Davíð Oddsson
Davíð Oddsson
VÍKINGALEIÐTOGI segir Hague til er fyrirsögnin á grein um Davíð Oddsson í nýjasta hefti brezka tímaritsins The Spectator .

VÍKINGALEIÐTOGI segir Hague til er fyrirsögnin á grein um Davíð Oddsson í nýjasta hefti brezka tímaritsins The Spectator. Þar fjallar Kristján Guy Burgess, fréttaritari ríkisútvarpsins í London, um Davíð sem þann forsætisráðherra, sem lengst hafi setið á Vesturlöndum og segir eitt og annað af landi og þjóð í leiðinni.

Í greininni gefur Davíð brezkum íhaldsmönnum það ráð að standa fast á sínum skoðunum og bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lengi verið stærsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi og staðið fast á sínum stefnumálum, hvort heldur í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þykir Davíð það ljóður á ráði brezkra íhaldsmanna að hafa skipt um skoðanir í stjórnarandstöðunni og bendir á lágmarkslaunin sem dæmi um mál, þar sem þeir hefðu betur haldið andstöðu sinni áfram, enda þótt sú afstaða sé ekki vinsæl nú.

Meðal annarra mála kemur Davíð inn á Evrópumálin og lýsir þar óbreyttri stöðu Íslands áfram. Hann lætur þung orð falla í garð þeirra leiðtoga Evrópu sem innan Evrópusambandsins hafa beitt sér gegn austurríska stjórnmálamanninum Jörg Haider og segir vítavert að Evrópusambandið reyni að hafa áhrif á það hverjir gegni ráðherraembættum í lýðfrjálsum löndum burtséð frá því hvað meðlimir eins ríkisstjórnarflokks hafi einhvern tíma sagt. "Satt að segja finnast mér sum ummæli Haider smánarleg en það er vandamál Austurríkismanna, ekki Brussel," segir Davíð.

Í greininni eru rakin þau umskipti til hins betra sem hafa orðið á Íslandi í forsætisráðherratíð Davíðs, sem sjálfur segist leggja mest upp úr því frjálsræði, sem komizt hafi á og hafi leyst hann undan hlutverki eins konar tilbeðins skömmtunarstjóra.

Greininni lýkur með tilvísun til þess að Íslendingar hafi átt heimsins sterkustu menn og fegurstu konur, eigi nú fótboltalið í Bretlandi og hafi á sínum tíma sigrað Breta í þorskastríði.

London. Morgunblaðið.