FORRÁÐAMENN þýska handknattleiksliðsins Wuppertal, sem Valdimar Grímsson, Heiðmar Felixson og Dagur Sigurðsson leika með, eru ekki tilbúnir að láta Dag og Heiðmar lausa til æfinga með íslenska landsliðinu 22. maí átakalaust. Valdimar er aftur á móti meiddur og verður hugsanlega frá keppni á næstunni.

Blaðið Westdeutsche Zeitung greinir frá því í gær að HC Wuppertal hafi skrifað alþjóða handknattleikssambandinu (IHF) bréf og farið fram á að íslensku leikmennirnir sem leika með liðinu fái leyfi til að spila leiki þá sem liðið þarf að leika í umspili um sæti í 1. deild - komi til þess að Wuppertal lendi í þriðja neðsta sæti deildarinnar sem líklegt er.

Ástæða bréfaskrifta Wuppertal er að sögn Kalle Scheerer sú að Handknattleikssamband Íslands, HSÍ, hefur ritað þýska sambandinu bréf og sagt að leikmennirnir Dagur Sigurðsson, Valdimar Grímsson og Heiðmar Felixson eigi að vera komnir á æfingu með íslenska landsliðinu 22. maí - ekki degi síðar. Þvingi HC Wuppertal leikmennina til að vera áfram úti mun HSÍ setja viðkomandi leikmenn í leikbann.

Kalle Scheer segir það vera óþolandi að samband eins og HSÍ skuli geta krafist þess að fá leikmennina þegar þeir fá laun 365 daga á ári hjá félagi sínu og finnst algjört skilningsleysi hjá HSÍ að krefjast að leikmennirnir komi til æfinga þegar um líf eða dauða er að tefla hjá liðinu. Þá er jafnframt sagt að hið sama gildi um Göppingen sem Rúnar Sigtryggsson leikur með.

Félagi hans - Brasilíumaðurinn Bruno Souza verður að yfirgefa Göppingen vegna landsleikja með Brasilíu. Sóttust forráðamenn Göppingen eftir að fá Stephan Schöne lausan frá Wuppertal til að leika í úrslitakeppninni. Stephan, sem er fyrrverandi leikmaður og þjálfari liðsins, sagði starfi sínu lausu í febrúar eftir slæmt gengi liðsins undir hans stjórn.

Þessu hefur Wuppertal algjörlega hafnað og segir Kalle Scheerer að það sé óskiljanlegt hjá Schöne að fara fram á þetta til að leika svo jafnvel gegn sínu gamla liði. "Hann er samningsbundinn okkur til 30. júní 2000 - við sleppum honum ekki fyrr," sagði Scheerer, sem er sannfærður um að fá stuðning frá IHF til að halda Íslendingunum, þannig að þeir geta leikið hina þýðingarmiklu leiki, sem að öllum líkindum eru framundan.

Íslenska landsliðið á að koma saman til æfinga 22. maí og leika síðan tvo æfingalandsleiki í Tékklandi í lok maí, eða á sama tíma og aukaleikir verða leiknir. Landsliðið leikur síðan tvo leiki gegn Makedóníu í undankeppni HM - í Makedóníu 4. júní og 10. júní á Íslandi.