The Newgate Calendar eftir George Theodore Wilkinson esq. Fyrsta útgáfa bókarinnar er frá 1816, en sú sem er hér til umræðu kom út á vegum Sphere Books Cardinal 1991. 338 síðna kilja. Keypt á Spitalfields-markaðnum í Lundúnum á um 100 kr.

FÁTT þykir fólki skemmtilegra að lesa en frásagnir af illvirkjum annarra, ekki síst ef þeir hljóta makleg málagjöld, eins og sannast meðal annars á íslenskum blaðamarkaði. Sá áhugi hefur verið lengi til staðar og fer síst minnkandi og Newgate dagatalið, sem hér er gert að umtalsefni, var ekki síst vinsælt fyrir það að í því voru lýsingar af flestum helstu glæpamönnum Bretlands á átjándu og nítjándu öld og hrottalegum dauða þeirra.

Sagt hefur verið að The Newgate Calendar hafi verið á öllum heimilum Bretlands á sínum tíma og margur skemmt sér við að lesa hryllilegar lýsingar á glæpum landskunnra manna eins og Sawneys Beanes, Elizabeth Brownriggs, Kidd skipstjóra, Dicks Turpins og Jonathans Wilds, sem var líkast til mesta stjarnan af þeim öllum og sambærilegur við helstu glæpastjörnur seinni ára, manna eins og Als Capones, Charles Mansons, Teds Bundys og svo mætti áfram telja.

Illmennin voru sum ansi harðskeytt, eins og til að mynda Sawney Beane og fjölskylda hans sem lifðu á mannakjöti, söltuðu, þurrkuðu, reyktu og súrsuðu, ef marka má frásögnina. Henni svipar reyndar mjög til þjóðsögu því ólíklegt verður að teljast að menn hafi látið það viðgangast áratugum saman að tugir, ef ekki hundruðir manna hafi verið étin og Sawney Beane fengið næði til að auka svo kyn sitt að synirnir urðu átta, dæturnar sex og barnabörnin 32. Hvað sem því líður var refsingin ekki síður villimannsleg en brotið; kynfæri karlanna voru brennd á eldi og síðan höggnir af þeim útlimir og þeim látið blæða út. Konur og börn voru aftur á móti brennd á eldi eftir að hafa fengið að fylgjast með slátruninni. Það verður að teljast þeim til tekna að hafa látið formælingum rigna yfir böðla sína þar til yfir lauk.

Ekki eru allar frásagnir í bókinni svo ótrúlegar og eftir því sem nær dregur tíma skrásetjara verða þær líflegri og eðlilegri. Bófarnir eru ekki teiknimyndahetjur bíómyndanna, heldur klaufskir og heimskir líkt og bófar eru almennt, þjófar vegna þess að þeir hafa ekki gáfur til að gera eitthvað annað. Sumir virðast reyndar hafa talsverða eðlisgreind, til að mynda Jonathan Wild, enda hreif sá óþokki marga eins og lesa má í frásögn Fieldings af Wild í samnefndri, bráðskemmtilegri bók.

The Newgate Calendar gefur frábæra mynd af tíðarandanum í lok átjándu aldar og upphafi þeirrar nítjándu og varla nema von að bókin hafi verið vinsæl á flestum heimilum; áhugi manna á illum örlögum óþokka (1807 skemmtu 40.000 manns sér við aftöku tveggja þjófa) byggðist ekki síst á því að þau staðfestu að rétt væri að breyta rétt þrátt fyrir allt.

Árni Matthíasson

Höf.: Árni Matthíasson