VERULEGAR breytingar eru að verða á breskum fiskiðnaði hvað varðar uppbyggingu hans og stöðu á matvælamarkaði.

VERULEGAR breytingar eru að verða á breskum fiskiðnaði hvað varðar uppbyggingu hans og stöðu á matvælamarkaði. Eiga sumar þeirra rætur að rekja til breytinga á smásölumarkaði en aðrar endurspegla stöðuna að því er varðar framboð og verðmyndun innan greinarinnar. Miklar sveiflur hafa verið á markaðnum fyrir frystar sjávarafurðir í Bretlandi en frá því um haustið 1997 og út allt árið 1998 var um að ræða töluverðan samdrátt. Síðan hefur verið um aukningu að ræða, það er að segja í verðmæti en ekki í magni. Yfirleitt tekur það markaðinn allt að ár að jafna sig á skyndilegum verðhækkunum hvað söluverðmæti snertir en liðið geta allt að þrjú ár áður en salan í magni kemst í það sama og áður var.

Sem dæmi um þetta má nefna hækkanirnar sem urðu á flestum fiski á síðara misseri ársins 1997. Þrátt fyrir þær jókst verðmætið ekki enda minnkaði salan í magni alveg fram eftir síðasta ári. Það er ekki fyrr en nú nýlega sem þess sjást merki að um nokkra verðmætisaukningu sé að ræða.

Rúmlega 74 milljarða kr. markaður

Markaðurinn fyrir frystar sjávarafurðir í Bretlandi er metinn á 74,3 milljarða ísl. kr. og eru inni í þeirri tölu 11,7 milljarðar kr. fyrir rækju og það sama fyrir brauðaða fiskbita. Þá er markaðurinn fyrir fiskfingur og skyldar afurðir áætlaður rúmlega 9 milljarðar króna. Í magni er um að ræða 133.000 tonn og þar af eru fiskfingur 24.000 tonn og önnur brauðuð vara 22.000 tonn. Er hér miðað við tímabilið 1997 til 1999 en þá dróst magnið saman um 11%.

Í rækju og tilbúnum réttum með litlu fiskinnihaldi hefur verið um aukningu að ræða, enda hafa orðið litlar verðhækkanir í þessum vöruflokkum. Tilbúnir réttir með miklu fiskinnihaldi og brauðaðir fiskbitar hækkuðu hins vegar mikið og þar var um samdrátt að ræða, jafnt í magni sem verðmæti.

Breski markaðurinn fyrir kældan fisk og fiskafurðir er metinn á 97,7 milljarða ísl. kr. og þar af er pökkuð vara 63,3 milljarðar kr. og fiskur, sem seldur er hjá fisksölum eða í stórmörkuðum, 34,4 milljarðar kr. Í pökkuðu vörunni er aðallega um að ræða hreina fiskbita eða reyktan fisk, 21,8 milljarðar kr., eða fiskrétti, 14,3 milljarðar kr.

Markaðurinn fyrir kældu vöruna er 132.000 tonn og á fyrrnefndum tíma, 1997 til 1999, var um 6% samdrátt að ræða.

Á þessum tíma jókst verðmæti pökkuðu vörunnar um 13% en aðeins um 3% í magni. Í ferskum fiski út úr búð dróst verðmætið aftur á móti saman um 10% og 17% í magni. Er samdrátturinn mestur hjá sjálfstæðum fisksölum en í stórverslununum var um að ræða 11% verðmætisaukningu en nokkurn samdrátt í magni. Með hæsta markaðshlutfallið í pökkuðu vörunni eru skelfiskur, reyktur lax og tilbúnir réttir.

Uppstokkun á markaði heldur áfram

Sameining fyrirtækja á breska smásölumarkaðnum heldur áfram. Ráða fjórar stærstu smásöluverslanirnar nú tveimur þriðju markaðarins með frystar sjávarafurðir og hlutur þeirra hefur vaxið ár frá ári. 1996 var hann 59,6%, síðan 61,4%, þá 64,5% og var kominn í 66,1% á síðasta ári.

Hefur tilkoma bandarísku stórverslanakeðjunnar Walmart á breska markaðnum ýtt undir þessa þróun og nú er áherslan á lágt verð almenn en minni á alls konar tilboð. Þessari þróun fylgir líka að verslunarrýmið hefur minnkað, vöruúrval hefur einnig minnkað nokkuð og birgjum fækkað. Framboð á vörum í pakkningum verslananna hefur minnkað töluvert á síðustu þremur árum.

Stóru smásöluverslanirnar ráða mestu á markaðnum fyrir sjávarafurðir í krafti stærðar sinnar og vegna þess að þær geta kynnt vöruna undir sínu eigin vörumerki. Munur á verði þessarar vöru frá verslununum og annarrar hefur hins vegar verið að minnka.

Lítil arðsemi

Staðan hjá bresku fyrirtækjum í sjávarafurðum er ekki góð. Af 224 þeirra velta aðeins 10 rúmlega milljarði kr. Hjá 84% þessara fyrirtækja er hagnaður minni en gengur og gerist hjá fyrirtækjum í matvælaiðnaði og 33% skulda meira en nemur eignum. Arðsemin er innan við 10% hjá tveimur þriðju fyrirtækjanna. Það er því ljóst að til þarf að koma mikil hagræðing og ný fjárfesting, enda eiga fyrirtækin í vök að verjast fyrir smásölunni.

Margt bendir til að fiskurinn eigi undir högg að sækja gagnvart annarri matvöru. Tilkostnaður við veiðar og vinnslu er mikill og verðlagið því hátt, eins og sést á því að frá 1997 til 1999 lækkaði lambakjöt í verði um 24%; svínakjöt um 30%; nautakjöt um 10%; kjúklingar um 24% en þorskurinn hækkaði í verði um 22%.

Ferillinn sem fiskurinn gengur í gegnum er oft miklu lengri og flóknari en hjá annarri matvöru. Fyrst má nefna fiskuppboð, þá frumvinnslu, dreifingaraðila, kaupendur, umboðsmenn og aðra framleiðendur. Hér þarf að ráða nokkra bót á og jafnframt leggja mikla áherslu á fullvinnslu.

Heimild: Groundfish Forum,

ráðstefnurit.