ÍSLENSK börn slasast að jafnaði einu sinni á ári og getur heildarkostnaður slysanna numið allt að 18,675 milljörðum króna á ári, samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

ÍSLENSK börn slasast að jafnaði einu sinni á ári og getur heildarkostnaður slysanna numið allt að 18,675 milljörðum króna á ári, samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Algengast er að börn slasi sig í heimahúsum, því næst í skólum, þá við íþróttaiðkanir og að lokum koma umferðarslys.

Í skýrslunni, sem unnin var fyrir slysavarnaráð, kemur fram að um 30 til 35 þúsund börn slasast á ári hverju á landinu öllu. Af þeim börnum sem leituðu til slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur á árunum 1991 til 1996 voru um 88% lítið slösuð, um 11% nokkuð slösuð, um 0,8% alvarlega slösuð og um 1,3% mjög alvarlega eða lífshættulega slösuð. Að meðaltali leiddi slys 2,2 börn til dauða á ári eða um 0,02%.

Banaslys eru tíðust meðal drengja á aldrinum 15 til 18 ára og segir í skýrslunni að skýra megi það með fjölgun umferðarslysa hjá þessum aldurshópi. Þá segir einnig í skýrslunni að banaslys séu nokkuð algengari hér en á hinum Norðurlöndunum.

Af þeim börnum sem leituðu til slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur á árunum 1990 til 1996 voru um 58% drengir og er algengast að drengir slasi sig við íþróttaiðkanir.

Eins og kom fram hér að ofan er algengast að börn slasi sig í heimahúsum. Það eru oftast börn á aldrinum 0 til 4 ára sem slasa sig heima hjá sér, en síðan dregur úr slysum í heimahúsum eftir því sem börnin eldast. Íþrótta- og umferðarslysum fjölgar hins vegar eftir því sem börnin eldast.

Misjafnt er hvaða deildir innan Sjúkrahúss Reykjavíkur börn eru lögð inn á eftir komu á slysadeildina, en flest þeirra eða um 40% eru lögð inn á bæklunardeild og um 15% inn á skurðlækningadeild. Fæst voru lögð inn á endurhæfingardeild og geðdeild eða um 0,5% barnanna.

Samkvæmt skýrslunni má skipta kostnaði vegna slysa í persónulegan kostnað og samfélagslegan kostnað. Persónulegur kostnaður vegna slysa á börnum á ári er talinn vera um 3,4 til 18,4 milljarðar króna, en samfélagslegur kostnaður um 200 til 275 milljónir.

Áberandi er hversu miklu hærri persónulegi kostnaðurinn er en í skýrslunni segir að það megi rekja til þeirrar aðferðar sem notuð sé til að meta hann. Notuð sé svokölluð greiðsluviljaaðferð en hún miðist að því að meta hve mikið einstaklingar séu viljugir að greiða til að koma í veg fyrir að slasast. Samfélagslegi kostnaðurinn tekur hins vegar aðallega til sjúkrakostnaðar vegna slasaðra barna.

Í skýrslunni kemur fram að persónulegur kostnaður slasaðra barna sé að öllum líkindum lægri en fullorðinna. Búast megi við því að oftast verði minni röskun á lífi slasaðra barna en fullorðinna einstaklinga, auk þess sem reikna megi með því að tekjutap slasaðs barns að viðbættu tekjutapi foreldra og aðstandenda þess sé líklega minna en tekjutap fullorðins einstaklings sem slasast.