HEILBRIGÐISYFIRVÖLD fallast ekki á það að lykt eða óþrifnaður af rekstri Fiskbúðarinnar Norðurbæ í Hafnarfirði sé umfram það sem eðlilegt getur talist fyrir starfsemi af því tagi.

HEILBRIGÐISYFIRVÖLD fallast ekki á það að lykt eða óþrifnaður af rekstri Fiskbúðarinnar Norðurbæ í Hafnarfirði sé umfram það sem eðlilegt getur talist fyrir starfsemi af því tagi.

Guðmundur Einarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að heilbrigðisnefndin hefði komist að þessari niðurstöðu á fundi í fyrradag.

"Vð lítum þannig á að starfsleyfishafi uppfylli skilyrði laga og reglugerða sem um starfsemina gilda um leið og hann hefur lokið við uppsetningu innra eftirlits og fengið það viðurkennt," sagði Guðmundur.

Hann sagði að nefndin hefði bókað að á grundvelli fyrirliggjandi gagna gæti hún ekki fallist á að lykt eða óþrifnaður af rekstrinum, þar sem lengi var rekin fiskbúð en nú fiskheildsala, sé umfram það sem eðlilegt getur talist fyrir starfsemi sem þessa.

Morgunblaðið greindi frá því6. apríl sl. að húsfélag íbúa við Miðvang 41 hefði kvartað undan rekstrinum vegna óþrifnaðar og lyktar og krafist þess að rekstrinum yrði úthýst. Í Miðvangi 41 er ýmiskonar atvinnurekstur á jarðhæð en íbúðir á efri hæðum. Heilbrigðisnefndin hefur nú lokið umfjöllun sinni um kvörtunina með þessari niðurstöðu.