SKIP með takmarkaða sjósókn og skip sem hafa aðeins sumarhaffæri eru undanþegin kröfu um búnað til sjálfvirkrar tilkynningaskyldu skv. lögum nr. 40/1977 um tilkynningaskyldu íslenskra skipa og sbr. breytingarlög nr. 39/1999, sem enn eru í gildi. Áætlað er að um 150 skip sé að ræða en í frumvarpi samgönguráðherra um breytingar á lögunum er gert ráð fyrir að gildandi reglum um skip með sumarhaffæri verði breytt. Verði frumvarpið að lögum er fyrirhuguð gildistaka miðuð við 1. júlí í sumar..

Einar Hannesson, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu, segir að 5. mars 1998 hafi verið gert samkomulag við smábátaeigendur um það að þeir fengju tímabundna undanþágu og var það samkomulag sett inn í fyrrnefnd lög. Lögum samkvæmt hafi því ekki verið heimilt að beita tilkynningaskyldu gagnvart smábátum sem væru að veiðum nánast við landsteinana en fram hefði komið í lögskýringargögnum með málinu á sínum tíma að undanþáguna ætti að endurskoða. Hún væri nú í endurskoðun og samkvæmt framlögðu frumvarpi á Alþingi verða smábátarnir með sumarhaffæri felldir undir sjálfvirku tilkynningaskylduna.

Að sögn Einars var fyrrnefnt samkomulag gert vegna sérstöðu eigenda báta með sumarhaffæri eða tímabundið haffærisskírteini. Tilkynningaskyldan kostaði peninga en um væri að ræða litlar útgerðir sem hefðu lítið fjárhagslegt bolmagn. Oft væri um ellilífeyrisþega að ræða sem væru með lítinn bát á færum skammt frá landi á sumrin.