Höfn- Salmonella hefur greinst í nokkrum íbúum Hornafjarðar að undanförnu.
Höfn- Salmonella hefur greinst í nokkrum íbúum Hornafjarðar að undanförnu. Að sögn Baldurs Thorstensens læknis á Hornafirði hafa sjö manneskjur greinst með salmonellusýkingu á Hornafirði síðan um miðjan febrúar, og grunur leikur á að þrír aðrir séu sýktir. Ekki liggur ljóst fyrir af hverju sýkingarnar stafa en að sögn Baldurs er nú mikið starf unnið til að komast að rót vandans. Ennfremur sagði Baldur að engin sýnileg tengsl væru á milli tilfellanna, en þau væru sem betur fer ekki alvarleg og allir sem greinst hafa séu á batavegi.

Engin tengsl hafa fundist milli tilfellanna

Kjartan Hreinsson dýralæknir og heilbrigðisfulltrúi á Hornafirði tók undir orð Baldurs og sagði að engin tengsl hefðu fundist á milli tilfellanna. Búið er að rannsaka mikið af matvælum og neysluvörum en allt hefur reynst neikvætt hingað til. Engin leið er að segja til um á þessu stigi málsins hvort sýkingin eigi rætur að rekja til nágrennis Hornafjarðar.