Lögreglumaður í Colombo á Sri Lanka miðar hér byssu á hóp búddamunka en aðrir lögreglumenn, vopnaðir kylfum, reyna að hindra mótmælafund nýja þjóðarflokksins gegn uppreisnarmönnum Tamíla.
Lögreglumaður í Colombo á Sri Lanka miðar hér byssu á hóp búddamunka en aðrir lögreglumenn, vopnaðir kylfum, reyna að hindra mótmælafund nýja þjóðarflokksins gegn uppreisnarmönnum Tamíla.
SKÆRULIÐAHREYFINGIN Tamílsku tígrarnir réðst í gær á varnarlínu stjórnarhers Sri Lanka á Jaffna-skaga eftir að ríkisstjórn Sri Lanka hafnaði á mánudag tillögum þeirra um skilyrt vopnahlé.

SKÆRULIÐAHREYFINGIN Tamílsku tígrarnir réðst í gær á varnarlínu stjórnarhers Sri Lanka á Jaffna-skaga eftir að ríkisstjórn Sri Lanka hafnaði á mánudag tillögum þeirra um skilyrt vopnahlé. Uppreisnarmennirnir beittu bæði vélbyssum og handsprengjum gegn hermönnum og er þetta fyrsta árás Tamílsku tígranna á herinn frá því 30. apríl sl.

"Það var snemma í gærmorgun að stór hópur skæruliða stóð fyrir tveimur árásum á varnarliðið," sagði Ariya Rubasinghe, helsti talsmaður og ritskoðari ríkisstjórnarinnar, en allur innlendur og erlendur fréttaflutningur af stríðinu er ritskoðaður og bannar stjórnin fréttastofum að hafa samband við uppreisnarmenn.

Að sögn Rubasinghe hratt herinn báðum árásunum og neyddi uppreisnarmenn til að hörfa til baka.

Það var sl. mánudag að stjórnvöld á Sri Lanka höfnuðu boði skæruliða tamílsku tígranna um vopnahlé en það buðu þeir til að stjórnarherinn gæti flutt allt sitt lið frá Jaffna-borg, sem talin er miðpunktur tamílskrar menningar og var höfuðborg Tamíla er þeir fóru með stjórn skagans á árunum 1990-1995, enda leggja þeir mikla áherslu á að ná borginni aftur á sitt vald.

Chandrika Kumaratunga, forseti Sri Lanka, sagði á mánudag að Jaffna-borg yrði varin með öllum ráðum. "Við munum aldrei leyfa að hálf milljón Tamíla falli í hendur fasistunum í Tamílsku tígrunum," sagði Kumaratunga í ávarpi til þjóðarinnar og lýsti yfir þeim ásetningi sínum að fara með sigur af hólmi í þessari borgarastyrjöld sem varað hefur í 17 ár.

Áður hafði talsmaður Tamílsku tígranna í London flutt vopnahléstilboðið en það átti að gilda í ákveðinn tíma og meðan stjórnarherinn væri að koma sér burt frá Jaffna.

Mikið mannfall

Stjórnarherinn hefur haldið uppi loftárásum á skæruliða á Fílaeiði, mikilvægri herstöð, sem féll í hendur skæruliða 22. apríl sl. Segja talsmenn hans að margir skæruliðar hafi fallið en það hefur ekki verið staðfest.

Aniruddha Ratwatte, varnarmálaráðherra Sri Lanka, hefur hins vegar nú, í fyrsta skipti, greint frá manntjóni hersins í átökunum um Fílaeiði í lok apríl og sagði hann 358 hermenn hafa verið drepna, 2.440 hefðu særst og 349 væri enn saknað.

Ratwatte sagði enn fremur það vera ætlun hersins að berjast til síðasta manns ef með þyrfti til að verja norðurhluta Jaffna-skaga og kvað hann herinn nú kominn fram fyrir sína fyrri varnarlínu, sem hefði verið um 25 km suðaustur af Jaffna-borg.

Á mánudag hófust einnig umræður í þinginu um hvort framlengja beri neyðarástandi í landinu um mánuð. Stríðsástandi var lýst yfir í síðustu viku og veittu stjórnvöld Sri Lanka þá her og lögreglu aukin völd. Fela lögin um stríðsástand það m.a. í sér að hernum er heimilað að gera eignir manna og öll farartæki upptæk, auk þess sem þau banna einnig verkföll og allar mótmælaaðgerðir.

Í næstum fimm ár réðu skæruliðar öllu á Jaffna-skaga en stjórnarherinn náði Jaffna-borg 1995 eftir mikla bardaga. Að hans sögn féllu þá 500 hermenn og 2.000 skæruliðar.

Colombo, Sri Lanka. AP, AFP.