Margrét Guðmundsdóttir
Margrét Guðmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur Ragnarsson, Sverrir Jakobsson og Margrét Guðmundsdóttir sáu um útgáfuna. I.-V. bindi. Vaka-Helgafell, Reykjavík, 2000.

ÞEIM, sem þetta ritar, þykir útkoma þessa mikla úrvals íslenskra þjóðsagna mikill bókmenntaviðburður, einkum þar sem frábærlega vel er að útgáfu þess staðið.

Í safn þetta, sem er í fimm bindum, hafa verið valdar um 740 þjóðsögur og sagnir, en ævintýrum er sleppt hér. Er boðuð sérstök útgáfa ævintýranna. Vitaskuld eru íslenskar þjóðsögur langtum fleiri en hér er að finna. En þess ber þó einnig að gæta, að enda þótt þjóðsagnasöfn séu gríðarmikil að vöxtum er nokkuð um skörun milli safna og sama sagan stundum endurtekin með blæbrigðamun. Virðist mér að í þetta safn sé kominn kjarni íslenskra þjóðsagna og afar lítið um að góðum sögum sé sleppt. Fæ ég ekki betur séð en Sverrir Jakobsson hafi valið sögurnar af ágætri þekkingu og smekkvísi.

Gamla sagnaflokkunin, sem Jón Árnason og fleiri notuðust við, var óneitanlega flókin og þunglamaleg, enda ættuð frá þýskri smámunasemi. Hér hefur hún verið niður felld og önnur handhægari upp tekin. Sögunum er skipt í fjóra aðalflokka. Fyrsti flokkur nefnist Af mannfólki. Er hann langstærstur og nær yfir fyrsta og annað bindi og nokkuð af því þriðja. Þessi flokkur greinist svo í fimm undirflokka: Helgir menn og fjölkunnugir, Staðir og saga, Í óbyggðum, Afturgöngur og Dulsýnir. Annar flokkur er Af æðri máttarvöldum og lýkur með honum þriðja bindi. Í fjórða bindi er þriðji flokkur Úr ríki náttúrunnar og fjórði flokkur Úr huliðsheimum. Skiptist hann í þrjá undirflokka: Ýmsar vættir, Huldufók og Tröll. Undirflokkarnir skiptast svo enn niður í sagnaflokka. Þó að þetta sé mun einfaldara en gamla flokkunin finnst mér að hægt hefði verið að ganga enn lengra, enda stundum vandséð hvort sagan tilheyrir einum flokki eða öðrum.

Fimmta bindið og hið stysta er Lykilbindi. Þar er fyrst 53 bls. löng ritgerð Sverris Jakobssonar, Yfirlit um sögu þjóðsagnasöfnunar. Prýðisgóð ritgerð er það, en mætti kannski vera með svolítið léttara yfirbragði. Lesendur safnsins ættu að byrja á þessari ritgerð. Þá kemur skrá um helstu rit um þjóðsögur. Er hún þrískipt: Útgáfur á þjóðlegum fróðleik, Þjóðsagnasöfn og Ýmis rit og greinar. Þar sést svart á hvítu, að það er ekkert smáræði, sem um þetta efni hefur verið sett á prent. Þá er skrá um aðalheimildir safnsins. Sögur safnsins í stafrófsröð eru tilgreindar í sérstakri skrá. Fróðleg mun og mörgum þykja Flokkun þjóðsagna eftir landshlutum og stöðum. Skrá er yfir nöfn manna, dýra, drauga og vætta og loks er skrá yfir staðanöfn. Allt ber þetta vitni vandvirkni og vísindalegum vinnubrögðum.

Að hverjum hinna fjögurra aðalflokka er stuttur og vel skrifaður inngangur.

Á eftir titli hverrar sögu er upprunaleg heimild tilgreind og að sögunni lokinni hvar hún hefur birst. Langflestar hafa sögurnar komið úr hinu mikla safni Jóns Árnasonar, eins og eðlilegt er, en mjög víða annars staðar hefur verið leitað fanga. Hér koma því margar sögur, sem fáum eru líklega kunnar. Skemmtilegt þykir mér og viðeigandi, að teknar eru góðar sögur úr Íslendinga sögum, Biskupasögum og frásagnir úr Annálum. Sögurnar spanna því yfir geysivítt svið, allt frá söguöld til nútímans.

