Rauðir borðar prýddu göturnar í miðborg Ho Chi Minh-borgar eða Saigon er þess var minnst, að 25 ár eru frá lokum Víetnamstríðsins.
Rauðir borðar prýddu göturnar í miðborg Ho Chi Minh-borgar eða Saigon er þess var minnst, að 25 ár eru frá lokum Víetnamstríðsins.
Víetnamstríðið var langt og endaði fyrir tuttugu og fimm árum, 30. apríl 1975. Ég fylgdist með í sjónvarpi ásamt nýju fjölskyldunni minni í Connecticut þegar Saigon féll eins og vegfarandi sem kemur að bílslysi.

Víetnamstríðið var langt og endaði fyrir tuttugu og fimm árum, 30. apríl 1975. Ég fylgdist með í sjónvarpi ásamt nýju fjölskyldunni minni í Connecticut þegar Saigon féll eins og vegfarandi sem kemur að bílslysi. Ásamt milljónum annarra Bandaríkjamanna var ég sem lömuð yfir því að verða vitni að hruni samfélags þar sem hálf milljón Bandaríkjamanna barðist og 50 þúsund létu lífið.

Ég var heppin. Ég var rétt orðin tólf ára þegar ég fór frá Saigon, mánuði fyrir fall borgarinnar, með bandarískum hermanni sem ég hafði kynnst á herspítala þar sem móðir mín og ég vorum sjálfboðaliðar. Þetta var árið 1968, ár Tet-uppreisnarinnar. Við færðum honum hrísbúðing, súkkulaðistykki og tamarind-sælgæti. Hann talaði frönsku við mig. Á meðan hann lá vafinn sáraumbúðum sagði ég honum sögur sem komu honum til að hlæja. Sjö árum síðar, þegar norður-víetnamskir skriðdrekar fóru yfir hlutlausa beltið, kom hann til baka, ættleiddi mig og fór með mig úr landi. Það var nokkrum mánuðum áður en foreldrum mínum tókst sjálfum að flýja.

Örugg heima í stofu fylgdumst við með þegar hópur Víetnama braust inn á lóð sendiráðsins sem þó var gætt af vopnuðum hermönnum. Þyrlur sveimuðu yfir þaki sendiráðsins. Þetta var "Operation Frequent Wind", dulnefni á brottflutningi Bandaríkjamanna frá Saigon. Flogið var með fólk út á S-Kínahaf þar sem Sjötti flotinn tók á móti því en mikill fjöldi flúði einnig sjóleiðis á prömmum, fiskibátum og hverju sem var hægt að koma á flot. Meira en hundrað þúsund Víetnamar flúðu í apríl og maí og nokkrum árum síðar hafði fjöldinn náð tveimur milljónum.

Stríð eru oft óskiljanleg fyrir þá sem verða vitni að þeim og upplifa þau úr einhverri fjarlægð. Upphafið og endalokin, upphafið að endalokum. Þessum spurningum velta sagnfræðingar fyrir sér. Við sem lifðum af stríðið í Víetnam flúðum af því að sagan dæmdi okkur skyndilega til að tapa. Við þurftum að takast á við hvernig best væri að gleyma og hvernig við ættum að lifa lífi sem enginn hafði vottað virðingu, allt fram að minningardegi sem þessum. 30. apríl er kallaður "Frelsisdagurinn" í Víetnam kommúnistanna en víetnamskir útlagar kalla hann "Dag þjóðarmissis".

Hollywood kom Víetnam á kortið á nýjan leik og landið varð að eins konar táknrænu svartholi fyrir Bandaríkjamenn þar sem þeir gátu hellt sér út í sjálfskoðun, svarað fyrir sig og beðið afsökunar. Í myndum eins og Apocalypse Now og Platoon liggja skuggalegir óvinir í leyni í myrkum og daunillum mýrum og skógum; aðstæður sem ýta undir ímyndanir og ofskynjanir. Born on the Fourth of July er táknræn fyrir þær sakir að í henni er svipt hulunni af mikilli sjálfsblekkingu. Þar fylgjumst við með hvernig föðurlandsvinur sem veifar fána umbreytist í mótmælanda gegn stríði. Deer Hunter notar Víetnam sem myndlíkingu fyrir geðveiki. Þar getur sérhver smellur skammbyssunnar í rússnesku rúllettunni skilið milli lífs eða dauða fyrrum bandarískra hermanna. Þeir búa í litlu bæjarfélagi og eru háðir geggjun stríðsins og ógnum þess.

Löngu eftir að stríðinu var lokið stóð Víetnam alltaf fyrir eitthvað annað, aldrei fyrir það sem það var; hreint út sagt miklar hörmungar. En fyrir okkur Víetnamana sem gerðum Bandaríkin að nýjum heimkynnum stendur Víetnam ennþá fyrir heimaland okkar en líka meðvitaða gleymsku og jafnvel enn meðvitaðra minni. Á gráu svæði milli gleymsku og endurminninga hófu flest okkar nýtt líf.

