Nicolas Anelka, í hvítri treyju, skorar jöfnunarmark Real Madrid gegn Bayern München í gærkvöld án þess að Samuel Kuffour nái að stöðva hann. Þetta mark réð úrslitum í viðureign liðanna og tryggði Real rétt til að leika til úrslita um Evrópumeistaratitilin
Nicolas Anelka, í hvítri treyju, skorar jöfnunarmark Real Madrid gegn Bayern München í gærkvöld án þess að Samuel Kuffour nái að stöðva hann. Þetta mark réð úrslitum í viðureign liðanna og tryggði Real rétt til að leika til úrslita um Evrópumeistaratitilin
SPÁNVERJAR munu hampa Evrópumeistaratign félagsliða í knattspyrnu í ár. Real Madrid tryggði það með því að slá Bayern München út í undanúrslitunum í gærkvöld. Bayern sigraði, 2:1, á Ólympíuleikvanginum í München en Real hafði unnið fyrri leikinn, 2:0, og leikur til úrslita um titilinn í 11. skipti við annaðhvort Valencia eða Barcelona í París hinn 24. maí.

Bayern náði forystunni eftir aðeins 11 mínútur þegar Carsten Jancker skoraði glæsilegt mark - kastaði sér og tók boltann viðstöðulaust á lofti á markteig eftir skallasendingu frá Elber. Real jafnaði metin á 32. mínútu þegar Nicolas Anelka skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá Savio. Það var í raun markið sem réði úrslitum - Bayern þurfti að skora þrívegis til að komast áfram og það var of mikið. Elber gaf Þjóðverjunum von með skallamarki á 54. mínútu, 2:1, en þrátt fyrir mikla baráttu og þunga pressu á köflun tókst þeim ekki að ógna spænska liðinu frekar.

Jeremies viðbeinsbrotnaði

Bayern varð fyrir áfalli þegar þýski landsliðsmaðurinn Jens Jeremias fór viðbeinsbrotinn af velli snemma í síðari hálfleiknum. Talið er að hann verði orðinn heill heilsu þegar úrslitakeppni Evrópumóts landsliða hefst eftir einn mánuð.

Spánverjarnir voru ekki síst ánægðir þar sem þeir töpuðu tvívegis fyrir Bayern í meistaradeildinni í vetur.

"Knattspyrnan snýst um það að læra af mistökunum, við lærðum mikið af leikjunum tveimur fyrr í vetur og nú erum við komnir áfram," sagði Ivan Campo, varnarmaðurinn sterki hjá Real.

Vinnusemi og baráttu- gleði réð úrslitum

Vicente del Bosque, þjálfari spænska liðsins, sagði að vinnusemi og baráttugleði sinna manna hefði ráðið úrslitum í einvígi liðanna. "Mínir menn voru stórkostlegir allan þennan hörkuleik. Bayern er með mjög grimmt lið og ég viðurkenni að ég óttaðist hið versta þegar við fengum á okkur fyrsta markið. En eftir það fórum við að spila betur," sagði del Bosque.

Ilker Casillas, markvörðurinn ungi hjá Real, sem verður 19 ára annan laugardag, sagði að leikurinn hefði verið erfiður þar sem Bayern skoraði snemma í báðum hálfleikjum. "Við höfum verið gagnrýndir af öllum í vetur en nú erum við komnir í úrslitaleikinn og tekst vonandi að sigra. Mér er sama hvort við mætum Valencia eða Barcelona," sagði Casillas.

Verðskuldað hjá Real að sögn Beckenbauers

Franz Beckenbauer, forseti Bayern, sagði að Real verðskuldaði fyllilega sæti í úrslitunum.

"Real er með frábært lið og það hafði enginn trú á því að við gætum skorað þrjú mörk eftir að þeir jöfnuðu. Okkar menn voru of þreyttir, það var of stutt síðan við unnum Bremen í úrslitaleik bikarsins á laugardaginn," sagði "keisarinn" sem varð Evrópumeistari með Bayern þrjú ár í röð, 1974 til 1976.

"Við unnum þá þrisvar í fjórum leikjum í vetur, en þeir unnu leikinn sem skipti mestu máli," sagði Oliver Kahn, markvörður Bayern.