Eins og að líkum lætur er málfar og stafsetning á sögum þessum með ýmsum hætti í upprunalegri gerð. Stafsetning hefur í þessari útgáfu verið færð í átt til nútímahorfs, en þó reynt að ganga ekki of langt í þeim efnum. Þetta sýnist mér hafa tekist vel, án þess að glatast hafi fornlegur og oft persónulegur blær á mörgum sagnanna.

Í upphafi fyrsta bindis er formáli Ólafs Ragnarssonar, en hann er frumkvöðull þessarar útgáfu. Ber formálinn heitið Gersemar íslenskrar þjóðmenningar. Vissulega er hægt að taka undir þá nafngift. Gersemar eru íslenskar þjóðsögur á marga lund. Þær eru gersemar frásagnarsnilldar. Fjölmargar eru þjóðsögurnar svo listilega vel sagðar, að manni finnst að varla verði betur gert. Atburðarás með jafnri stígandi og dramatískri spennu, sem heldur lesanda föngnum. Málfar, stíll og orðaval hnitmiðað og fagurt og eðlilegt án tilgerðarlegrar fyrningar. Auðsjáanlegt er að margar sagnanna hafa slípast við margendurtekna frásögn góðra sögumanna. Gersemar eru þær einnig vegna þess boðskapar, sem þær flytja oft og einatt. Margar þeirra eru í raun dæmisögur, sem eiga að festa í minni vissa persónueiginleika, svo sem orðheldni, trygglyndi, hjálpsemi, hófstillingu, vara við ágirnd, hroka og tillitsleysi. Þá eru sögur, sem brýna fyrir mönnum að bera virðingu fyrir náttúrunni, umgangast vissa staði af varúð og spilla þeim ekki. Afleiðingar þess að þau lögmál eru ekki virt eru jafnan hinar alvarlegustu, geipileg hefnd, sem getur varðað eignamissi, ólán og jafnvel kostað líf manna. Athygli má vekja, að allt er þetta lagt í hendur einhverra dularafla og ber þar kannski mest á huldufólkinu. Yfir vötnum svífa einatt óræð og órannsakanleg öfl, sem hafa manninn á valdi sínu og ráða örlögum hans. Þetta er í raun sami andblærinn og trúarbrögð byggjast á og verður þá ekki langt í galdrana, sem allmikið ber á í þjóðsögum.

Gersemar eru þjóðsögurnar einnig vegna þess hversu listilega þær lýsa óskheimi þjóðarinnar fyrrum. Þar eru yfirskyggðir dalir í óbyggðum, grösugir og með vænni sauðum en í byggð tíðkast, sterkari karlmönnum og fegurri konum. Þar geta jafnvel systkin notið ásta og var það ekki lítið hagræði á tímum Stóradóms. Þar getur fátækra bændasona og vinnumanna, sem vegna karlmennsku sinnar og hugkvæmni komast innundir hjá útilegumönnum og jafnvel tröllum og öðlast við það gott kvonfang, hamingju og auðæfi. Í þessum óskheimi ber útilegumannasögur og huldufólkssögur hæst. Eru margar þeirra eftirminnileg listaverk.

Þannig mætti lengi telja gersemar þjóðsagnanna. Og óþrjótandi efni verða þar til íhugunar, rannsókna, fegurðarnautnar og listsköpunar fyrir komandi kynslóðir.

Á undanförnum árum hafa verið gefin út þjóðsagnasöfn í veglegum útgáfum. Þar ber að sjálfsögðu hæst söfn hinna miklu safnenda Jóns Árnasonar, Ólafs Davíðssonar og Sigfúsar Sigfússonar. En fjölmörg önnur söfn eru til, þó að minni séu. Er mér til efs að nokkur þjóð eigi annan eins aragrúa prentaðra þjóðsagna. Ekki man ég í svipinn eftir öðru úrvali þjóðsagna en Þjóðsagnabók Sigurðar Nordals. Hún kom út fyrir allmörgum árum í þremur bindum með snilldargóðum inngangi Sigurðar. Úrvalið, sem nú birtist, er langtum stærra og spannar að ég hygg yfir megnið af hinum veigameiri þjóðsögum, eins og fyrr er sagt.

Útgáfan er einstaklega smekkleg að útliti og öllum frágangi. Prentvillur rakst ég ekki á við fljótan lestur. Ber allt þetta vitni um, að lagður hefur verið mikill metnaður í útgáfuna og hvergi kastað til höndum.

Og nú er einungis að bíða útkomu Íslenskra ævintýra. Vonandi verður sú bið ekki mjög löng.

Sigurjón Björnsson