Því er 30. apríl dagur nýrrar sköpunar og endurfæðingar. Nú tuttugu og fimm árum eftir að Saigon féll hefur flestum okkar tekist að þokast frá jaðri bandaríska samfélagsins. Við lærðum ensku og tókst að tileinka okkur hin rámu hljóð jafnframt því að viðhalda mörgum afbrigðum okkar gömlu móðurtungu. Saigon hefur fengið annað líf víða í Bandaríkjunum, t.a.m. í Orange County í Kaliforníu, í Houston og Dallas, Arlington og Falls Church og Virginíu. Þar hafa verið reistar "Litla-Saigon"-verslanamiðstöðvar með víetnömskum stórmörkuðum í bandarískum anda, veitingahúsum, bakaríum, naglasnyrtingar- og hárgreiðslustofum, heilsugæslustöðvum og lögfræðistofum, ferðaskrifstofum og hvers kyns verslun og þjónustu. Ísbúðir heita nöfnum eins og "Givrard" og "Brodard" og veitingahús heita "Pasteur" eftir veitingahúsum sem voru vinsæl í Saigon. Oft má sjá víetnamska fánann, gulann með þremur, rauðum, láréttum röndum blakta við hlið hins stjörnumprýdda bandaríska.

Minningar frá Víetnam gera landið að draumastað með girnilega blöndu lyktar og hljóða. Andi Víetnams er ekki langt undan kynslóðinni sem alin er upp sem Bandaríkjamenn að hálfu. Hann má finna í sögum foreldra þeirra og ekki síst, á öld tækninnar, með því að fara inn á vefsíður eins og "Viet.story", "Viet.travel", o.s.frv. VC er ekki lengur skammstöfun fyrir Víetkong (Vietcong) heldur framtaksfjárfesti (venture capitalist).

Tuttugu og fimm árum eftir flóttann frá Víetnam á sér stað flutningur fólks til baka. Viet Kieu, eins og víetnamskir útlagar eru kallaðir, snúa nú til baka til Víetnam í þúsundatali og koma færandi hendi með dýrmæta, bandaríska dollara. Nú má finna þar ísbúðir sem heita "Baskin-Robbins", veitingahús í eigu innfæddra að nafni "Café California" og bari sem skírðir hafa verið "Apocalypse Now". Fyrir þá sem eftir urðu eru Bandaríkin draumalandið og bandarískt vegabréf er eftirsótt.

Í Ho Chi Minh-borg, nafn sem jafnvel opinberir starfsmenn kommúnistastjórnarinnar nota ekki, er Saigon jafn frökk, kraftmikil og áræðin og áður. Menn taka varla eftir Ho Chi Minh þótt grilla megi í andlitsmyndir af honum við hlið skilta frá Sony og Coca-Cola. Fyrir 1986 var glæpur að eiga eigið fyrirtæki. Vegna umbóta í efnahagslífinu hefur einkageirinn tekið fram úr hinum opinbera, einkum í Saigon. Alls staðar er fólk með varning til sölu, á mörkuðum borgarinnar, á gangstéttum og í húsasundum. Eftir tuttugu og fimm ár brostinna vona birtist ákveðinn frumkraftur í hvini mótorhjólanna sem þjóta skipulagslaust um í umferðinni en sama kraft má einnig merkja í þeirri staðreynd að borgin er að lifna við á nýjan leik.

Fyrir fjórum árum var mér boðið að halda röð fyrirlestra á vegum menntamálaráðuneytisins bandaríska. Við það tækifæri tókst mér að koma því til leiðar að frændi minn, fyrrum Víetkong-hermaður, sem varð eftir við sigur kommúnistanna, fékk að koma hingað. Flestar erlendar fjárfestingar eiga sér stað í Saigon og langaði hann að vita hvernig hann gæti laðað einhverjar þeirra til heimahéraðs síns, sem er á vatnasvæði Mekong-árinnar. Opinberum starfsmönnum í Hanoi gremst einnig að fjárfestar skuli koma til þeirra til að fá leyfi til samningaumleitana sem verða svo að viðskiptum suður frá.

Frelsisdagurinn, 30. apríl, ber svo sannarlega nafn með rentu í Víetnam. Ein og hálf milljón Víetnama lét lífið í stríðinu og þrjár milljónir særðust. En ég segi eins og frændi minn; ætli suðrið hafi ekki frekar frelsað norðrið en öfugt þegar upp er staðið.

©The Project Syndicate.

Lan Cao er höfundur bókarinnar "Apabrúin", sögu um flóttamenn frá Víetnam, líf þeirra og fall Saigon. Næsta bók hennar fjallar um smygl á Kínverjum frá meginlandi Kína til Kínahverfisins í New York. Vinnuheiti hennar er "Chinaman's Chance" og kemur út á næsta ári hjá Viking Press-útgáfunni.

Höf.: ©The Project Syndicate