BÆJARRÁÐ Garðabæjar hefur samþykkt að stofna Orkuveitu Garðabæjar.

BÆJARRÁÐ Garðabæjar hefur samþykkt að stofna Orkuveitu Garðabæjar.

Nú þegar rekur bærinn vatnsveitu, sem er hluti af rekstri bæjarins inni í bæjarsjóði, en Ingimundur Sigurpálsson, bæjarstjóri Garðabæjar, sagði í samtali við Morgunblaðið að hvatinn að stofnun sérstakrar orkuveitu væri tilmæli félagsmálaráðuneytis þess efnis að fjármál vatnsveitna sveitarfélaga verði tekin út úr sveitarsjóði. "Þegar það mál var skoðað í samhengi við orkumálaumræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu þótti mönnum rétt að stíga skrefið lengra og stofna Orkuveitu Garðabæjar þannig að ef svo ber við eiga menn möguleika á að fela henni að sinna öðrum þáttum orkumála."

Garðabær hefur nýlega undirritað samkomulag við önnur sveitarfélög sunnan Reykjavíkur um almennt samkomulag á sviði orkumála og Ingimundur var spurður hvort stofnun orkuveitu væri liður í slíku samstarfi. Hann sagði að þetta væri liður í orkumálastefnu almennt. "Það er svo mikil gerjun í orkumálum almennt og margt sem þar á eftir að gerast sem erfitt er að sjá fyrir á þessari stundu. Okkur þótti rétt að gera ráð fyrir að samþykktir þessa nýja fyrirtækis okkar yrðu það víðtækar að það væri hægt að fela því verkefni á þessu sviði ef á þyrfti að halda," sagði hann.

Hann sagði að í fyrstu yrði rekstur Orkuveitu Garðabæjar ekki umsvifameiri en rekstur vatnsveitunnar er í dag: "En að sjálfsögðu munum við setja í gang vinnu við að skoða ýmsa þætti frekar. T.d. er áhugavert að sjá hvort það sé fjárhagslega hagstætt fyrir Garðbæinga að vera með eigin dreifiveitu á rafmagni. En við munum fyrst og fremst beina sjónum okkar að vatnsveitunni á næstu mánuðum."

Garðbæingar kaupa heitt vatn af Orkuveitu Reykjavíkur en kaupa rafmagn annars vegar af Rafveitu Hafnarfjarðar og hins vegar af Orkuveitu Reykjavíkur.