"How to Make it in the Music Business " eftir Siân Pattenden. 202 bls. Virgin Publishing Ltd., London, 2000 (2.útgáfa). Eymundsson. 1.595 krónur.

HVER myndi ekki vilja verða frægur? Hver myndi ekki vilja verða poppstjarna? Ekki ég...en fullt af fólki á sér þann draum. Það vill kannski vera plötusnúðar, bakraddasöngvarar, upptökumenn eða jafnvel framkvæmdastjórar plötufyrirtækja. Þessi bók miðar að því að hjálpa öllum þeim sem vilja komast áfram í heimi tónlistarinnar. Hvort sem þú vilt hanna plötuumslög, klippa hárið á poppstjörnum, vera lífvörður, kokkur eða einkaþjálfari. Þú velur starfið og bókin hjálpar þér af stað. Þú flettir bókinni og lest um þau störf sem höfða til þín en hver starfsgrein fær sinn kafla. Kostir og gallar starfsins eru taldir upp - hversu mikið eða lítið þú græðir, hversu mikið þú átt eftir að ferðast um heiminn, hvort starfið er hættulegt heilsunni, er það glæsilegt o.s.frv. Rætt er við fólk sem náð hefur langt í sinni grein innan poppheimsins og höfundur lætur svo fljóta með ráðleggingar frá eigin brjósti. Hvernig er best að byrja? Við hverja átt þú að tala? Þér er sagt hvernig þú átt að hegða þér og hvernig þú þarft að vera til að ná langt á þínu sviði.

Viltu verða rótari? Til að verða rótari þarftu að hafa löngun til þess að skríða um á tónleikasviði með rassinn hálfan uppúr buxunum. Til þess að æfa þig fyrir starfið skaltu taka hátalarana úr herberginu þínu, bera þá niður stigann og út í kringum húsið og aftur inn og upp í herbergið og sjáðu hvort þér finnst það ekki gaman. Þú yrðir prýðisrótari.

Ráðleggingarnar eru á gamansömum nótum - fíflaskapur sem ekki má taka of alvarlega. En þær eru um leið hreinskilningslegar og víða leynast sannleikskorn. Margt gæti þannig gagnast þeim sem les og öðru má hlæja að. Siân Pattenden, höfundur bókarinnar, starfar sjálf í þessum heimi og veit hvað hún syngur, þó svo að tónlistarkunnátta hennar sé eilítið vafasöm (H-dúr er erfiðari en C-dúr því í honum eru svo margir hálftónar...[!]). Hún nær að lýsa innviðum þessa gerviheims á mjög lifandi, skemmtilegan og raunsæjan hátt. Og það er gaman að henni.

Eftir lestur bókarinnar hef ég komist að því að heillavænlegast sé að vera söngkennari poppstjarnanna. Þeir virðast hæstánægðir og hamingjusamir í sínu starfi. Merkilegt er einmitt hversu margir mæla ekki með sínu starfi. Hluti af því getur t.d. verið að ljúga að eiginkonum stjarnanna og aðrir vinna það erfiða starf að fá poppstjörnuna til að hætta að vera með þessa vonlausu hárgreiðslu; allt erfitt á sinn hátt.

En þú velur bara hvað þú vilt vera og hver veit - kannski verður þú frægur.

Silja Björk Baldursdóttir

Höf.: Silja Björk Baldursdóttir