SAMSTARFSHÓPUR hefur verið stofnaður um að skora á Ástþór Magnússon, fyrrverandi forsetaframbjóðanda, að gefa að nýju kost á sér í framboð til embættis forseta Íslands.

SAMSTARFSHÓPUR hefur verið stofnaður um að skora á Ástþór Magnússon, fyrrverandi forsetaframbjóðanda, að gefa að nýju kost á sér í framboð til embættis forseta Íslands. Sverrir Stormsker tónlistarmaður er í forsvari fyrir hópinn, sem sendi frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem fram kemur að mörg hundruð undirskriftir hafi þegar safnast til stuðnings málstaðnum.

Haft er eftir Sverri í tilkynningunni að áskorun hópsins sé ekki sérstaklega beint gegn Ólafi Ragnari Grímssyni forseta, heldur vilji hópurinn skapa umræðu um forsetaembættið og að ekki sé sjálfkjörið í þetta æðsta embætti þjóðarinnar.

"Við vitum að Ástþór getur hrært upp í þessu og komið af stað jákvæðri umræðu um embættið. Einnig er mjög jákvætt að gefa sitjandi forseta tækifæri til að líta yfir farinn veg með þjóðinni og endurnýja heit sín," segir Sverrir í tilkynningunni.

Forsetinn í forystu alþjóðlegs friðarstarfs

Í fréttatilkynningunni segir einnig að ef af framboði Ástþórs verður verði haft samband við Global Resource Bank sem sé alþjóðleg stofnun sem vinni að því að kynna nýtt hagkerfi fyrir heimsbyggðina. Fram kemur að fulltrúi bankans hafi verið staddur hér á landi í fyrradag til að ræða um stuðning við framboðið. "Hugmyndin er að hér á landi yrði stofnsettur alþjóðlegur lífeyrissjóðsbanki er tryggði öllum jarðarbúum lágmarkslífeyri og að bankinn starfaði í tengslum við alþjóðlegt friðarstarf íslensku þjóðarinnar undir forystu forseta Íslands," segir í fréttatilkynningu samstarfshópsins.