfirstandandi ári eins og stefnt hefur verið að þar sem í ljós er komið að óvissa er um eignarhald á og við jökulsvæðið.

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra lagði fram á Alþingi í gær skýrslu starfshóps sem unnið hefur að undirbúningi að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs í samræmi við ályktun sem Alþingi samþykkti í mars 1999.

Siv segir að um mjög spennandi verkefni sé að ræða en í ljós hafi komið að verkefnið sé flókið vegna þess að eignarhald á jöklinum sé óljóst. Ekki sé ljóst á þessari stundu hvort jökullinn sé allur í ríkiseigu eða hvort einhverjar jarðir geta gert tilkall til hluta úr jöklinum. "Óbyggðanefnd þarf að skera úr um eignarréttindi þarna eins og víðar á hálendinu. Málið verður því óljóst þangað til óbyggðanefnd hefur fjallað um eignarhaldið á þessu svæði," sagði ráðherra.

Yfir 50 jarðir eiga land að Vatnajökli

Í skýrslu starfshópsins kemur fram að athugun hafi leitt í ljós að yfir 50 jarðir eiga land að Vatnajökli og hugsanlega séu landeigendurnir mun fleiri. Það mál eigi eftir að kanna frekar og verður unnið að því.

"Ljóst er að mikil vinna getur orðið við að meta hugsanleg réttindi manna á þjóðgarðssvæðinu og ná samkomulagi við rétthafa í kjölfarið," segir í skýrslunni.

Leggur starfshópurinn til að mörk þjóðgarðsins miðist við jökuljaðarinn einvörðungu, auk Skaftafellsþjóðgarðs. Með því móti verði meiri sátt um málið og eignarréttarleg vandamál viðráðanlegri.