Fjölskylda í Kasmír leitar að einhverjum eigum sínum í rústum heimilis síns í Pattan norður af Srinagar. Indverjar sögðu, að skæruliðar á flótta hefðu kveikt í húsinu en íbúarnir sögðu, að indverskir hermenn hefðu brennt til grunna 38 byggingar.
Fjölskylda í Kasmír leitar að einhverjum eigum sínum í rústum heimilis síns í Pattan norður af Srinagar. Indverjar sögðu, að skæruliðar á flótta hefðu kveikt í húsinu en íbúarnir sögðu, að indverskir hermenn hefðu brennt til grunna 38 byggingar.
Áætlað er að átökin í Kasmír, þessum "hættulegasta stað í heimi" eins og héraðið hefur verið kallað, hafi kostað a.m.k. 40.000 manns lífið sl. 10 ár og hugsanlega miklu fleiri. Í þessari grein eftir Nis Olsen segir að hvergi virðist vera von um lausn nema ef vera skyldi í óttanum við kjarnorkustyrjöld á milli Indverja og Pakistana.

FIMMTÁN manns féllu er indverskir og pakistanskir hermenn skutust á yfir landamærin fyrir skömmu og nokkrum dögum síðar féllu 10 manns, þrír þorpsleiðtogar, sem múslímar myrtu, lögregluþjónn, hermaður, tveir óbreyttir borgarar og þrír múslímskir málaliðar. Þannig eru fréttirnar frá Kasmír, sem lýtur Indverjum en hefur verið bitbein þeirra og Pakistana í 52 ár. Tvisvar sinnum hefur deilan leitt til styrjaldar milli ríkjanna en segja má að í héraðinu standi yfir stanslaust stríð.

"Hættulegasti staður í heimi"

Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna, sagði nýlega að Kasmír væri "hættulegasti staður í heimi" og lögfræðingurinn og mannréttindafrömuðurinn Pervez Imroz í Srinagar, höfuðstað héraðsins, tekur undir það. Segir hann að Kasmír sé hættulegt fólkinu, sem býr þar, nágrannaríkjunum og öllum heimi.

Múslímar, sem eru í miklum meirihluta í Kasmír, berjast fyrir sameiningu við Pakistan. Gripu þeir til vopna í því skyni en nú er Kasmír ekki síst orðið vígvöllur og vettvangur fyrir bókstafstrúaða múslíma frá öðrum löndum, t.d. Pakistan og Afganistan. Það hefur raunar leitt til þess að æ fleiri Kasmírbúar hafa orðið fráhverfir sameiningu við Pakistan og vilja stofna sjálfstætt ríki.

Imroz segir að ástandið hafi hríðversnað að undanförnu og hann óttast að sumarið verði blóðugt.

Sjálfsmorðsárásir

"Nú fyrir skömmu átti sér stað fyrsta sjálfsmorðsárásin í Kasmír en hingað til höfum við aðeins lesið um slíkt í fréttum frá Miðausturlöndum og Sri Lanka. Bókstafstrúarmennirnir, sem koma hingað frá Pakistan, hafa líka tekið upp á þessu og hinir ólíku hópar æsa hver annan upp í "heilagt stríð"," segir Imroz.

Vegna ótta við sjálfsmorðsárásir skjóta indversku hermennirnir stundum á allt sem hreyfist og það hefur ekki gert þá vinsælli meðal Kasmírbúa. Fólkið hefur á tilfinningunni að það sé bara þrælar í hersetnu landi. Tilviljanakenndar handtökur eru daglegt brauð og þeir, sem eru grunaðir um að styðja skæruliða, eru margir skotnir. Ekkert hefur spurst til um 2.000 manna, sem Indverjar handtóku, og enginn býst við að þeir séu enn á lífi.

Múslímsku uppreisnarmennirnir sýna ekki minni grimmd. Þeir hafa framið fjöldamorð í hindúskum bæjum og þorpum og þeir skjóta þá trúbræður sína sem þeir gruna um minnsta samstarf við indversk yfirvöld. Þá hafa þeir tekið útlendinga í gíslingu og myrt.

Alþjóðleg milliganga nauðsynleg

Imroz segir að hatrið sé svo mikið að engin lausn sé sjáanleg. Þess vegna verði vestræn ríki að koma vitinu fyrir Indverja og leiða þeim fyrir sjónir að Kasmírdeilan er ekki bara indverskt innanríkismál. Til þurfi að koma alþjóðleg milliganga og hafa verði leiðtoga Kasmírbúa sjálfra með í ráðum. Umheimurinn hafi gripið í taumana í Bosníu, Kosovo og á Austur-Tímor en þagað sé um Kasmír vegna þess að Indland sé efnahagslegt stórveldi. Indverjar geti farið þar sínu fram eins og Kínverjar í Tíbet.

Ófriðurinn í Kasmír hefur eyðilagt efnahagslífið. Srinagar, þessi perla, sem áður var, og vinsæli ferðamannastaður, einkennist fyrst og fremst af niðurníðslu og útlendingar gera sér ekki erindi þangað að óþörfu. Kasmírbúar trúa því þó að héraðið geti átt sér framtíð sem sjálfstætt ríki. Það búi yfir mikilli vatnsorku og skógum og náttúru sem minni mest á Sviss. Ferðamennirnir muni því snúa aftur komist á friður.

Útlendir öfgamenn

K. Vijay Kumar, yfirmaður indverska landamæravarðarins, er á öðru máli. Hann leggur áherslu á að Kasmír sé hluti af Indlandi og til að koma á friði þurfi að bæta stjórnkerfið og loka landamærunum við Pakistan tryggilega. Mestu skipti að koma í veg fyrir að útlendir öfgamenn komist til Kasmírs en hann áætlar að um 1.000 hafi komið frá Pakistan á síðasta ári.

Kumar segir að þriðjungur þessara manna hafi verið drepinn eða handtekinn en hinir séu í felum. Þeir fái hjálp hjá innfæddum, þeim sem styðji skæruliða, en hann segir að það séu ekki nema 10% múslíma. Segir hann að önnur 10% þeirra styðji Indverja en 80% láti ekki í sér heyra af ótta við hefndaraðgerðir.

Bindur vonir við kjarnorkuógnina

Hatrið og spennan í Kasmír eru næstum áþreifanleg. Hvert skot er eins og neisti sem kveikt getur styrjöld milli kjarnorkuveldanna Indlands og Pakistans. Imroz segir að samt sem áður sé það óttinn við kjarnorkustyrjöld sem geti orðið til að bjarga Kasmír.

"Vegna kjarnavopnanna er Kasmír vandamál alls heimsins, ekki bara okkar. Indverjar verða að átta sig á að hersetunni verður að linna. Tíu ár skipta okkur engu en þeir geta ekki haldið þetta út í önnur 50 ár," segir Pervez Imroz.

Höfundur starfar sem blaðamaður fyrir danska blaðið Politiken.