DAVÍÐ Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, telur ekki að það sé hlutverk sérstaks gerðardóms að kveða upp úr um upphæð daggjalda fyrir öldrunar- og hjúkrunarheimilið Grund.

DAVÍÐ Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, telur ekki að það sé hlutverk sérstaks gerðardóms að kveða upp úr um upphæð daggjalda fyrir öldrunar- og hjúkrunarheimilið Grund.

Fram kom í Morgunblaðinu í gær að forsvarsmenn Grundar hafa farið þess á leit við Hæstarétt að hann tilnefni tvo aðila í gerðardóm svo unnt sé að fá skorið úr ágreiningi heimilisins við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um daggjöld til reksturs hjúkrunarheimilis. Yrði það í fyrsta sinn sem heimild í lögum um almannatryggingar þess efnis er nýtt, en mikið tap hefur verið á rekstri Grundar undanfarin ár og stefnir í 35 milljóna kr. tap á þessu ári.

Davíð segir það skoðun lögfræðinga ráðuneytisins að ákvæðið um gerðardóm í lögunum eigi eingöngu við um þá þætti í almannatryggingalögunum þar sem Tryggingastofnun ríkisins semji um ákveðið gjald. Í þessum málaflokki sé ákvörðunin um gjald hins vegar í höndum ráðherra og honum beri að úrskurða um upphæð daggjaldanna. Því sé bréf Grundar til Hæstaréttar á misskilningi byggt, að mati ráðuneytisins.

"Eins og komið hefur fram var nýlega tekin upp ný aðferð til að greiða fyrir öldrunarþjónustu," segir Davíð. "Áður var þörf fyrir hana metin án eiginlegra mælieininga, en nú hefur ný mælieining verið tekin upp og það þýðir að fylgjast þarf með vistmönnum á hverri stofnun og reyna að meta á hverjum tíma hver hjúkrunarþyngdin er."

Davíð segir að umræða um þessi mál sé skammt á veg komin og það sé mat hans að á næstunni verði að fara rækilega gegnum þessi mál með öllum þeim stofnunum sem að því komi, ekki aðeins Grund.

Davíð sagði að mikið tap á rekstri Grundar væri vissulega áhyggjuefni, en hann benti á að Ríkisendurskoðun hefði um síðustu áramót farið yfir rekstur Grundar og fleiri stofnana og í framhaldinu hefði þeim verið úthlutað auknu fjármagni með fjáraukalögum.

"Ráðuneytið hefur sem slíkt ekki síðasta orðið í þeim efnum, heldur er það fyrst og fremst ákvörðun fjárveitingavaldsins í framhaldi af mati Ríkisendurskoðunar," segir hann.

Davíð segir að þegar kerfi sé breytt, eins og verið sé að gera í þessu tilfelli, sé það ekki einfalt og geti tekið nokkurn tíma að ná jafnvægi á nýjan leik. Hins vegar sýni ágætlega hve mál séu flókin, að daggjaldataxti til Grundar og Áss, heimilis Grundar í Hveragerði, hafi hækkað um 15% milli áranna 1999 og 2000, en staðan sé engu að síður slæm að mati stofnunarinnar.

"Ráðuneytið mun kappkosta að finna lausn á þessum málum í samvinnu við þessar stofnanir. Það hefur átt við þær ágætt samstarf í áratugi og ekki hvarflar annað að mér en lausn verði fundin á þessum málum," sagði hann.